<$BlogRSDUrl$>

20 september 2004


Hversu oft nennir fólk að lesa sama vælið frá einum og sama bloggaranum um það hve mikið sé að gera í vinnunni?

Það er sumsé nóg við að vera.

Það eru "endurskipulagningar á mannauðsflæði" á deildinni, eins og það heitir eflaust á fyrirtækjamáli - eða einn að hætta og annar nýbyrjaður, eins og við manneskjurnar köllum það. Allt í mesta bróðerni og af fúsum og frjálsum vilja. Deildin er því að fara út að borða í kvöld - kveðju- og móttökuflugurnar slegnar í einni og sömu sveiflunni. Stefnan er sett á Hafið Bláa, fiskistað við brúarsporðinn milli Þorlákshafnar og Stokkseyrarbakka. Eflaust dálítið glatað að hafa þetta svona á mánudagskvöldi, en það var víst ekki um auðugan garð að gresja með kvöld sem allir voru lausir. Eða allir nema einn, eins og upp var staðið með.

Kannski ég prófi að biðja um lamb með bernessósu, og tómatsósu með því.

Helgin var fín - báðar afmælisveislurnar ágætlega lukkaðar. Það endaði með að ég keyrði í partíið á föstudagskvöldinu og skemmti mér hreint ljómandi vel við slúðursögur af vinum, kunningjum og ókunnugum, og fyrstu persónu frásagnir af skrautlegum ævintýrum samkynhneigðra karlmanna í undirheimum framandi stórborga. Þótt ég hefði verið kominn heim þurr einsog þorskhaus á rá upp úr klukkan eitt um nóttina var ég samt of þreyttur eftir afmælisdagsstand dagsins til að nenna í annað partí á laugardagskvöldinu. Svo við hjónin höfðum það náðugt það kvöldið og vorum farin að sofa fyrir klukkan ellefu. Brjálað líferni maður.

Á sunnudeginum horfðum við á Disneymyndina um Þyrnirós, sem sú eldri hafði fengið í afmælisgjöf frá litlu systur. Tvisvar. Svo fleygðum við afgangsbrauði í máfana á Tjörninni og fórum í gönguferð um Öskjuhlíð í góða veðrinu. Það er gaman að taka stóra brauðsneið og fleygja henni eins og frisbídiski inn í máfagerið úti á tjörninni.

Ágæt helgi. Alveg hreint ágæt.

Hversu oft nennir fólk að lesa sömu mærðina frá einum og sama bloggaranum um það hversu ljúft er að eiga sér stundir með fjölskyldunni?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com