<$BlogRSDUrl$>

12 nóvember 2004


Ég er kominn í bindindi. Mánudaginn í síðustu viku fór ég að minnka við mig kaffineysluna (2-6 könnur yfir daginn), og trappaði mig á rúmri viku úr tveimur könnum niður í örlitla botnfyllislús í morgunsárið í fyrradag.

Þetta er nokkuð sem ég geri stundum - afeitra mig til að ganga hreinn í eina, tvær, þrjár vikur áður en ég byrja aftur. Í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta hætti ég bara einn góðan veðurdag, og uppskar höfuðverk andskotans næstu tvo sólarhringa á eftir. Síðan þá hef ég lært að trappa mig niður til að fyrirbyggja líkamleg fráhvarfseinkenni. En hitt hef ég aldrei orðið jafnáþreifanlega var við og í þetta skiptið, og það eru sálrænu fráhvarfseinkennin.

Ég er búinn að halda mér þurrum í tvo daga núna og ég man ekki til þess að hafa áður fundið fyrir þeim jafnsterkum. Og þá á ég ekki bara við hve freistandi er að falla þegar farið er með vinnufélögunum í kaffipásu og spjall. Nei, ég á líka við að ég finn langt að þegar einhver gengur hérna inn eftir ganginum með nýmalað kaffi í krús. Það eimir eftir af því í óratíma. Og vaninn er svo sterkur: Þegar ég geng inn um segulhliðin í vinnunni þarf ég að minna mig á það að það er ekki lengur fyrsta morgunverkið að ganga að maskínunni og skenkja sér. Og þegar ég stend upp frá tölvuskjánum til að rétta úr mér þá fylgir því ekki sjálfkrafa göngutúr niður að kaffivélinni.

Valur hafði rétt fyrir sér: við erum öll helvítis þrælar.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com