<$BlogRSDUrl$>

30 september 2004


Ætli það sé ekki kominn tími til að ég loksins tjái mig um mesta hitamál dagsins í dag. Nefnilega það hvert eigi að vera þjóðarblóm íslendinga.

Ég get ekki að því gert, en eins og mér fannst þetta hallærisleg hugmynd þegar ég heyrði fyrst af henni, þá hef ég alltaf hrifist af henni meira og meira. Og nú er svo komið að ég á mér mín uppáhöld og viðurstyggðir í úrslitunum sem bresta á á morgun, samkvæmt moggavefnum.

Mitt allramesta uppáhald er hrafnafífan - mér finnst fátt íslenskara en fífubreiða í mýri. En blóðbergið kemur þar rétt á eftir, og er fremst meðal jafningja af þeim litlu, harðgerðu djöflamergjum í blómalíki sem tóra í mörkinni. Svo ég gæti sosum líka sætt mig við geldingahnappinn, rjúpnalaufið og lambagrasið. Ég ætla bara rétt að vona að hvorki gleymméreiin né blágresið taki þetta - gleymmérei er bara of væmin, og blágresi líka, auk þess að vera of mikill Þórsmerkurhnakki. Ef sunnlendingar vilja sitt eigið þjóðarblóm, þá mega þeir eiga blágresið mín vegna.

Eina blómið sem ég sakna úr úrslitunum er melasól - gullfallegt blóm, og nafnið eftir því. En hún er kannski meira þjóðarblóm Vestfirðinga.

Fyrst ég er byrjaður á mögulegum þjóðarblómum landshlutanna, þá finnst mér að þjóðarblóm Vesturlands yrði að vera deildartunguskollakambur, jafnvel þótt hann sé ekki blóm í alvörunni. Það vegur þungt að hann skuli hvergi vaxa í öllum heiminum nema á einu bæjarhlaði í Borgarfirði.

Hvað varðar aðra landshluta er ég alveg tómur. Enda hef ég jafnvel enn minna vit á grasafræði en beinunum í mannslíkamanum, þótt áhuginn sé kannski ívið meiri.
by Hr. Pez

29 september 2004


Ég blaðaði Fréttablaðinu í hádeginu. Eins og vill henda. Þar mátti meðal annars lesa svör Sigurðar Kára atvinnuþingmanns, góðkunningja míns Sveins Rúnars Haukssonar, og Ingibjargar Sólrúnar (atvinnulauss þingmanns), við því hvort rétt væri að semja við hryðjuverkamenn. Þrátt fyrir misjafnar áherslur í svörum þeirra virtust þau öll vera á einu máli um að svo væri ekki.

En.

Í því sem ég las þetta og bar saman svör þessa ágæta fólks þá laust niður í mig hvað Sjálfstæðisflokkurinn er í hróplegri mótsögn við sjálfan sig í stefnu sinni gagnvart hryðjuverkum, rétt eins og í svo mörgum öðrum málum.

Nefnilega: Hann setur sig alfarið upp á móti einkarekstri hryðjuverka og vill láta einskis ófreistað við að brjóta slíkan rekstur á bak aftur með harðri hendi. Hins vegar fer minna fyrir andúð flokksins á ríkisreknum hryðjuverkum, og má jafnvel oft skilja flokkslínu dagsins sem svo að hann hafi á þeim hina mestu velþóknun. En eins og ég sagði, þetta er nú sosum í stíl við annað á þeim bænum þessa dagana; þeir setja orðið ríkisreksturinn ofar einkaframtakinu ef ekki er gulltryggt að bissnessinn sé öruggur í höndum "þeirra manna."

Og þá dettur mér í hug: Er ekki góð von til þess að íslensk stjórnvöld færu að sýna málstað palestínsku þjóðarinnar einhverja samúð á ný ef Baugur Grúpp tæki sig til og færi að hasla sér völl í vopnaframleiðslu fyrir ísraelska herinn? Og byggingaframkvæmdum í ólöglegum landnemabyggðum? Kannski þá fyrst færu hjólin að snúast á annan veg hjá flokknum?

Bara hugmynd, bara hugmynd.
by Hr. Pez

28 september 2004


En hvað þeir eru nú yndislegir þessir græningjar. Sérstaklega þeir frönsku.

Frétt dagsins þykir mér nefnilega tvímælalaust sú í Fréttablaðinu um að franskir græningjar hafi mótmælt því að 22 tonna ísjaka skuli hafa verið svipt óforvarindis úr sínu "náttúrulega umhverfi" í Jökulsárlóni og honum holað niður átta tonnum léttari í suðlægri borg, víðs fjarri heimahögum.

Já, það er mikið til í þessu hjá þeim krökkunum. Enda hættir okkur jú oft til að gleyma því að ísjakar hafa líka tilfinningar. Þeir eiga sinn rétt. Mér finnst að íslenska þjóðin ætti nú að rísa upp á afturlappirnar, öll sem ein, og krefjast þess að ísjakanum verði bjargað úr þessum hörmulegu hremmingum og koma honum hið snarasta aftur heim í öryggi sinna "náttúrulegu" heimahaga við rætur Vatnajökuls, sem er eins og allir vita hreinasti og náttúrulegasti jökull í heimi.

Og allir saman nú:

ÍSJAKANN HEIM!
by Hr. Pez

27 september 2004


Hrefna stóð sig eins og hetja í ferðinni norður. Hápunkturinn var tvímælalaust stóðréttin að Laufskálum, þar sem hún sat á öxlum mér við almenninginn og lýsti beint: "Já hann er búinn að ná hestinum! Nei nú slapp hann! Og hann náði honum aftur! Og nú setur hann hestinn út!"

Þar borðaði ég hákarl og var með hann í lungunum þangað til í gærkvöldi.

Við hittum systur mína og fjölskyldu, að ógleymdri kattakonunni.

Vinnudagurinn markaðist af slæmum tíðindum úr fjölskyldu eins vinnufélaga míns. Þar er einhver partur af huga manns, og mun svo verða næstu daga.
by Hr. Pez

24 september 2004


Þá er það ákveðið: við leggjum í hann um helgina. Sennilega munum við reyna að leggja af stað fyrr en seinna, þar sem gera má ráð fyrir að fari að hvessa undir Hafnarfjallinu þegar líður á kvöldið.

Það verður gaman að koma norður. Hrefna missti stjórn á sér af fögnuði þegar ég færði henni tíðindin í símann í gær. Enn er óráðið hvort við verðum í Bakkahlíð eða frammi í Reit (fjölskylduóðalinu frammi í firði) fyrstu nóttina. Á laugardeginum er stóðrétt að Laufskálum í Hjaltadal. Og fólk sem við þurfum að finna okkur tíma til að hitta.

Þetta verður þétt pakkað prógramm, þar sem við þurfum að leggja af stað til baka fljótlega upp úr hádegi á sunnudeginum.
by Hr. Pez

23 september 2004


Gleðifréttir vikunnar voru úðen tvívl að uppgötva mér til óblandinnar ánægju að Glaseygingarnir í The Blue Nile voru að gefa út nýjan disk - þann fjórða á rúmum tuttugu árum. Mér sýnist á almennum viðtökum að ég hafi engu að kvíða, hann eigi í fullu tré við fyrirrennarana. Nú er bara að hlakka til þess að komast yfir hann með einhverjum ráðum. Mér finnst einhvern veginn sem mér liggi ekkert á með það; eins og einn ágætur kunningi minn mælti eitt sinn manna heilastur:

"Það er alltaf gaman að eiga eitthvað gott eftir."

Annað í fréttum er hvað helst það að sennilega skrepp ég með þeirri eldri norður í Höfuðstaðinn um helgina: henni finnst orðið leiðara en tárum taki hvað það er langt síðan hún sá síðast þau ömmu og afa í Bakkahlíð.

Sem er hverju orði sannara hjá henni.

Hvort af förinni verður er ekki endanlega ákveðið, en mun væntanlega skýrast í kvöld. Frúin mun þá sitja heima með þá yngri, enda þarf hún að vinna hér í bænum um helgina.
by Hr. Pez

22 september 2004


Nú er ég í klemmu maður.

Ég var rétt í þessu að fá póst frá starfsmannafélaginu (les: sukkstjórunum) um það að ég ætti að taka frá föstudaginn áttunda október, þar sem þá yrði lagt upp í hina árlegu óvissuferð fyrirtækisins, í annað skipti frá upphafi. Ég fór með í fyrstu ferðina í fyrra og þrátt fyrir ýmiss konar hallærishátt og banalítet þá verð ég að játa að ég skemmti mér hreint ágætlega, takk fyrir.

Svo hvað er þá vandamálið, skyldirðu spyrja?

Jú, ekki nema það að sama dag á spúsan afmæli: Nú liggja Danir laglega í því lagsmaður.

Nú væri þetta vitaskuld ekkert vandamál ef ég stæði undir nafni sem sómasamlegur eiginmaður. Og ekki heldur ef ég væri algjör landeyða og kolómögulegur fjölskyldufaðir. En hvernig ræður maður úr ef maður er þarna einhversstaðar mitt á milli?

Púff, ætli sé ekki best að ég sofi á þessu. Og það nokkrar nætur, þessvegna.
by Hr. Pez

20 september 2004


Hversu oft nennir fólk að lesa sama vælið frá einum og sama bloggaranum um það hve mikið sé að gera í vinnunni?

Það er sumsé nóg við að vera.

Það eru "endurskipulagningar á mannauðsflæði" á deildinni, eins og það heitir eflaust á fyrirtækjamáli - eða einn að hætta og annar nýbyrjaður, eins og við manneskjurnar köllum það. Allt í mesta bróðerni og af fúsum og frjálsum vilja. Deildin er því að fara út að borða í kvöld - kveðju- og móttökuflugurnar slegnar í einni og sömu sveiflunni. Stefnan er sett á Hafið Bláa, fiskistað við brúarsporðinn milli Þorlákshafnar og Stokkseyrarbakka. Eflaust dálítið glatað að hafa þetta svona á mánudagskvöldi, en það var víst ekki um auðugan garð að gresja með kvöld sem allir voru lausir. Eða allir nema einn, eins og upp var staðið með.

Kannski ég prófi að biðja um lamb með bernessósu, og tómatsósu með því.

Helgin var fín - báðar afmælisveislurnar ágætlega lukkaðar. Það endaði með að ég keyrði í partíið á föstudagskvöldinu og skemmti mér hreint ljómandi vel við slúðursögur af vinum, kunningjum og ókunnugum, og fyrstu persónu frásagnir af skrautlegum ævintýrum samkynhneigðra karlmanna í undirheimum framandi stórborga. Þótt ég hefði verið kominn heim þurr einsog þorskhaus á rá upp úr klukkan eitt um nóttina var ég samt of þreyttur eftir afmælisdagsstand dagsins til að nenna í annað partí á laugardagskvöldinu. Svo við hjónin höfðum það náðugt það kvöldið og vorum farin að sofa fyrir klukkan ellefu. Brjálað líferni maður.

Á sunnudeginum horfðum við á Disneymyndina um Þyrnirós, sem sú eldri hafði fengið í afmælisgjöf frá litlu systur. Tvisvar. Svo fleygðum við afgangsbrauði í máfana á Tjörninni og fórum í gönguferð um Öskjuhlíð í góða veðrinu. Það er gaman að taka stóra brauðsneið og fleygja henni eins og frisbídiski inn í máfagerið úti á tjörninni.

Ágæt helgi. Alveg hreint ágæt.

Hversu oft nennir fólk að lesa sömu mærðina frá einum og sama bloggaranum um það hversu ljúft er að eiga sér stundir með fjölskyldunni?
by Hr. Pez

17 september 2004


Sú eldri á fjögurra ára afmæli í dag.

Fjölskyldan safnaðist saman uppi í hjónarúmi klukkan hálfsjö í morgun og opnaði afmælisgjafir: frá foreldrunum, þeirri yngri, afa og ömmu á Akureyri og Nadine og Thorsten í Ulm.

Í kvöld verður farið út að borða. Afmælisbarnið fékk að sjálfsögðu að velja staðinn, svo við förum víst á Pizza Hut. Ekki kemur það svo mjög á óvart. Og ekki mun ég heldur undrast þegar stelpan biður um hakk og spaghettí.

Svo þarf frúin að vinna fyrri hluta kvölds (eða fara á fund, ég man það ekki), og þar á eftir er mér boðið í partí uppi í Mosfellsbæ.

Púff. Hvernig kemst maður þangað án bíls.

Já ég veit ég get keyrt.
En ég get ekki keyrt!
Kannski ég keyri bara sjálfur.

Ákvarðanir ákvarðanir...

Það er annars þéttpakkaður sósjall um helgina. Tvær afmælisveislur á morgun: ein hádegis- fyrir fjölskylduna og ein kaffi- fyrir vinina. Og svo kemur annað kvöld með öðru partíi.

Að fyrra bragði er vitaskuld lagt upp með að ganga hægt um gleðinnar dyr, bæði í kvöld og annað kvöld, þar sem bæði er afmæli á morgun og svo þarf frúin aftur að vinna á sunnudagsmorguninn.

Sjáum nú til hvernig mér gengur með það.
by Hr. Pez

16 september 2004


Mikið óskaplega er orðið langt síðan ég hef komið með einhverjar nístandi skarpar observasjónir á libbu og tibbu hérna. Og ekki verður breyting á því í dag - mér finnst ágætt að tala um það sem kemur uppá frá degi til dags. Eða annars hvers dags væri kannski nær lagi, miðað við afköst upp á síðkastið. Og ekki tala nema um það sem ég get leyft mér að tala um, og skilja þess fyrir utan eftir litlar dulkóðaðar vísbendingar í textanum til sjálfs mín fyrir seinni tíma, svo ég hugsi þegar ég les hann seinna meir: "Já alveg rétt, þarna var ég að hugsa um þetta sem ég vildi ekki skrifa skýrum stöfum á internetinu."

En eftirfarandi er allt eins og það lítur út fyrir að vera: Dagurinn í gær var yndislegur. Ég kom meiri og gagnlegri hlutum í verk í vinnunni en mér hafði tekist í langan tíma fannst mér, og þegar ég kom heim sat ég uppi í sófa með dætrum mínum og eiginkonu og spjallaði. Sú eldri er komin upp um deild á leikskólanum sínum og hún sagði mér frá nýja hópnum sínum og hópstjóranum. Ég tók þá yngri í fangið og dansaði með hana um stofugólfið. Sú eldri sýndi mér pósisjónir úr balletskólanum sem hún byrjaði í á mánudaginn var. Ég fékk mér Glen Grant á tungubroddinn.

Undir kvöldmatnum slökktum við á fréttafarganinu aldrei þessu vant og hlustuðum á Judy Garland sem dinnermúsík í staðinn. Það. Var. Mjög. Ljúft.

Stelpurnar fóru að sofa, ég vaskaði upp og straujaði svo undir sjónvarpinu. Við hjónin áttum okkur notalega kvöldstund.

Þetta var einn af þessum ljúfu litlu dögum sem er svo auðvelt að gleyma ef maður skrifar þá ekki niður.

Og já, til að kóróna það þá kom annað tölublað Verðandi út í gær.
Tékkið á og njótið.
by Hr. Pez

14 september 2004


Það er ekkert sem knýr á hjá mér þessa dagana - það býr ekki neitt voðalega mikið í brjósti mér. Sem er kannski ágætt - ætli mér líði ekki almennt þess betur því minna sem mér liggur á hjarta.

Jú, ég get gripið tækifærið og skellt inn af lagernum hvað mér finnst gott að taka strætó. Ég er ábyggilega búinn að segja þetta áður. En sumsé, þarna eignast ég allt upp í klukkutíma á hverjum degi sem ég get eytt í að lesa. Sem er jafnvel ögn meira þessa dagana, fyrst búið er að grafa í sundur Vatnsmýrina og maður þarf að taka á sig krókinn framhjá Norræna húsinu og gegnum háskólasvæðið til að komast í strætó.

Allt þetta rót. Allar þessar framkvæmdir og umferðartafir. Ég nenni ekki að æsa mig yfir því. Mig langar ekki til þess. Ekki nema kannski í þau örfáu skipti sem ég sé um að sækja þá eldri á leikskólann og legg of seint af stað. En þá er ég líka meira að ergja mig út í sjálfan mig en nokkuð annað.

Talandi um þá eldri og leikskólann: Það var hringt í mig þaðan í dag og mér sagt að hún hefði fengið gat á hausinn. Og ég svaraði eins og bóndinn forðum: "Nújá, það var ágætt." Svo velti ég fyrir mér hvort ég ætti að reyna að hringja í frúna og segja henni frá þessu. Svo gleymdi ég því.

Líf mitt í hnotskurn.
by Hr. Pez

13 september 2004


Ruttyerþ. Veidigjakkuru. Hef alla vega ekki sama rétt til að kvarta og frúin, sem svaf fjóra tíma í fyrrinótt og reif sig upp fyrir klukkan sex í morgun til að fara í ræktina. Sjálfur átti ég í raun náðuga helgi í einstæða graspabbastandinu, enda sváfu þær eins og englar um helgina stelpurnar. En samt hafa þau verið þung í dag á mér augnlokin.

Svo var frúin að færa mér þau tíðindi að hún sé á leið til Parísar, sjálfrar höfuðborgar ástarinnar (á eftir kannski Las Vegas og Hveragerði) í byrjun nóvember og hyggist skilja mig eftir með ómegðina á meðan. Já, það verður eflaust gaman fyrir hana, blessunina.
by Hr. Pez

10 september 2004


Þetta er búin að vera skrítin vika að mörgu leyti. Og hefur sterklega einkennst af því að sú yngri er búin að vera lasin heimavið frá því á þriðjudag.

Ég var að átta mig á því núna að það er áherslumunur á því að vera veikur annars vegar og lasinn hins vegar. Hvað lasleiki er meinlausari en veikindi.

Allavega - allt í meinlausu, þannig lagað.

Svo fer frúin í skemmtiferð úr bænum með vinnunni á morgun, og ég fæ að vera einstæður graspabbi fram á sunnudaginn. Vonandi að sú yngri verði nógu hress til að við getum meikað það í barnaafmælið sem við erum boðin í á morgun. Sjáum til. Hvað segir ekki spakmælið - spyrjum að veikslokum, eða eitthvað svoleiðis.

Í kvöld langar mig að Stela myndinni á RÚV, þegar Kúpling og Svínasúpan eru búnar. Verst að á sama tíma er Blátt flauel á Skjá einum, sem ég sá reyndar fyrir margt löngu, en það má vera að ég taki hana upp og horfi á hana annað kvöld. Ásamt með kannski Gæðablóðunum, sem ég tók einnig upp af Skjá einum fyrr í ár og á enn eftir að horfa á til enda.

Ég man þegar Gæðablóðin voru í bíó (ég hef sennilega verið of ungur til að sjá þau) og Pési brósabró sagði mér að hann hefði farið á þau með þáverandi kærustu (sem nú er eiginkona hans og barnsmóðir) og þau gengið út í hléi, fyrir yfirgengilegt ofbeldi og hrottaskap.

Já, ég verð að fara að drífa mig að horfa á hana.
by Hr. Pez

08 september 2004


Veturinn er hér með opinberlega kominn. Í þessu grályndistíðarfari sem ríkir yfir höfuðborginni lungann úr árinu er vitaskuld ómögulegt að miða við eitthvað svo kaprísjöst sem fyrsta snjóinn, eða næturfrostið ("Ég veit að þér finnst það helvíti hart / hvað það haustar snemma á vorin..."), í besta falli að hægt væri að taka mið af því hvenær gæsirnar fljúga vekk. Fyrir utan það að þær eru hættar að mjakast spönn frá rassi - hanga bara betlandi niðri á Tjörn og skíta í Hljómskálagarðinum veturinn langan.

Nei, sá gæsasöngur sem boðar komu Veturs Konungs hjá mér er ekki sá sem heyrist þegar flogið er suður heiðar með fjaðraþyt og... öhm... söng. Onei onei. Heldur er það sá söngur sem heyrist þegar mætt er á fyrstu kóræfingu vetrarins. Það var einmitt í gær og var glatt á hjalla. Ég hitti þar fyrir Bassann, og mun hann eflaust hafa eitthvað að segja um samkunduna á sínum eigin vettvangi.

En þetta var ósköp gaman, að vísu var ekkert sungið eftir nótum, heldur var farið yfir vetrardagskrána í grófum dráttum, og síðan leiddi Gunnar Ben í ögn hippalegum en þó ágætum "hópeflisæfingum." Sérdeilis var gaman að hlusta á sjálfan sig og aðra í spuna á mónólítískri músík, í anda þeirrar sem heyra mátti í Tvöþúsundogeinum, Ódysseifskviðu Himingeimsins, og var þar sögð samin af ungverska klikkhausnum György Ligeti.

Sumsé, vetur er kominn, lengi lifi Vetur Konungur.
by Hr. Pez

06 september 2004


Ég er með aðkenningu að bloggdoða þessa dagana.

Annars var helgin ágæt - partíið hjá Dr. Schnitzel var alveg ágætlega lukkað. Ég spjallaði við gamla og góða kunningja og er ríkari maður að reynslu fyrir vikið.

Því algjörlega allsendis óskylt vil ég benda á hinn stórskemmtilega Vísindavef Háskóla Íslands. Það er til dæmis honum að þakka að nú er ég einhverju nær um það hver Damókles var og hvaða sverð það var sem hékk yfir höfði hans. Það er fróðleg lesning.
by Hr. Pez

02 september 2004


Erfðafræðingar eru svo fyndnir. Liddl.

INDY nefnist gen sem er í hópi þeirra sem hafa áhrif á ævilengd ávaxtaflugunnar Drosophila melanogaster, eftirlætiskvikindis erfðafræðinga (ásamt með þráðorminum C.elegans og vöðvastæltu músinni). Oft eru nöfn á genum tilkomin sem skammstafanir á einhverri heljarinnar romsu sem útskýrir hvað genið gerir, eða hvað próteinafurðin kallast. Eins og til dæmis hvernig APP stendur fyrir Amyloid Precursor Protein. Allavega.

Það veltast ábyggilega allir um af hlátri nú þegar.

En sumsé, svo ég komi mér loksins að efninu, þannig er því líka farið með INDY.

Ég var nefnilega að læra það nú í morgun að INDY er skammstöfun fyrir "I'm Not Dead Yet."
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com