<$BlogRSDUrl$>

26 ágúst 2004


Við fengum góða gesti í heimsókn í gær - Beth og Anthony frá Bretlandi. Þetta er í annað skiptið sem þau sækja okkur heim, þau komu fyrst fyrir tveimur árum. Í gær komu þau færandi hendi með gjafir handa stelpunum - Hrefna fékk loðið svín sem leit út fyrir að vera afskaplega krúttlegt þangað til það fór að rýta "Old McDonald had a farm" án afláts. Þá þótti mér fara af því mesti sjarminn, þótt Hrefna væri fyrir vikið jafnvel enn hrifnari af því en áður.

Bót í máli var að þau færðu mér líka fullt af bjór, bæði dollur úr fríhöfninni og síðan fjórar flöskur, hverja af sinni ensku ölgerðinni. Ég kannaðist ekki við neina þeirra tilsýndar, en hlakka til að prófa þær allar í góðu tómi. Ég setti þær upp í vínrekka og ætla að leyfa þeim að safna ryki og virðuleika í einhvern tíma.

Gestakoman í gær veitti okkur hjónum fyrstu afsökunina til að hengja út í glugga Union Jack fánann sem þau færðu okkur að gjöf í síðustu heimsókn. Hann er fallegur.

Þau dvelja á landinu í viku, sem er of stutt að mati bæði okkar og þeirra.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com