<$BlogRSDUrl$>

12 maí 2004


Jájá, allir farnir að hlakka til kvöldsins og svona. Eitt veit ég ekki með kvöldið í kvöld, og það er hvort Íslendingum verði boðið upp á að kjósa í símakosningunni, eða hvort hún verði takmörkuð við þau 22 lönd sem keppa. Það verður bara að koma í ljós.

Hitt veit ég, að í kvöld verður ekki þessi hefðbundna "dús púa" seremónía sem við þekkjum og elskum, heldur verða tíu efstu liðin tekin saman og dregin upp úr hatti í kvöldlok til að skikka þeim niður á performanslistann fyrir laugardagskvöldið (svo alls jafnréttis sé gætt). Svo í kvöld verður enginn eiginlegur "sigurvegari," heldur bara tíu "heppnir þátttakendur."

Sem kannski verður allt í lagi líka.

En hverjir verða svo þeir heppnu?

Ég held það þurfi eitthvað mikið að ganga úr skaftinu til að Úkraína, Grikkland og Danmörk sitji eftir. Mín helstu uppáhöld þess fyrir utan sem ég tel nokkuð örugg eru etnópopplögin frá Eistlandi og Hvíta Rússlandi.

Ég er nokkuð viss um að þess fyrir utan munum við sjá Ísrael, Möltu, Mónakó og Kýpur halda áfram - alla vega tvö til þrjú þeirra. Og svo ég verði ekki sakaður um að tvíbóka í sætin vil ég nefna diskótertugubbið hans Deen Eyfjörð frá Bosníu Herzegóvínu sem það líklegasta af þeim sem eftir eru.

Það eru nokkur lög sem ég gleddist yfir að sjá í hópi þeirra tíu heppnu, en sem ég er ekkert yfir mig sannfærður um að eigi eftir að meika það. Þar vil ég nefna lögin frá Finnlandi, Andorra, Makedóníu og Fyrrum Júgóslavíuheimsveldinu.

Ég mun orga upp yfir mig af hryllingi og vanþóknun ef lögin frá Slóveníu eða Hollandi komast áfram, þótt ég geti ekki sagt að það kæmi mér algjörlega í opna skjöldu. En það myndi gleðja mitt litla hjarta ósegjanlega mikið ef Albanía skytist áfram öllum að óvörum. Það er ekki útilokað: Vorkunnar- og lítilmagnaatkvæðin gætu safnast saman. Það má leyfa sér að vona - annað eins hefur nú gerst...

Restin spannar skalann frá því að vera meinlaust en vonlaust (Lettland og Litháen: kjörið fyrir pissupásur) yfir í hreina hörmung (Sviss, Portúgal og Króatía: skylduáhorf) og hef ég ekki fleiri orð um það.

Að síðustu vil ég nefna að Tampa-Torfinn og aðrir þeir sem eru stökk í hinum ýmsustu vanþróuðu heimshlutum þurfa ekki að hafa áhyggjur af að missa af öllu húllumhæinu: Það verður hægt að horfa á bæði kvöldin á internetinu hjá hinni opinberu heimasíðu ("huuu... Erikúúúr...") Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.


Svo bara góða skemmtun í kvöld elskurnar.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com