<$BlogRSDUrl$>

29 september 2004


Ég blaðaði Fréttablaðinu í hádeginu. Eins og vill henda. Þar mátti meðal annars lesa svör Sigurðar Kára atvinnuþingmanns, góðkunningja míns Sveins Rúnars Haukssonar, og Ingibjargar Sólrúnar (atvinnulauss þingmanns), við því hvort rétt væri að semja við hryðjuverkamenn. Þrátt fyrir misjafnar áherslur í svörum þeirra virtust þau öll vera á einu máli um að svo væri ekki.

En.

Í því sem ég las þetta og bar saman svör þessa ágæta fólks þá laust niður í mig hvað Sjálfstæðisflokkurinn er í hróplegri mótsögn við sjálfan sig í stefnu sinni gagnvart hryðjuverkum, rétt eins og í svo mörgum öðrum málum.

Nefnilega: Hann setur sig alfarið upp á móti einkarekstri hryðjuverka og vill láta einskis ófreistað við að brjóta slíkan rekstur á bak aftur með harðri hendi. Hins vegar fer minna fyrir andúð flokksins á ríkisreknum hryðjuverkum, og má jafnvel oft skilja flokkslínu dagsins sem svo að hann hafi á þeim hina mestu velþóknun. En eins og ég sagði, þetta er nú sosum í stíl við annað á þeim bænum þessa dagana; þeir setja orðið ríkisreksturinn ofar einkaframtakinu ef ekki er gulltryggt að bissnessinn sé öruggur í höndum "þeirra manna."

Og þá dettur mér í hug: Er ekki góð von til þess að íslensk stjórnvöld færu að sýna málstað palestínsku þjóðarinnar einhverja samúð á ný ef Baugur Grúpp tæki sig til og færi að hasla sér völl í vopnaframleiðslu fyrir ísraelska herinn? Og byggingaframkvæmdum í ólöglegum landnemabyggðum? Kannski þá fyrst færu hjólin að snúast á annan veg hjá flokknum?

Bara hugmynd, bara hugmynd.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com