<$BlogRSDUrl$>

19 nóvember 2004


Mig langar að segja dálitla sögu úr sumarfríinu.

Þetta var í byrjun júlí og við vorum á leiðinni heim. Við vorum í Kaupmannahöfn, búin að keyra alla leið sunnan frá Ulm í Bæjaralandi, úr glampandi sólskini, upp í gegnum gervallt Þýskaland, á rétt rúmum sólarhring. Við gistum um nóttina á sveitabæ skammt frá Bergen, keyrðum morguninn eftir upp til Puttgarden og tókum ferjuna yfir til Ystad, þaðan sem við keyrðum til Kaupmannahafnar.

Það var þungt yfir og dumbungur. Dætur okkar, eins árs og þriggja, voru orðnar dálítið slæptar eftir keyrsluna. Eins og við hjónin. Það var tvennt sem sú eldri átti eftir sem við vissum að hana langaði að prófa meðan hún væri í útlöndum: Hún vildi fara í járnbrautarlest. Og þrátt fyrir að hafa skoðað fleiri dýragarða en tölu á festi í ferðinni, þá hafði hún enn ekki séð tígrisdýr.

Við komum á Kastrup, skiluðum af okkur bílaleigubílnum og komum töskunum okkar í geymslu. Enn voru fjórir tímar til stefnu áður en við skyldum tékka okkur inn. Svo við sögðum þeirri eldri að nú væri langþráður draumur að rætast: við ætluðum að fara í járnbrautarlest. Það þótti henni gaman að heyra. Stefnan var tekin á Dýragarðinn í Kaupmannahöfn, og eftir flæking á milli lesta og strætisvagna og töluverðan göngutúr í dumbungnum römbuðum við loks á aðalhlið dýragarðsins. Túrinn um hann var ánægjulegur. Hann hékk þurr lengst af á meðan við vorum þar. Stelpan sá tígrisdýr.

Minnisstæðasta augnablikið var samt skömmu eftir að við höfðum stigið inn í lestina á Kastrup, á leið niður til Kaupmannahafnar. Við vorum öll dálítið slæpt eftir þvælinginn, konan mín stóð yfir yngri stelpunni þar sem hún sat í regnhlífarkerru frammi við dyrnar. Ég sat með eldri stelpuna í kjöltu mér úti við gluggann. Hún var með báðar hendur á glerinu og hallaði enninu upp að því. Í fyrstu sást ekkert út um gluggann nema svört iður jarðar. Svo birtist glæta framundan.

-Vá, sagði dóttir mín.

Lestin brunaði út úr göngunum og rann eftir niðurgröfnum stokki með hlaðna veggi á báðar hliðar. Það rigndi.

-Váá, sagði dóttir mín.

Smám saman sléttist úr börmum stokksins og þeir breyttust í grasi gróinn aflíðandi halla. Við sáum ekkert nema þessar grasivöxnu brekkur sem teygðu sig upp í þungbúinn himininn. Rigningartaumar skriðu eftir glerinu. Þar fyrir utan var ekkert annað en skýin og sölnað grasið sem þaut hjá á ógnarhraða.

-Vááá, sagði þriggja ára dóttir mín, þetta er svo fallegt.

Og ég, sem var dálítið niðurdreginn eftir asann og rekistefnuna á flugvellinum, og hafði dálitlar (en ástæðulausar) áhyggjur af því hvort við hefðum tíma til að hendast þetta, ég gerði mér allt í einu ljóst hvað hún hafði rétt fyrir sér, að það sem skipti máli var að staldra við og njóta sinunnar undir skýjabökkunum, rigningartaumanna á glerinu með dóttur minni.

-Já, það er alveg rétt hjá þér ástin mín, svaraði ég, þetta er mjög fallegt.

Ég faðmaði hana að mér. Notaði tækifærið um leið til að strjúka á mér kinnina.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com