<$BlogRSDUrl$>

08 september 2004


Veturinn er hér með opinberlega kominn. Í þessu grályndistíðarfari sem ríkir yfir höfuðborginni lungann úr árinu er vitaskuld ómögulegt að miða við eitthvað svo kaprísjöst sem fyrsta snjóinn, eða næturfrostið ("Ég veit að þér finnst það helvíti hart / hvað það haustar snemma á vorin..."), í besta falli að hægt væri að taka mið af því hvenær gæsirnar fljúga vekk. Fyrir utan það að þær eru hættar að mjakast spönn frá rassi - hanga bara betlandi niðri á Tjörn og skíta í Hljómskálagarðinum veturinn langan.

Nei, sá gæsasöngur sem boðar komu Veturs Konungs hjá mér er ekki sá sem heyrist þegar flogið er suður heiðar með fjaðraþyt og... öhm... söng. Onei onei. Heldur er það sá söngur sem heyrist þegar mætt er á fyrstu kóræfingu vetrarins. Það var einmitt í gær og var glatt á hjalla. Ég hitti þar fyrir Bassann, og mun hann eflaust hafa eitthvað að segja um samkunduna á sínum eigin vettvangi.

En þetta var ósköp gaman, að vísu var ekkert sungið eftir nótum, heldur var farið yfir vetrardagskrána í grófum dráttum, og síðan leiddi Gunnar Ben í ögn hippalegum en þó ágætum "hópeflisæfingum." Sérdeilis var gaman að hlusta á sjálfan sig og aðra í spuna á mónólítískri músík, í anda þeirrar sem heyra mátti í Tvöþúsundogeinum, Ódysseifskviðu Himingeimsins, og var þar sögð samin af ungverska klikkhausnum György Ligeti.

Sumsé, vetur er kominn, lengi lifi Vetur Konungur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com