<$BlogRSDUrl$>

22 júlí 2004


Loksins nenni ég að taka upp pennann eftir heimkomuna. Heimferðin frá Brimaborg gekk ágætlega og var gott að koma heim. Ég tók mér frídag á þriðjudeginum til að slappa af með fjölskyldunni; við skoðuðum Íslendingasýninguna á Austurvelli og gáfum öndunum á Tjörninni brauð. Þær voru reyndar óvenju fáar; kannski var búið að stela einhverjum þeirra.

Svo byrjaði vinnan í gær; nóg að gera við að setja sig aftur inn í málin eftir langar fjarvistir. Ég er búinn að nota allt mitt frí upp til agna núna og sé fram á viðstöðulitla setu í vinnuklefanum mínum allt til næsta sumars.

Saman við heimkomuna fóru fréttir af undanhaldi ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlamálinu og skyndilegri sjúkrahúsdvöl Davíðs Oddssonar.

Greyið karlinn, segi ég nú bara. Maður óskar ekki nokkrum manni að lenda í svona löguðu.

Ég verð reyndar að játa upp á mig að er fyrstu fréttir bárust af veikindunum var ég ekki alveg sannfærður um að nokkuð væri að honum blessuðum. Ja hvur grefillinn, stóð ég mig að því að hugsa. Hvaða plotti er hann að taka upp á núna?

Já, ég veit. Það var ljótt að hugsa svona. En spunalæknarnir hafa jú löngum verið meira viðloðandi hjá honum Dabba en þeir hefðbundnu, svo mér er kannski ekki einum um að kenna að hafa verið pínu tortrygginn í upphafi.

Hvað um það, kannski verður batnandi manni best að lifa í framhaldinu. Ég man hvað hún Ingibjörg Pálmadóttir fékk skíra sýn á það sem skipti hana máli í lífinu eftir að hún fékk aðsvif í beinni útsendingu þarna um árið. Og Össur Skarphéðinsson stóð hjá og glápti forviða á eins og hann vildi segja: Það var ekki ég! Þetta er ekki mér að kenna!

Þá lýstur niður í mig: hvernig hefði farið ef Davíð Oddsson hefði fengið gallsteinakast í beinni útsendingu fyrir framan myndavélarnar í gær, og Össur Skarphéðinsson hlaupið til við að reyna að grípa hann (Ég klúðra þessu sko ekki aftur, hefði hann hugsað)?

Nei annars. Hann hefði sennilega klúðrað því öllu saman aftur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com