<$BlogRSDUrl$>

29 desember 2004


Jæja, þetta fer að verða ágætt.

Þótt jólahelgin sé liðin og minn búinn að vera í vinnunni á þriðja dag þá eru samt ennþá jólin. Við fjölskyldan förum í einkusslags jólaboð upp úr fjögur, hjá Ellu frænku minni, og upp úr klukkan sex höldum við þaðan á jólaskautaball fyrirtækisins, með jólasveinum og jólapizzuveislu.

Aðfangadagskvöld var ágætt. Ég eignaðist bæði rauðvínskaröflu og Heimkomu hilmis. Kvöldið var þó fyrst og fremst sönnun þess að fjölskyldumeðlimir okkar frúrinnar reka fæstir inn nefið á þetta setur hérna, enda fengum við bæði Leysingja sakanna og Óvissa tíma dauðans í jólagjöf. Við erum búin að skipta leysingjunum út fyrir Kleifarvatn. En kannski gefum við honum Þráni breik. Auk þessa fengum við Belladonna-skjalið.

Ég fékk líka Bítlaávarpið og Svartur á leik, sem ég er einmitt að lesa núna. Hún er öðruvísi en fyrri verk höfundar. Ég er enn sem komið er beggja blands í áliti mínu á því hvernig til tókst. Ég er þó ekki nema tæplega hálfnaður og fráleitt búinn að fullmóta mér skoðun ennþá.

Fyrst og fremst var þetta náttúrulega hátíð barnanna. Á tengdaheimilinu ríkir sá sérstæði siður að lesa jólakortin á undan því að gjafirnar eru opnaðar. "Á mínu æskuheimili tíðkaðist að börnin væru pyntuð með glóandi töngum," sagði ég ekki við tengdapabba. Ekki frekar en áður. En Hrefna blessunin stóð sig eins og hetja. Sú litla var ekki alveg með á nótunum framan af, en hún var fljót á bragðið sýndist mér. Ég var nýbúinn að plægja í gegnum kortabunkann og enn með borðið fullt af óopnuðum gjöfum fyrir framan mig þegar allt var horfið undan trénu og stelpurnar farnar að rífast um járnbrautarlestarnar og pleimódótið sín á milli.

Sumsé, eins og áður var getið eyddum við jólunum með tengdaforeldrum mínum. Og eins og skyldan býður þegar haldið er út á land (les: í Grafarvog) þá fer maður ekki þangað fyrir minna en að gista í tvær nætur. Kötturinn var enn á lífi þegar við komum heim, þótt hún væri greinilega fyrir nokkru búin með allan þurrmat, vatn og jólatúnfiskinn sem við skildum eftir handa henni á aðfangadag.

Og þá er farið að styttast í áramótin.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com