<$BlogRSDUrl$>

22 október 2004


Það bönkuðu upp á hjá mér tvær litlar stelpur í gærkvöldi, með fangið fullt af eldhúsrúllum og klósettpappír. Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum kvöldum síðan lofuðum við frúin þeim að við skyldum kaupa eitt karton af hvoru á fjögurþúsundkall. Ég bauð þeim í bæinn meðan ég stökk af stað til að redda greiðslunni. Spurði hvort þær tækju ekki ávísun.

Þær litu á mig forviða.

"Þið vitið hvað ávísun er, er það ekki?" spurði ég.

Þær hristu hausinn í kór og litu hvor á aðra. Hvunnlags krimmi er þetta nú eiginlega, las ég úr augunum á þeim. Á nú að reyna að snuða okkur um bissnessinn?

Eftir að ég hafði sagt þeim að ég væri ekki með peninginn á mér í seðlum, og fengið það staðfest að þær tækju ekki kort, þá útskýrði ég fyrir þeim hvað ávísun væri og hvernig hún virkaði.

"Þið getið farið með þetta í bankann og fengið peninginn í staðinn."
"Handhafa þýðir að sá fær peninginn sem hefur ávísunina í hendinni."
"Það er hægt að stela þessu af ykkur alveg eins og alvöru peningum."
"Spyrjið bara mömmu ykkar þegar þið komið heim."

Fyrir rest þá gat ég fengið þær til að taka við þessu. En mér fannst þær ekkert alltof öruggar á svipinn þegar ég ýtti þeim aftur út í kuldann.

Kvöldið var að öðru leyti beggja blands. Sú yngri er veik eina ferðina enn. En hitt var betra, að ég hélt upp á gleðitíðindi fyrradagsins með því að fá mér einn Afvelta svartan bjöllusauð. Hann var ljúfur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com