<$BlogRSDUrl$>

10 maí 2004


Gaaah! Nýtt viðmót í Blogger!
(mér sýnist þetta reyndar til mikilla bóta hjá þeim krökkunum)

En nóg um það. Hvað finnst manni svo um lögin sem debúttera á laugardagskvöldinu? Ég verð að játa að heilt yfir finnst mér nú ekki mikið til koma - það verða lög útundan á miðvikudagskvöldinu sem eru mun betri en lunginn af því sem frumflutt verður á laugardeginum.

Eða kannski er það bara ég. Ég veit til dæmis að mörgum finnst spænska lagið ágætt. Sjálfum mér kom á óvart hversu lítt hrifinn ég var af því að heyra hvernig Spánverjinn gerir latínómúsík. (Og meðal annarra orða verð ég reyndar að játa að með tímanum dregur úr hrifningu minni yfir því hvernig Finninn gerði tangó.) Jújú, hann Ramón er ofsalega sætur og fær eflaust fimm kvenna her af amazónum með sér til að skekja sig á sviðinu. En ég er ekki sannfærður um að það muni hreyfa neitt við mér að ráði.

Þó er spænska framlagið andskotakorninu skárra en himpigimpin í Tie-Break frá Austurríki: Laglausir strákpjakkar með strípur í nasahárunum og kolgeitglott á djúphreinsuðu smettinu. Burt með ykkur, þið þarna... vonlausu strákar! Viðrini! Gary Barlow er dauður! Lengi lifi Gary Barlow!

Púff. Afsakið. Ég þarf aðeins að jafna mig hérna...

Humm Noregur já. Enn eitt lagið sem stendur undir einhverju minna en væntingum. Það eina sem mér dettur í hug að gæti bjargað málum væri ef hann Knútur karl væri virkilega "High" þegar hann kæmi á svið að troða upp. Lagið myndi nú reyndar varla skána við það, en það gæti þó alla vega orðið þess virði að horfa á performansinn.

Hvað er þetta með Evróvisjón og litla sæta stráka? Af hverju koma þeir svona sterkir inn alltaf hreint? Nei ókei, það er augljóst: þeir höfða náttúrulega svo vel til þriggja stærstu markhópa keppninnar - homma, táningsstelpna og gamalla amma og frænkna sem slefa yfir Evróvisjón þar sem þeim er staflað eins og sardínum á elliheimilum Evrópu. Þær eru eflaust margar kölkuðu frænkurnar sem eiga eftir að kjósa Jónatan hinn franska (rétt eins og Ramón. Og Jónsa), bara fyrir það hvað hann er mikill dúlla strákurinn. En lagið sem hann raular er hálfmáttlaust og lítt eftirminnilegt.

Déskotinn sjálfur. Lengi getur vont versnað. Frá Þýskalandi kemur feitraddaður gallabuxi með tungl í fyllingu sem þykist vera Van Morrison en er bara Van. Eins og í Van Burda. Eða Van Haefur. Þessi falsetta eða hvað sem það á að vera sem hann þarf að rembast við í restina á laginu er frómt frá sagt sorgleg. Allt annað við entransinn er bara Van.

Svo sögðu norrænu spekingarnir á laugardagskvöldið að nútímalegasta lagið þetta árið kæmi frá Belgíu. En mér er spurn: Eru ekki svona tíu ár síðan þetta flæmska 2-Unlimited teknótransdollusánd komst úr tísku hjá öllum þeim sem geta farið út á lífið án þess að bryðja nokkuð sterkara en súkkulaðihúðaðar kaffibaunir? Snípsíða pínuklukkan var að vísu skondin, ég verð að gefa þeim það. Og það er aldrei að vita nema það verði gaman að þessu númeri ef þau verða eins dugleg að simúlera kynlífsathafnir á sviðinu í Istanbúl og þau virðast hafa verið í heimakeppninni.

Nú verður flutningurinn á rússneska laginu í Istanbúl allfrábrugðinn því sem sýnt var á laugardagskvöldið: Hún Júlla fær víst með sér fimm breikdansbræður sem lífga upp á númerið meðan hún syngur - svona eins og frakkalafastrákarnir gerðu fyrir hana Selmu um árið. Við verðum bara að sjá hvernig það virkar, það má verða hreint býsna magnað sjóv ef það á að breyta áliti mínu á laginu: Þetta var afskaplega meinlaus og óinteressant poppfluga sem var flutt með minna en gneistandi persónutöfrum af snoppufríðri táningsstelpu sem leit ekki nema rétt svo út fyrir að geta loftað gítarnum sem hún bisaðist með í fanginu, hvað þá að hún liti út fyrir að geta spilað á hann. Var gítar í þessu lagi? Allavega, mér skilst að hann verði ekki á sviðinu í Istanbúl, svo rússneska númerið verður eflaust skárra en efni standa til. En sigur? Njeeehh...

Þá er röðin loksins komin að honum Jónsa okkar karlinum. Hann fær að bíða til morguns, ásamt með þeim sem eftir er að gera skil.

Og hvur veit - kannski á ég jafnvel eftir að tala vel um einhver laganna sem ég tek fyrir á morgun.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com