<$BlogRSDUrl$>

07 maí 2004


Þá er það lokaskammturinn fyrir undanúrslitakvöldið. Nú er sko aldeilis farið að styttast í að þetta: Annað kvöld verður kontrapunktskynningin fyrir úrslitakvöldið, undanúrslitakvöldið verður komandi miðvikudag, og þremur dögum seinna rennur upp stóri dagurinn. Ég verð að halda vel á spöðunum með umfjöllunina. Við skulum segja að ég stefni á að sundurliða úrslitaliðin í tveimur til þremur skömmtum á sunnudag, mánudag og þriðjudag. Á miðvikudaginn verð ég náttúrulega að koma með einhverja úttekt og spekúlasjónir fyrir kvöldið. Og samantekt og yfirferð daginn eftir. Föstudagurinn fer svo náttúrulega í spádóma og vangaveltur fyrir kvöldið stóra á laugardeginum.

Nóg um það í bili.

Lagið frá Serbíu og Svartfjallalandi var afskaplega sérkennilegt, þótti mér. Þjóðlegt gaul yfir nútímabíti - að vísu margjöpluð tugga þetta árið, en gæti verið verra. Ég hef satt best að segja ekki minnstu glóru um það hvernig þessu lagi á eftir að vegna - ég óska Željko Joksimović og hljómsveit hans bara alls hins besta. Ég get ekki einu sinni gert upp við mig hvort mér finnst lagið gott eða ekki.

Þá meina ég að sjálfsögðu "gott" eins og maður notar orðið í samhengi við Evróvisjónsöngvakeppnina yfir höfuð.

Myndi maður nota það hið sama orð til að lýsa framlagi Bosníu og Hersegóvínu þetta árið? Varla. Nema í samhenginu "Góð stæling á Giorgio Moroder maður." Eða: "Góður þjófnaður á Hot Stuff stefinu maður." Eða í besta falli: "Góður klónn af Skildi maður." Þetta lag er diskónábítur. Svona er diskó á bragðið þegar þú ælir því upp aftur eftir heiftarlegt kast af diskóbúlemíu.

Og Holland. Púff. Ég held sveimérþá að viðlíka hörmung hafi ekki sést síðan Írland plagaði Evrópu með vanskapnaðinum "Rock'n'Roll Kids" um árið. Mín vegna má públíkúm mæta með rotna tamarillo- og papayaávexti til að grýta í strákana í Re-Union. Re-Union?!!! "The Boys Reunion" myndi hafa meiri sjarma og persónutöfra en þessi hryllingur.


Tjah, þá er það bara komið. Og ekki orð um þessa entransa meir (nema etv í kommentum) fyrr en á miðvikudaginn.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com