<$BlogRSDUrl$>

08 desember 2004


Ég blaðaði í gegnum Bókatíðindi 2004 um daginn og tók eftir dálitlu merkilegu þegar ég renndi augunum yfir þýddu skáldverkin, og þá sérstaklega það sem mætti kalla "sagnfræðilegar spennubækur." Lítum aðeins á nokkra þýdda titla sem koma út fyrir þessi jól:

Belladonnaskjalið.
Da Vinci lykillinn.
Danteklúbburinn.
Bulgari-sambandið (þessi er reyndar af allt öðrum toga en hinar, en vonandi gefur auga leið af hverju hún er nefnd með þeim).

Fyrir ári kom út bók í sama geira sem hét Dumasarfélagið.

Hummm. Er ekki eitthvað mynstur í gangi hérna? Er kannski lykillinn að því að ná blokkböster-upplagi á harðspjaldareyfurum í dag ekki flóknari en að velja rétta nafnið? Formúlan virðist einföld:

1) Fyrri hluti titils þarf að vera mátulega obskúr en þó spennandi nafn, helst úr mannkynssögunni.
2) Seinni hluti titils þarf helst að vísa til einhvers lags leyndardóms, launhelgar eða lokaðs félagsskapar.
3) Ákveðinn greinir eintölu er abbsolútt möst.

Ég ætti kannski að drífa í að festa mér réttinn til að þýða þá ágætu bók, Kalkútta-litninginn? Er fræðilegur séns að það gæti klikkað?

Svo er varla langt í að íslenskir höfundar fari að gefa út íslensk skáldverk sem falla að módelinu. Nei heyrðu, Viktor Arnar Ingólfsson er meir að segja löngu búinn að skrifa Flateyjargátuna, þá ágætu bók: Flís við rass.

En hvað fleira? Hvaða leyndardómar bíða þess að íslenskir skáldsagnahöfundar reyni sig við formúluna?

Reykholts-handritið?
Laxness-mafían?
Reykjavíkur-súlan?
Egils-silfrið?
Hriflu-heilkennið?

Tímaspursmál. Bara tímaspursmál.

Næst er það svo bara jólahugvekjan, ef því nafni má kalla. Hún birtist á morgun, eins og lofað var.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com