<$BlogRSDUrl$>

14 september 2004


Það er ekkert sem knýr á hjá mér þessa dagana - það býr ekki neitt voðalega mikið í brjósti mér. Sem er kannski ágætt - ætli mér líði ekki almennt þess betur því minna sem mér liggur á hjarta.

Jú, ég get gripið tækifærið og skellt inn af lagernum hvað mér finnst gott að taka strætó. Ég er ábyggilega búinn að segja þetta áður. En sumsé, þarna eignast ég allt upp í klukkutíma á hverjum degi sem ég get eytt í að lesa. Sem er jafnvel ögn meira þessa dagana, fyrst búið er að grafa í sundur Vatnsmýrina og maður þarf að taka á sig krókinn framhjá Norræna húsinu og gegnum háskólasvæðið til að komast í strætó.

Allt þetta rót. Allar þessar framkvæmdir og umferðartafir. Ég nenni ekki að æsa mig yfir því. Mig langar ekki til þess. Ekki nema kannski í þau örfáu skipti sem ég sé um að sækja þá eldri á leikskólann og legg of seint af stað. En þá er ég líka meira að ergja mig út í sjálfan mig en nokkuð annað.

Talandi um þá eldri og leikskólann: Það var hringt í mig þaðan í dag og mér sagt að hún hefði fengið gat á hausinn. Og ég svaraði eins og bóndinn forðum: "Nújá, það var ágætt." Svo velti ég fyrir mér hvort ég ætti að reyna að hringja í frúna og segja henni frá þessu. Svo gleymdi ég því.

Líf mitt í hnotskurn.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com