<$BlogRSDUrl$>

22 október 2004


Síðustu mánuði hef ég fengið með reglulegu millibili boð um það að vera skráður í bók þeirra sem hafa unnið mikil vísinda- og fræðaafrek á tuttugustu öldinni (eða eitthvað þannig) frá félagi sem kallar sig International Biographical Centre, og virðist vera staðsett í Cambridge, Englandi - sjálfri vöggu mannsandans. Mér sýnist ekkert benda til þess að um neins konar gabb sé að ræða, í mesta lagi tilraun til að selja fólki þess eigin hégóma, innrammaðan og greyptan í silfurskjöld. Ég sé dálítið eftir að hafa ekki haldið til haga póstunum frá þeim krökkunum í IBC í gegnum tíðina, því mér sýnist á öllu að gylliboðin gerist sífellt stærri, flottari og kræsilegri. Nú síðast var mér tjáð að nefnd sérfræðinga hefði komið saman og úrskurðað að ég væri í hópi þeirra 200 sem hvað helst ættu skilið að njóta viðurkenningar á mínu sviði, og fá veglegan skjöld því til staðfestingar. Í hjálögðu svarbréfi (RSVP) var mér svo boðið að fylla út hvaða svið ég vildi að það væri.

Hvernig orðaði Groucho Marx það aftur? Aldrei dytti mér í hug að ganga í félagsskap sem þætti ég þess verður að bætast í þeirra raðir.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com