<$BlogRSDUrl$>

10 desember 2004


Hvað langar mig í í jólagjöf?

Það er nú sitthvað. Snyrtipinnalegar og metrósexúal flíkur koma alltaf til greina - sérstaklega ef það tengist bindismenningu. Ég sýti mjög að eiga ekki rauðvínskaröflu sem passar við kjallarann minn. Þetta er það sem ég man eftir úr lífstíls-geiranum.

Í skemmtunar-geiranum er útvíkkaði og óútkomni DVD-diskurinn með Hilmir snýr heim efst á blaði. En ég held ég þurfi nú ekki að hafa miklar áhyggjur af að missa af honum. Tveir geisladiskar koma strax upp í hugann: High með The Blue Nile og Smile með Brian Wilson. Og Popppunktsspilið - að sjálfsögðu. Svo gæti reyndar farið að við hjónin gæfum okkur sjálfum það í jólagjöf.

Þá eru það bækurnar. Púff. Þar er af nógu að taka.

Ég bókstaflega verð að eignast Sólskinsfólkið Steinars Braga og Svartur á leik eftir Stefán Mána. Einnig er ég mjög spenntur fyrir Samkvæmisleikjum Braga Ólafssonar. Þetta er topp þrjú listinn þessi jólin.

Listinn yfir þá sem koma þar á eftir er skelfilega langur, ég mun aldrei komast yfir að lesa allt sem mig langar: Baróninn (Þórarinn Eldjárn), Bátur með segli og allt (Gerður Kristný - ég las fyrsta kaflann um daginn og hann kom mér ánægjulega á óvart), Fífl dagsins (Þorsteinn Guðmundsson), Fólkið í kjallaranum (Auður Jónsdóttir), Hugsjónadruslan (Eiríkur Örn Norðdahl), Kleifarvatn (Arnaldur), Níu þjófalyklar (Hermann Stefánsson), Vélar tímans (Pétur Gunnarsson), Ástarflótti (Bernhard Schlink), Barnið og tíminn (Ian McEwan), Ég er ekki hræddur (Niccoló Ammaniti - ef ekki bókin, þá sé ég vonandi myndina einhvern tíma), Sendiferðin (Carver), Snjórinn í Kilmanjaro (Hemingway), Eftirmál (Freyr & Njörður), Hvar frómur flækist (Einar Kára), Mynd af ósýnilegum manni (Auster).

Vitaskuld eru líka margar sem ég er ekkert yfir mig spenntur fyrir. Kannski ég tíni sérstaklega til þær sem hvað hæst ber í flóðsumfjölluninni: Bítlaávarpið (aðallega fyrir það hve illa lesinn ég er í Sundabókunum hans Einars Más), Karitas án titils (veit ekki akkurju - ég hef annars haft gaman af Kristínu Marju Baldursdóttur), Ellefu mínútur (ekki enn byrjaður á Alkemistanum), Malarinn sem spangólaði (liggur ekkert á - get beðið eftir kiljunni), Múrinn í Kína (eins og mér líkaði vel við Góða Íslendinga þá kveikir þessi merkilega lítið í mér, þrátt fyrir fína dóma), Barn að eilífu (bara... ekki fyrir mig. Hvað sem hver segir. Ókei?), Halldór Laxness, Ólöf eskimói. Ég myndi biðja um Blíðfinnsbókina, ef ég ætti ekki enn eftir að lesa þá næstu á undan. Við hjónin kaupum okkur sennilega kiljurnar einhvern tíma.

Kannski skjátlast mér - mér gætu þótt þetta frábærar bækur ef ég tæki þær upp og læsi. En. Hver sá sem á hinn bóginn gefur mér einhverja af eftirtöldum bókum á yfir höfði sér eilífa bannfæringu mína, og ef ekki vinslit, þá í það minnsta að ég lesi rækilega yfir hausamótum viðkomandi, hvað sem líður öllum góðum vilja og þeim hug sem liggur að baki:

Dauðans óvissi tími eftir Þráin Bertelsson,
Sakleysingjarnir eftir Ólaf Jóhann Ólafsson,
Kiljan eftir Hannes Hólmsteinn Gissurarson (ekki einusinni uppá djókið),
Queer Eye for the Straight Guy bókin.

Svo má geta þess að ég er nú þegar búinn að festa mér Tvisvar á ævinni eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, Smáglæpi og morð, sögur úr glæpasagnakeppni Grandrokks og hins íslenska glæpafélags, Geðbilun í ættinni og fleiri sögur eftir William Saroyan, og Heimsmetabók Guinness 2004 (ekki spyrja!).

Auk alls þessa, þá langar trúarritafíkilinn í mér einhvern tíma, eins og áður, til að komast yfir Tómasarguðspjall, Apókrýfu bækur Gamla Testamentisins og Kóraninn. En það liggur ekkert á, þar sem ég er enn stökk í spámönnum Gamla Testamentisins hvað varðar þá deildina.

Svo væru fleiri klukkustundir í sólarhringinn (og dagar í vikuna) líka sérdeilis vel þegnar, svo maður komist einhvern tíma yfir að lesa allt það sem mann langar til.

Eins og sést, þá er úr nógu að velja.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com