<$BlogRSDUrl$>

06 ágúst 2004


Áfram hélt fríið. Næsta vika fór mestan part í það að slaka á heimavið eða í tíðum og löngum heimsóknum til tengdafjölskyldunnar. Veðrið var ef eitthvað var betra hér heima en það sem við sóttum til Jótlands. Svo syrti í álinn.

Stuttu eftir heimkomuna bárust okkur þau válegu tíðindi að níu ára dóttir vinafólks okkar hefði dáið í hörmulegu slysi. Ég slóst í för með Schnitzelinu til að sitja með föðurnum eina kvöldstund í vanmáttugri tilraun til að veita honum þá hluttekningu og þann stuðning sem maður fann svo sárt að hann þarfnaðist. Það voru þung spor fyrir það minnsta sem maður gat gert.

Ég gat ekki mætt á útförina - ég var búinn að binda mig til að fara með Árnesingakórnum út til Þýskalands í vikunni eftir. Það þótti mér leitt. En Árný var við athöfnina fyrir okkar hönd og bar mér fréttir af því hvernig hefði farið fram.

Daginn áður en ég flaug utan áttum við fjölskyldan yndislegan dag úti í Viðey - skoðuðum gamla þorpið og snæddum nesti á flötinni bak við Viðeyjarstofu. Við munum eflaust fara þarna úteftir aftur - ekki seinna en næsta sumar - enda eigum við allan vesturhluta eyjunnar alveg eftir.

Þarna sáum við hjálmskjóttan hest í haga. Ekki þótti mér hann fallegur.

Svo var það frægðarförin til Brimaborgar, eins og áður var getið. Það var ágæt ferð, eins og má ráða af þeim dagbókarfærslum sem ég skrásetti þar úti á sínum tíma. Á meðan fór frúin hamförum í uppgjörðum á íbúðinni - þegar ég kom heim var búið að skipta um öll opnanleg fög á suðurhliðinni, hreinsa upp og endurskipuleggja blómabeðin og fúaverja sólpallsnefnuna.

Dagurinn eftir heimkomuna var sá síðasti í fríi og fór mestan part í afslöppun. Þann daginn bar helst til tíðinda að Una fór í hjartaskoðun - þau mál eru í grófum dráttum við það sama, en fara þó heldur batnandi. Versti hnökrinn virðist hafa lagast af sjálfu sér og hinir tveir ku ekki vera til að hafa miklar áhyggjur af. Stelpan er stálslegin í öllu daglegu amstri - meir að segja varla að þetta útiloki hana frá því að taka þátt í raunveruleikaþætti um klæðskerasniðna stúlknahljómsveit þegar hún vex úr grasi.

Svo byrjaði brauðstritið. Og síðan hef ég verið hérna hjá ykkur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com