<$BlogRSDUrl$>

16 september 2004


Mikið óskaplega er orðið langt síðan ég hef komið með einhverjar nístandi skarpar observasjónir á libbu og tibbu hérna. Og ekki verður breyting á því í dag - mér finnst ágætt að tala um það sem kemur uppá frá degi til dags. Eða annars hvers dags væri kannski nær lagi, miðað við afköst upp á síðkastið. Og ekki tala nema um það sem ég get leyft mér að tala um, og skilja þess fyrir utan eftir litlar dulkóðaðar vísbendingar í textanum til sjálfs mín fyrir seinni tíma, svo ég hugsi þegar ég les hann seinna meir: "Já alveg rétt, þarna var ég að hugsa um þetta sem ég vildi ekki skrifa skýrum stöfum á internetinu."

En eftirfarandi er allt eins og það lítur út fyrir að vera: Dagurinn í gær var yndislegur. Ég kom meiri og gagnlegri hlutum í verk í vinnunni en mér hafði tekist í langan tíma fannst mér, og þegar ég kom heim sat ég uppi í sófa með dætrum mínum og eiginkonu og spjallaði. Sú eldri er komin upp um deild á leikskólanum sínum og hún sagði mér frá nýja hópnum sínum og hópstjóranum. Ég tók þá yngri í fangið og dansaði með hana um stofugólfið. Sú eldri sýndi mér pósisjónir úr balletskólanum sem hún byrjaði í á mánudaginn var. Ég fékk mér Glen Grant á tungubroddinn.

Undir kvöldmatnum slökktum við á fréttafarganinu aldrei þessu vant og hlustuðum á Judy Garland sem dinnermúsík í staðinn. Það. Var. Mjög. Ljúft.

Stelpurnar fóru að sofa, ég vaskaði upp og straujaði svo undir sjónvarpinu. Við hjónin áttum okkur notalega kvöldstund.

Þetta var einn af þessum ljúfu litlu dögum sem er svo auðvelt að gleyma ef maður skrifar þá ekki niður.

Og já, til að kóróna það þá kom annað tölublað Verðandi út í gær.
Tékkið á og njótið.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com