<$BlogRSDUrl$>

11 maí 2004


Æjá hann Jónsi. Hann Jónsi "okkar."

Ég man það sem gerst hefði í gær að ég sá í fyrsta sinn Himnasönginn sem Ísland sendir í keppnina þetta árið. Og það fyrsta sem ég sagði við konuna mína að því loknu var: "Hva, hvar var eiginlega viðlagið?" Svo áttaði ég mig á því að það var víst til staðar þegar ég heyrði lagið aftur. En við fyrstu hlustun var ég sumsé ekkert yfir mig impóneraður. Í dag verð ég að játa að borið saman við hinar páerballöðurnar í keppninni þetta árið (sem flestar hverjar virðast ganga fyrir þriggja volta umhverfisvænum batteríum) þá finnst mér hann Jónsi bera ægishjálm yfir keppinautana. Hann rokkar feitar en hann ætti að gera, ef allt væri með felldu. Og ég er hrifinn af slagsmálaplaninu: að hann verði bara einn á sviðinu. Þetta gæti vel átt eftir að gera sig - Jónsi gæti átt eftir að vera Jósteinn ársins, ef allt gengur upp.

Versin í þessu Himnalagi minna mig þó á eitthvað sem ég á að þekkja, ég bara kem því ekki fyrir mig...

Talandi um hina máttvana samkeppni: Írland sendir sykursæta súkkulaðidrenginn Kidda Doran og lætur hann syngja vemmilegheitaballöðu sem er hálfu sætari. Hér drýpur aspartam af hverju strái. Kosturinn við þetta lag er sá að þegar það kemur strax á eftir Jónsa sér gervöll Evrópa hvað írska lagið fölnar í samanburðinum.

Svo er það Pólland. Mikið rosalega er það fyndið lag maður: "Hei, sendum mystískan ástaróð í Evróvisjón. Nei, höfum það reggí. Neiannars, auðvitað sendum við djeðgan latínóbræðing. Hvað eigum við að gera? Gaaaah! Fríkum út!" Ég verð reyndar að játa að ég hafði afskaplega gaman af þessu lagi - það er svona "guilty pleasure" hjá mér þetta árið. Og það var allavega í því krókur sem hægt var að fá á heilann: ég er að raula hann í þessum orðum skrifuðum.

Stóra Bretland ætlar sér að rétta úr kútnum í ár eftir Jeminneini-hrakfarirnar í fyrra. Pah! Ég á nú eftir að sjá það gerast.

Aaaaahh! Þá er loksins komið að uppáhaldsnúmerinu mínu af þeim sem frumflytja á laugardagskvöldið. Ska er tónlistargeiri sem hefur orðið sorglega útundan í Evróvisjón í gegnum árin. Svo það gladdi mitt litla hjarta að sjá hina tyrknesku Aþeninga ríða á vaðið og vera "For Real." Ég er nú ekki viss um að þetta eigi eftir að vekja stormandi lukku hjá pöpulnum. En hugmyndin er skemmtileg engu að síður, þrátt fyrir að hún sé eins og skafin innan úr hlustinni á Rancid. Og lagið finnst mér alveg hreint ágætt.

Árangur hinnar rúmensku Nikkólínu í fyrra kom mér alveg jafn mikið í opna skjöldu og öllum öðrum. Ég ætla samt að spá Rúmeníu alveg sama gengi í ár og ég gerði þá: Afspyrnuslöku. Þrátt fyrir að hún Sandí Laktósí virðist hreint afskaplega fagurtennt og brjóstgóð á ég ekki eftir að sjá þetta lag fylgja eftir lítilmagnavarnarsigrinum frá í fyrra.

Og þá er komið að Svíþjóð. Það er sko allt annar útlimur. Stórskemmtileg evróruslagæla sungin af eggjandiðustu flikku í Skandinavíu með húmorinn á réttum beltisstað. Eða neðan við hann: Súludansinn upp við hljóðnemastatífið fer síst versnandi við síendurtekið áhorf. Ég held með Lenu - áfram Svíþjóð!

Nú á ég eftir að taka saman hvernig horfir fyrir annað kvöld. Áður en ég geri það vil ég minna á Evróvisjóndrykkjuleikinn sem frumdrög voru lögð að eftir keppnina í fyrra.

Leikurinn felst í því að þátttakendur fá sér sopa í hvert skipti sem:

Keppnislag er með bullnafni og/eða -viðlagi (sopi fyrir hvert skipti sem bullið kemur fyrir)
Keppnislag hækkar upp um hálfan
Dansarar stíga á stokk (sopi fyrir hvern dansara sem syngur ekki múkk)
Einhver á sviðinu fækkar fötum (sopi fyrir hverja pjötlu sem fleygt er)
Hægt er að raula lagið sem stolið er úr undir flutningnum
Gísli Marteinn talar um að breyta þurfi litnum á RÚV-merkinu í horninu
Gísli Marteinn talar um Græna herbergið
Gísli Marteinn segir að Ísland hljóti nú bara að fá stig frá þessari eða hinni þjóðinni (tveir sopar ef hann kvartar þegar það gengur ekki eftir)
Einhver segir mislukkaðan brandara
Grikkland og Kýpur gefa hvort öðru tólf stig
Ísland fær stig (tilbrigði: einn sopi fyrir hvert)
Ísland er nefnt í sömu andrá og sextánda sæti
Hver þjóð fær fyrstu stigin sín
Breska númerið strumpar falskt

Að sjálfsögðu skála allir þegar íslenski stigavörðurinn býður góða kvöldið

Svo er líka fríspilssopi fyrir öll orgínal Evróvisjón-mómentin (afsakið þversögnina) sem við þekkjum um leið og við sjáum þau, eins og þegar diskógallinn fór að blikka í "Wadde Hadde Dudde Da" um árið. Þau skulu tekin fyrir eitt og eitt í einu og afgreidd með einfaldri handauppréttingu jafnóðum og þau koma upp.

Það er kjörið að nota tækifærið til að prufukeyra þennan leik annað kvöld, svo hægt verði að gera á honum betrumbætur og raffíneringar fyrir laugardagskvöldið.

Ef fólki finnst eitthvað nauðsynlega vanta á listann er kjörið að leggja mér það til í kommentunum hér að neðan:
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com