<$BlogRSDUrl$>

30 september 2004


Ætli það sé ekki kominn tími til að ég loksins tjái mig um mesta hitamál dagsins í dag. Nefnilega það hvert eigi að vera þjóðarblóm íslendinga.

Ég get ekki að því gert, en eins og mér fannst þetta hallærisleg hugmynd þegar ég heyrði fyrst af henni, þá hef ég alltaf hrifist af henni meira og meira. Og nú er svo komið að ég á mér mín uppáhöld og viðurstyggðir í úrslitunum sem bresta á á morgun, samkvæmt moggavefnum.

Mitt allramesta uppáhald er hrafnafífan - mér finnst fátt íslenskara en fífubreiða í mýri. En blóðbergið kemur þar rétt á eftir, og er fremst meðal jafningja af þeim litlu, harðgerðu djöflamergjum í blómalíki sem tóra í mörkinni. Svo ég gæti sosum líka sætt mig við geldingahnappinn, rjúpnalaufið og lambagrasið. Ég ætla bara rétt að vona að hvorki gleymméreiin né blágresið taki þetta - gleymmérei er bara of væmin, og blágresi líka, auk þess að vera of mikill Þórsmerkurhnakki. Ef sunnlendingar vilja sitt eigið þjóðarblóm, þá mega þeir eiga blágresið mín vegna.

Eina blómið sem ég sakna úr úrslitunum er melasól - gullfallegt blóm, og nafnið eftir því. En hún er kannski meira þjóðarblóm Vestfirðinga.

Fyrst ég er byrjaður á mögulegum þjóðarblómum landshlutanna, þá finnst mér að þjóðarblóm Vesturlands yrði að vera deildartunguskollakambur, jafnvel þótt hann sé ekki blóm í alvörunni. Það vegur þungt að hann skuli hvergi vaxa í öllum heiminum nema á einu bæjarhlaði í Borgarfirði.

Hvað varðar aðra landshluta er ég alveg tómur. Enda hef ég jafnvel enn minna vit á grasafræði en beinunum í mannslíkamanum, þótt áhuginn sé kannski ívið meiri.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com