<$BlogRSDUrl$>

30 júlí 2004


Ég ætla að útlista aðeins betur hvað ég var að fara í gær. Ég var fyrst að hugsa um að skella þessu í komment við færslu gærdagsins, en þetta er bara of stórt mál finnst mér - það verðskuldar sína eigin færslu.

Hugsunin í því sem ég sló fram í gær er alveg skýr, finnst mér, þótt framsetningin hafi kannski verið dálítið glannaleg. Hún snýst um það að fangelsi eru mannskemmandi stofnanir. Ef vist í betrunarhúsi stæði undir nafni, þá ætti fólk að koma þaðan út reynslunni ríkara og fullt af löngun og einlægum ásetningi til að taka framförum í jákvæðu hugarfari og líferni.

Sú er því miður sjaldnast raunin.

Sem hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að sérstaklega við fyrsta brot, nánast óháð því um hvaða brot er að ræða, finnst mér að ætti að gera fólki kleift að taka út refsingu sína utan fangelsismúra að eins miklu leyti og unnt er, með samfélagsþjónustu og skilorðsbindingu refsinga, að mestu ef ekki öllu leyti.

Fyrir nokkrum árum voru í fréttum breytingar sem mér þóttu til batnaðar, þar sem auka átti vægi samfélagsþjónustu í réttarkerfinu. Ég hef minna heyrt af þeim málum í seinni tíð - kannski er það góðs viti (orðið dagleg og ófréttnæm rútína), kannski ills (dottið upp fyrir); ég bara veit það ekki.

Fælingarmáttur fangelsisvistar er hverfandi - þeir sem ætla að brjóta af sér gera það, óháð því hvaða refsing bíður þeirra ef upp um þá kemst.

Það ætlar enginn að láta komast upp um sig.

En eitt sem kannski gæti haft fælandi áhrif væri skilorðsbinding strangs dóms til langs tíma, við fyrsta alvarlega brot: þú sleppur létt núna góurinn, en þér er eins gott að halda þig á mottunni næstu tuttugu árin eða svo ("One strike and you're still in," svo ég snúi út úr "Three strikes and you're out" martröðinni).

Nota bene: ef fólki finnst glæpamenn sleppa of vægt hýddir undan vendi laganna þá er það gott og blessað sjónarmið. En þeir hinir sömu ættu þá að gera sjálfum sér grein fyrir því að um leið er verið að segja að meginhlutverk dómskerfisins sé að refsa hinum seku, veita þeim það sem þeir eiga skilið; ekki fyrst og fremst að draga úr glæpum, skapa öruggara þjóðfélag. Þeir vilja leggja áherslu á hefndina í refsingunni. Af þessum sökum set ég ávallt dálítinn vara á mig þegar ég heyri fólk tala um að herða þurfi refsingar, því frá mínum bæjardyrum séð er stigsmunur en ekki eðlis- á því að krefjast harðari og lengri fangavistar annars vegar og dauðarefsingar hins vegar.

En það er nú kannski bara ég.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com