<$BlogRSDUrl$>

17 maí 2004


Ég fór nú eiginlega nær þessu en mig grunaði - mér sýnist sem sjö af þeim tíu sem ég nefndi hafi endað á topp tíu fyrir rest. Velgengni Albaníu (7) var meiri en ég þorði að vona, og kom mér reyndar á óvart þar sem mér fannst allrabrothættasti sjarminn gufa upp af henni Ansésu í nýju múnderingunni. Ég bara skil ekki hvað fólk sá við lagið frá Þýskalandi (8), hvað þá flytjandann, en finnst heldur skiljanlegra að Spánn (10) skyldi ná að slefa upp í eitt af toppsætunum.

Ég var alveg hreint úti að skíta með árangur Belgíu (22) sem er mér sosum að meinalausu. Það munaði litlu með lagið frá Rússlandi (11), en mér hefði alveg mátt skjöplast jafnhrapallega með það þar sem greinilega var reynt að forðast litleysið (hnegghnegg) með svo róttækum aðgerðum að varð hreint út sagt pínlegt á að horfa.

Og Jónsi (19)? Æ þetta kom nú ekki á óvart. Það var gaman að hlusta á hann Gísla reyna að finna upp á sífellt fáránlegri aðferðum fyrir hinar ýmsustu þjóðir að gefa okkur stig. En mér fannst hann Jónsi standa sig eins vel og hægt var að ætlast til miðað við lagið, fyrir utan kannski sykursæta englabossalúkkið þegar hann þakkaði fyrir sig í restina. Það var fyndið.

Kom annars nokkrum á óvart að Úkraína skyldi vinna þetta? Ég meina, þetta voru Sætir Kroppar! í Leðri og Loðfeldum! með Svipur! Mér fannst nú einhvern veginn liggja í loftinu að balkanrómantíkin og grísku handarkrikahárin hefðu ekki það sem til þyrfti upp á móti henni Rúslönu.

Mig langar rétt aðeins til að minnast á Svíþjóð - hún Lena virtist langt frá sínu besta á stóra kvöldinu og náði ekki að krauma af sama krafti og manni sýndist hún hafa gert í undankeppninni. Kannski hefði hún bara átt að syngja þetta á sænsku...

Lærdómurinn af velgengni Tyrklands í ár (sérstaklega ef hann er settur í samhengi við hann Alf Poier í fyrra) finnst mér vera að það ætti að vera tiltölulega örugg strategía fyrir skammlausan árangur að senda eitthvað lengst utan af vinstri vallarhelmingi í keppnina. Ég sagði nokkuð svipað fyrir ári og segi það enn. Í ár var það pönk/ska bræðingur. Hvað væri nú gaman að fá næst? Noisecore? Dub? Goth? Einhverjar fleiri fáránlegar hugmyndir?

Mér finnst enn að Mínus ætti að keppa í Evróvisjón - það yrði gaman að fá alvöru rokk og ról til að hrista upp í hlutunum. Eða hvað með kommbakk frá Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur? Bara svona sem dæmi...

Ég fór nú ekki einu sinni í minn eigin drykkjuleik sjálfur, að minnsta kosti ekki með "live ammo," en mér sýndist þó nóg af tækifærum til að sturta í sig þetta kvöldið fyrir þá sem það vildu. Hafa vogaðir lesendur ef til vill reynslusögur af eigin spilamennsku sem þeir vilja deila með mér?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com