<$BlogRSDUrl$>

09 desember 2004


Það er svo margt sem hryggir mig. Ekki sýknt og heilagt, en þó alltaf endrum og sinnum. Og svo sorglega oft það sama aftur og aftur.

Til dæmis:

Það er svo mikið af stefnulausri reiði í kringum okkur. Unglingsstúlkur leggja hver aðra hnífi í húsasundum. Miðaldra menn eru barðir til óbóta á sunnudagsgöngu í garðinum.

En þessi stefnulausa reiði er ekki bara eitthvað sem er allt í kringum okkur. Hún er líka inni í okkur sjálfum.

Fyrirtækjaforkólfar skammta sjálfum sér nokkurhundruð millur í kaupauka, og ráðamenn landsins fá sauðsvartan almúgann með sér í innblásið Júdasaröskur til að fæla þá ofan af því. Þeir hinir sömu ráðamenn eru varla búnir að snúa sér við í skotgröfinni þegar þeir snuða öryrkja þess hins sama lands um nokkurhundruð millur og skammta sjálfum sér í lífeyrisauka, og sauðsvartur almúginn rís upp á afturlappirnar í reiði sinni yfir hrokanum í þeirri valdastétt sem alltaf þykist öllu ráða. Eitthvað verði að gera.

Einu sinni sem oftar.

Eiturlyfjakaupmaður limlestir laganna vörð í æsispennandi bílaeltingaleik um höfuðborg óttans svo slegið er upp með stríðsletri og upphrópunarmerkjum. Fólk stingur saman nefjum og hneykslast yfir ástandinu í þjóðfélaginu í dag, hvað sé orðið okkar starf í sexhundruð sumur og hversu skelfilega vægt sé tekið á ofbeldisseggjum og sölumönnum dauðans í íslenska refsikerfinu. Eitthvað þurfi til bragðs að taka.

Einu sinni sem oftar.

Tíminn líður um sinn og sami maður - orðinn vitstola á vegferð sinni - vegur annan ógæfunnar son sem fylgt hefur svipuðum sorgarferli allt til endaloka í kvistherbergi við Klapparstíginn. Fólk er slegið yfir ótíðindunum, en lætur sér að mestu fátt um finnast og hlakkar létt í barminn yfir því að tveimur illfyglum sé færra á götum Reykjavíkur, annað hrokkið uppaf og hitt komið bakvið lás og slá. Farið hafi fé betra. Við það situr um sinn uns ungur bróðir ritar ofurlítinn og hjartnæman pistil um orðna atburði frá sjónarhóli aðstandanda, góðan pistil og þarfan, sem vekur til umhugsunar um manneskjurnar að baki þeim fréttum sem við rífum í okkur ristaðar með morgunkaffinu. Um það hvernig hliðarnar á hverju máli eru oftar en ekki fleiri en ein, og fleiri en tvær. Þá gerast þau undur og stórmerki að pöpullinn klökknar, reytir klæði sín, hár og skegg og hrópar froðufellandi af geðshræringum með tár í augum að það verði að bæta úr málefnum geðsjúkra og annarra þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það verði að gera eitthvað í þessum málum.

Einu sinni sem oftar.

Og það er sama hvert hitamál dagsins er. Mánuðir líða. Þess vegna ekki nema vikur. Jafnvel dagar.

Og loks er eins og ekkert hafi gerst.

Hver sem augu hefur, hann sjái, að téðum aðstandanda var eiður sær með skrifum sínum. Hann vildi vel. Og gerði vel. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Til viðbótar þeim sem að ofan var getið voru einnig nokkrir (en allnokkru færri) sem settu út á skrifin - fannst þau ómerkileg, ómakleg, óekta. Og fengu fyrir vikið yfir sig holskeflu svara frá fólki sem úthúðaði þeim, kallaði þá óþroskaða og tilfinningadofna, fannst skrif þeirra fyllt öfundsýki og yfirhöfuð ómerkileg, ómakleg, óekta.

Öll þessi stefnulausa reiði.

Ég get ekki að því gert, en mér finnst merkasta hliðin á þessari grein sem toggipop reit fyrir réttu ári ekki vera það hversu góður penni hann er (þótt hann sé það) eða hvað hann er mikil hetja (sem ég get sosum skilið að fólk kalli hann) eða úrræðaleysið í umönnun geðfatlaðra einstaklinga í þjóðfélaginu í dag (sem er eflaust ekki í nógu góðu ástandi, en þó ábyggilega miklum mun skárri en hún hefur lengst af verið).

Nei.

Það sem mér fannst merkilegast við þessa grein sýndist mér fara mestan part fyrir ofan garð og neðan hjá þjóðinni.

Það sem þessi pistill minnti mig hvað harðast á er hversu þarft okkur það er að rækta með okkur kærleika og skilning í garð náungans.

Já ekkert svona. Ég veit að þetta er nánast orðrétt upp úr Guðspjöllunum. En það er samt satt.

Einhverjum finnst eflaust að það sé hallærislega gærdagslegt að vera ennþá að velta sér upp úr þessum málum öllum. En er það ekki einmitt kjarni málsins? Á þessu ári sem liðið er síðan umrædd grein birtist á internetinu hefur smám saman fennt í sporin; þjóðin sem klökknaði í myrkrum síðasta desembers bauð heim nýju ári og fagnaði svo sumri með hækkandi sól og hjá henni komu brátt tímar til að snúa sér að gleðilegri og persónulegri viðfangsefnum. En leitinni að næsta sorglega máli sem hægt var að fella tár yfir við tölvu- eða sjónvarpsskjáinn (eða yfir blaðinu með morgunkaffinu) lauk ekki nema tímabundið:

Þjóðin er harmi slegin þegar ógæfusöm móðir myrðir barn sitt í sturlan og annað sleppur með naumindum.

Svo kemur nótt. Og nýr dagur.

Þjóðin hneykslast þegar alræmdum flokksgæðingi er skipað á bekk í æðsta dómsvaldi Íslands, og þykir gróflega vegið að þrískiptingu ríkisvaldsins.

Svo kemur nótt. Og nýr dagur.

Þjóðin logar af hneykslan þegar sannaður heimilisofbeldisseggur valsar út úr réttarsal án þess að refsing sé honum ákveðin.

Svo kemur nótt. Og nýr dagur.

Þjóðin lætur af hendi rakna tár í kjöltu krabbameinssjúkra barna þegar fallin vonarsöngstjarna játar án skömmustu að hafa þegið dágóða summu til að troða upp í þeirra nafni.

Tár í þágu góðs málefnis.

Og loks er eins og ekkert hafi gerst.

Öll þessi stefnulausa reiði.

Hustler kemur bara einu sinni í mánuði (Ó! Dagar!). En Fólk með Sirrý kemur í heimsókn í stofuna á hverju miðvikudagskvöldi. Og DV er hægt að gleypa í sig hvern einasta morgun með kaffinu.

Og í sjálfu sér er ekkert að því. Fólk hefur sinn óskoraða rétt til að láta klæmast á tilfinningum sínum - rétt eins og kynhvötinni - svo lengi sem það langar til og engin lög eru brotin við framleiðsluna. En mikið væri nú indælt, þegar fólk er búið að fylgja sinni tilfinningalegu fróun til fullnægingar, ef það gæti þá numið staðar og leitt aðeins hugann að náunga sínum á bakvið fréttina, hvort sem það er harmi slegin móðir, hlunnfarinn húseigandi, eða jafnvel dæmdur ofbeldisseggur. Sölumaður dauðans.

Síðast en ekki síst gæti fólk svo athugað hvort ekki sé allt gott að frétta af þeim sem standa því nær. Heyrðu, ég sting hérmeð uppá að þú gerir það sem snöggvast. Hafðu samband við einhvern sem þú hefur ekki frétt af alltof lengi. Vittu hvort ekki sé hægt að fá ágætan klímax út úr því að finna til með þeim sem þér þykir vænt um. Sjálfs er höndin hollust.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com