<$BlogRSDUrl$>

28 júlí 2004


Ég er búinn að vera með svo mikinn verk í mjóbakinu síðan í fyrradag.

Rosalega er maður orðinn gamall. ("Ég er búin að vera með svo mikla vindverki," vældi kerlingarskarið.)

En fátt er svo með öllu illt - ég er búinn að enduruppgötva hvað það er yndislegt að fara í heitt bað á kvöldin.

"Hættu þessu væli," sagði frúin. "Láttu ekki svona og farðu bara í heitt freyðibað. Láttu þetta líða úr þér."

Sem ég gerði. Fékk mér vænan slurk af yfirborðsvirkandi slökun úr flösku með lofnarblómsilmi út í fjörutíuogsex gráða heitt baðvatnið. Lá svo og maríneraðist og las Philip Pullman í blómahafinu.

Það var ljúft. Bæði kvöldin.

En ætli ég fari ekki að láta gott heita. Bæði fer ég skánandi í bakinu og svo kvartar frúin svo svakalega yfir því hvað ég styn mikið og hátt og rýti eins og svín í stíu þegar ég dröslast loksins upp úr, nærri liðið yfir mig af hitasjokki.

Svo þarf ég bara að fara að hreyfa mig eitthvað. Ég er farinn að skoða hvort ég ætti ekki að kaupa mér kort einhvers staðar.

Maður hefði gott af því. Andlega og líkamlega.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com