<$BlogRSDUrl$>

28 maí 2004


Mig langaði til að sjá hversu mörg samheiti ég gæti í fljótu bragði fundið við orðið gunga:

Gufa
Heybrók
Hugleysingi
Lydda
Lítilmenni
Löðurmenni
Raggeit
Vingull

Ég er að gleyma heilum helling - það er yndislegt hvað íslenskan á mörg orð yfir þá sem svo sorglega er komið fyrir.

Af öllu ofantöldu er heybrók í mestu uppáhaldi hjá mér - það dregur upp svo skemmtilega mynd af viðkomandi.

Drusla er vitaskuld ljómandi gott orð líka, en með fleiri merkingar. Þótt vissulega séu þær allar ágætar.
by Hr. Pez

27 maí 2004


Enn og aftur er ég orðinn fjarvistum við frúna. En í þetta skiptið verður nú ekki nema rúmur sólarhringur þangað til við hittumst á ný. Svo er ferming um helgina og eitthvert heljarinnar ÁGÚST (Á Grillið Úr Sinni Tösku) með skyldmennum spúsunnar á sunnudagskvöldið.

Sem minnir mig á að ég þarf að fara í mjólkurbúðina fyrir helgina.
by Hr. Pez

26 maí 2004


Já þetta var nú bara alveg hreint ágætt takk fyrir. Hefði getað verið tölvert verra.

Já sumsé, ég var á menningarviðburði í Kaplakrikanum, í fylgd með Doktor Schnitzel. Og virtist sem megnið af pöpulnum hefði haft af þessu allnokkurt gaman.

Óvæntasta ánægjan var að krakkarnir skyldu taka Er það nú tíðarfar. Fast á hæla þess var að það skyldi vera Frú Murphy sem söng Lag konunnar í steypta ofninum.

Furðulegasta augnablikið var þó þegar tónleikunum var lokið og ég var á leiðinni út og fann einhvern hella vökva úr flösku yfir höndina sem ég hélt að baki mér. Og sneri mér við til að sjá að viðkomandi var ekki að hella úr flösku, heldur bara að vinda svitann úr bolnum sínum.
by Hr. Pez

25 maí 2004


Ég sit hér og hlusta til skiptis á Surfer Rosa og Doolittle og leyfi mér að hlakka til annars kvölds.

Það var nú reyndar fullt að frétta í gær, ég bara gaf mér ekki tímann til að færa það inn.

Frúin kom heim frá Svíþjóð í fyrradag. Það urðu miklir fagnaðarfundir, enda höfðum við tvö þá ekki sést nema í mýflugumynd í eina og hálfa viku. Hún gerði vel við mig um kvöldið: leigði handa mér Fame og horfði á hana mér til samlætis. Það eitt gerir myndina þess virði að sjá hana að fylgjast með uppáhalds sjónvarpslækninum mínum ekki einungis ungum og gelgjulegum (og með vinstri handlegg), heldur með þennan líka fína eldrauða krullumakka.
by Hr. Pez

24 maí 2004


Afsakið en ég hef ekkert að segja.
by Hr. Pez

21 maí 2004


Gleraugun eru fundin. Og skýringin nánast jafn súrrealísk og viðburðurinn.

Af hverju?

Jú, gleraugun voru vissulega þar sem ég lagði þau frá mér síðast, ég var bara búinn að gleyma hvar það var.

Ég sumsé lagði gleraugun mín í dúkkurúm eldri dóttur minnar. Og breiddi svo yfir þau.
by Hr. Pez


Ég lenti í morgun í súrrealískustu reynslu sem ég hef upplifað lengi. Í gærkvöldi las ég pínu fyrir svefninn, lagði bókina og gleraugun á náttborðið, slökkti ljósið og fór að sofa. Fer ekki meir sögum af því fyrr en ég vaknaði nú í morgun og gleraugun voru horfin af náttborðinu. Og síðan hefur hvorki sést til þeirra tangur né tetur.

Ég bara skil þetta ekki.

Annars er sú yngri lasin og frúin á ráðstefnu í Svíþjóð, svo maður er stökk hérna heimavið í dag.
by Hr. Pez

19 maí 2004


Í tilefni dagsins dedúaði ég við Párið á tölvuöld.
Kannski ég láti líka hringla eitthvað í keðjugenginu á næstunni.
by Hr. Pez


Um helgina sem leið kom út fyrsta tölublað Verðandi, nýs rafræns bókmenntatímarits, og þess fyrsta hér á landi sem leggur áherslu á að sinna jaðarbókmenntum ýmiss konar. Þeir sem eru að frétta af þessu fyrst núna ættu endilega að smella sér á eintak: Það gerist ekki ódýrara en ókeypis.

Það var verið að benda mér á að Kistan birtir í dag sýnishorn úr téðu tímariti þar sem undirritaður kemur við sögu.

Ekki amalegt þetta, þótt ég segi sjálfur frá.
by Hr. Pez

17 maí 2004


Ég fór nú eiginlega nær þessu en mig grunaði - mér sýnist sem sjö af þeim tíu sem ég nefndi hafi endað á topp tíu fyrir rest. Velgengni Albaníu (7) var meiri en ég þorði að vona, og kom mér reyndar á óvart þar sem mér fannst allrabrothættasti sjarminn gufa upp af henni Ansésu í nýju múnderingunni. Ég bara skil ekki hvað fólk sá við lagið frá Þýskalandi (8), hvað þá flytjandann, en finnst heldur skiljanlegra að Spánn (10) skyldi ná að slefa upp í eitt af toppsætunum.

Ég var alveg hreint úti að skíta með árangur Belgíu (22) sem er mér sosum að meinalausu. Það munaði litlu með lagið frá Rússlandi (11), en mér hefði alveg mátt skjöplast jafnhrapallega með það þar sem greinilega var reynt að forðast litleysið (hnegghnegg) með svo róttækum aðgerðum að varð hreint út sagt pínlegt á að horfa.

Og Jónsi (19)? Æ þetta kom nú ekki á óvart. Það var gaman að hlusta á hann Gísla reyna að finna upp á sífellt fáránlegri aðferðum fyrir hinar ýmsustu þjóðir að gefa okkur stig. En mér fannst hann Jónsi standa sig eins vel og hægt var að ætlast til miðað við lagið, fyrir utan kannski sykursæta englabossalúkkið þegar hann þakkaði fyrir sig í restina. Það var fyndið.

Kom annars nokkrum á óvart að Úkraína skyldi vinna þetta? Ég meina, þetta voru Sætir Kroppar! í Leðri og Loðfeldum! með Svipur! Mér fannst nú einhvern veginn liggja í loftinu að balkanrómantíkin og grísku handarkrikahárin hefðu ekki það sem til þyrfti upp á móti henni Rúslönu.

Mig langar rétt aðeins til að minnast á Svíþjóð - hún Lena virtist langt frá sínu besta á stóra kvöldinu og náði ekki að krauma af sama krafti og manni sýndist hún hafa gert í undankeppninni. Kannski hefði hún bara átt að syngja þetta á sænsku...

Lærdómurinn af velgengni Tyrklands í ár (sérstaklega ef hann er settur í samhengi við hann Alf Poier í fyrra) finnst mér vera að það ætti að vera tiltölulega örugg strategía fyrir skammlausan árangur að senda eitthvað lengst utan af vinstri vallarhelmingi í keppnina. Ég sagði nokkuð svipað fyrir ári og segi það enn. Í ár var það pönk/ska bræðingur. Hvað væri nú gaman að fá næst? Noisecore? Dub? Goth? Einhverjar fleiri fáránlegar hugmyndir?

Mér finnst enn að Mínus ætti að keppa í Evróvisjón - það yrði gaman að fá alvöru rokk og ról til að hrista upp í hlutunum. Eða hvað með kommbakk frá Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur? Bara svona sem dæmi...

Ég fór nú ekki einu sinni í minn eigin drykkjuleik sjálfur, að minnsta kosti ekki með "live ammo," en mér sýndist þó nóg af tækifærum til að sturta í sig þetta kvöldið fyrir þá sem það vildu. Hafa vogaðir lesendur ef til vill reynslusögur af eigin spilamennsku sem þeir vilja deila með mér?
by Hr. Pez

15 maí 2004


Jæja, hvernig fer þetta svo í kvöld, hvernig í ósköpunum?

Áður er getið að Úkraína og Grikkland verða ofarlega á lista í kvöld. Auk þeirra verður Svíþjóð á róli með þeim allrasterkustu. Þessi þrjú lönd finnst mér vera þau sigurstranglegustu. Og ég gæti meir að segja fyrirgefið honum Sakís þótt hann ynni. Auk þessa grunar mig að serbneska, bosníska og belgíska lagið eigi öll eftir að enda ofan til. Það fyrstnefnda á það sosum alveg skilið. Hin tvö síður, en svona gengur það. Ef kýpverska stelpuskjátan syngur skammlaust í kvöld (ólíkt miðvikudagskvöldinu) á hún eflaust eftir að heilla hálfa Evrópu upp úr skónum. Uppáhaldsnúmerið mitt í kvöld og það sem ég vona að lendi sem ofarlegast er að sjálfsögðu ska-pönkgrúppan Aþena frá Tyrklandi. Þá er ég búinn að nefna hvað? átta lönd? Ég var afar lítt sannfærður um að Rússland ætti eftir að gera neitt af viti í ár eftir vídeóið sem þaðan kom, en fréttir herma að sjóið í kvöld nýti sér hóp af dansandi bræðrum sem lífgi mikið upp á herlegheitin. Kannski verður það þarna einhversstaðar í efri hlutanum líka. Og síðasta sætið í tíu efstu? Verður það ekki að vera hann Jónsi? Bara svona upp á þjóðræknina? Það gæti alveg gerst… Svo gæti líka verið að Makedónía ætti eftir að vinna þetta…

Allavega. Skemmtið ykkur vel í kvöld og gangið hægt um gleðinnar dyr.
by Hr. Pez

13 maí 2004


Já, kvöldið átti sínar björtu og myrku stundir. En allar voru þær nú skemmtilegar. Og lofa góðu fyrir laugardagskvöldið.

Fyrst vil ég taka fram að ég áttaði mig á því að tvær breytingar eru nauðsynlegar á drykkjuleiknum fyrir laugardagskvöldið, það vill segja, ein viðbót og ein raffínering, og báðar urðu mér ljósar undir makedónska númerinu í gærkvöldi:

Til að byrja með gefur auga leið að það er sko pottþétt ástæða fyrir sopa í hvert skipti sem Gísli Marteinn minnist á Makedóníuheilkennið.
Hin breytingin er sú að ef augljóst er að "orgínal" Evróvisjónmómentið er hreint ekki svo orgínal, heldur þvert á móti "fengið að láni" (les: stolið) úr fyrri keppni, þá er það aldeilis ekki efni í einn sopa.

Það er sko efni í tvo!

Þetta datt í mig þegar ég sá dansarana rekja bleika borða eins og garnirnar úr honum Tósje stráknum og hugsaði: neisko, er þetta bara ekki alveg eins og snýtt út úr blóðugri nösinni á vinningssjóvinu hjá Tyrklandi í fyrra!

En nóg um það.

Það kom náttúrulega engum á óvart að Rúslana og Sakís Rövas skyldu fljúga inn í úrslitin. Mér þótti synd að sjá á bak entrönsunum frá Danmörku, Hvíta Rússlandi og sérstaklega Eistlandi, en það átti kannski ekki að koma á óvart, þar sem téð númer gerðu sig ekki alveg eins vel á sviðinu og þau höfðu virkað í vídeóinu. Erfitt að sjá svona fyrir. Ég tók þó eftir að Eistland hefði verið næsta land inn, ásamt með Ísrael (og Danmörk stigi á eftir). Æ ansans, ég hefði átt að kjósa nokkrum sinnum í viðbót (“Baaah, it wouldn’t have mattered!”).

Óvæntasta ánægja kvöldsins var vitaskuld að hin albanska Ansésa skyldi stinga sér inn í úrslitin á brothættum sjarmanum og unglingabólunum einum saman. Mér fannst hún alveg eiga það skilið. Einhver Albaninn á eflaust eftir að gera kvikmynd um þetta og fá sýnda í Ríkissjónvarpinu í Tirana: “Albanski draumurinn! (byggt á sannri sögu)”

Allavegana, Rúslana og Sakís lágu beint við. Einnig grísaði ég á Möltu, Kýpur og Bosníu (með hálfgerðu því miður á línuna). Og þá er það upptalið, þótt ekki hafi vantað nema herslumuninn með Ísrael, Eistland og Danmörku. Þess fyrir utan öskraði ég yfir mig af hryllingi og vanþóknun þegar Holland fór áfram, en glotti eins og mannaskítur yfir þeim guðlega gamanleik að Króatía hefði meikað það (Kiss mí onn mæ feis? Komm onn), ásamt með henni Ansésu. Þess fyrir utan stungu Serbar og Makedónar sér með, og hefði margt getað verið verra.

Kannski Makedónía eigi bara eftir að vinna þetta, það gæti alveg gerst...

Restin var svona ýmist eins og við var að búast eða stóð ekki undir væntingum, fyrir utan það að númerin frá Portúgal og Litháen voru miklu skárri en ég átti von á, fyrir rest. En djedl var svissneska lagið fyndið vinur.

Svo fara bara allir að hlakka til úrslitakvöldsins: þetta verður gaman. Ég held að það sé búið að bjóða mér í Evróvisjónspartí fyrir kvöldið. En þeir sem þekkja mig mega samt alveg vera í bandi og láta mig vita hvað þeir hafa á prjónunum.

En hvernig fer þetta nú allt saman, Ó! þetta er svo spennandi!!!

Púff.
by Hr. Pez

12 maí 2004


Það var að rifjast upp fyrir mér að einu sinni þegar ég var lítill þá dreymdi mig að leikvangarokksveitin Toto væri að taka þátt í Evróvisjón fyrir hönd Bandaríkjanna. Ég man ekki hvernig lag þeir spiluðu. Það hefur ábyggilega verið eitthvað rosalega sítt að aftan.
by Hr. Pez


Jájá, allir farnir að hlakka til kvöldsins og svona. Eitt veit ég ekki með kvöldið í kvöld, og það er hvort Íslendingum verði boðið upp á að kjósa í símakosningunni, eða hvort hún verði takmörkuð við þau 22 lönd sem keppa. Það verður bara að koma í ljós.

Hitt veit ég, að í kvöld verður ekki þessi hefðbundna "dús púa" seremónía sem við þekkjum og elskum, heldur verða tíu efstu liðin tekin saman og dregin upp úr hatti í kvöldlok til að skikka þeim niður á performanslistann fyrir laugardagskvöldið (svo alls jafnréttis sé gætt). Svo í kvöld verður enginn eiginlegur "sigurvegari," heldur bara tíu "heppnir þátttakendur."

Sem kannski verður allt í lagi líka.

En hverjir verða svo þeir heppnu?

Ég held það þurfi eitthvað mikið að ganga úr skaftinu til að Úkraína, Grikkland og Danmörk sitji eftir. Mín helstu uppáhöld þess fyrir utan sem ég tel nokkuð örugg eru etnópopplögin frá Eistlandi og Hvíta Rússlandi.

Ég er nokkuð viss um að þess fyrir utan munum við sjá Ísrael, Möltu, Mónakó og Kýpur halda áfram - alla vega tvö til þrjú þeirra. Og svo ég verði ekki sakaður um að tvíbóka í sætin vil ég nefna diskótertugubbið hans Deen Eyfjörð frá Bosníu Herzegóvínu sem það líklegasta af þeim sem eftir eru.

Það eru nokkur lög sem ég gleddist yfir að sjá í hópi þeirra tíu heppnu, en sem ég er ekkert yfir mig sannfærður um að eigi eftir að meika það. Þar vil ég nefna lögin frá Finnlandi, Andorra, Makedóníu og Fyrrum Júgóslavíuheimsveldinu.

Ég mun orga upp yfir mig af hryllingi og vanþóknun ef lögin frá Slóveníu eða Hollandi komast áfram, þótt ég geti ekki sagt að það kæmi mér algjörlega í opna skjöldu. En það myndi gleðja mitt litla hjarta ósegjanlega mikið ef Albanía skytist áfram öllum að óvörum. Það er ekki útilokað: Vorkunnar- og lítilmagnaatkvæðin gætu safnast saman. Það má leyfa sér að vona - annað eins hefur nú gerst...

Restin spannar skalann frá því að vera meinlaust en vonlaust (Lettland og Litháen: kjörið fyrir pissupásur) yfir í hreina hörmung (Sviss, Portúgal og Króatía: skylduáhorf) og hef ég ekki fleiri orð um það.

Að síðustu vil ég nefna að Tampa-Torfinn og aðrir þeir sem eru stökk í hinum ýmsustu vanþróuðu heimshlutum þurfa ekki að hafa áhyggjur af að missa af öllu húllumhæinu: Það verður hægt að horfa á bæði kvöldin á internetinu hjá hinni opinberu heimasíðu ("huuu... Erikúúúr...") Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.


Svo bara góða skemmtun í kvöld elskurnar.
by Hr. Pez

11 maí 2004


Æjá hann Jónsi. Hann Jónsi "okkar."

Ég man það sem gerst hefði í gær að ég sá í fyrsta sinn Himnasönginn sem Ísland sendir í keppnina þetta árið. Og það fyrsta sem ég sagði við konuna mína að því loknu var: "Hva, hvar var eiginlega viðlagið?" Svo áttaði ég mig á því að það var víst til staðar þegar ég heyrði lagið aftur. En við fyrstu hlustun var ég sumsé ekkert yfir mig impóneraður. Í dag verð ég að játa að borið saman við hinar páerballöðurnar í keppninni þetta árið (sem flestar hverjar virðast ganga fyrir þriggja volta umhverfisvænum batteríum) þá finnst mér hann Jónsi bera ægishjálm yfir keppinautana. Hann rokkar feitar en hann ætti að gera, ef allt væri með felldu. Og ég er hrifinn af slagsmálaplaninu: að hann verði bara einn á sviðinu. Þetta gæti vel átt eftir að gera sig - Jónsi gæti átt eftir að vera Jósteinn ársins, ef allt gengur upp.

Versin í þessu Himnalagi minna mig þó á eitthvað sem ég á að þekkja, ég bara kem því ekki fyrir mig...

Talandi um hina máttvana samkeppni: Írland sendir sykursæta súkkulaðidrenginn Kidda Doran og lætur hann syngja vemmilegheitaballöðu sem er hálfu sætari. Hér drýpur aspartam af hverju strái. Kosturinn við þetta lag er sá að þegar það kemur strax á eftir Jónsa sér gervöll Evrópa hvað írska lagið fölnar í samanburðinum.

Svo er það Pólland. Mikið rosalega er það fyndið lag maður: "Hei, sendum mystískan ástaróð í Evróvisjón. Nei, höfum það reggí. Neiannars, auðvitað sendum við djeðgan latínóbræðing. Hvað eigum við að gera? Gaaaah! Fríkum út!" Ég verð reyndar að játa að ég hafði afskaplega gaman af þessu lagi - það er svona "guilty pleasure" hjá mér þetta árið. Og það var allavega í því krókur sem hægt var að fá á heilann: ég er að raula hann í þessum orðum skrifuðum.

Stóra Bretland ætlar sér að rétta úr kútnum í ár eftir Jeminneini-hrakfarirnar í fyrra. Pah! Ég á nú eftir að sjá það gerast.

Aaaaahh! Þá er loksins komið að uppáhaldsnúmerinu mínu af þeim sem frumflytja á laugardagskvöldið. Ska er tónlistargeiri sem hefur orðið sorglega útundan í Evróvisjón í gegnum árin. Svo það gladdi mitt litla hjarta að sjá hina tyrknesku Aþeninga ríða á vaðið og vera "For Real." Ég er nú ekki viss um að þetta eigi eftir að vekja stormandi lukku hjá pöpulnum. En hugmyndin er skemmtileg engu að síður, þrátt fyrir að hún sé eins og skafin innan úr hlustinni á Rancid. Og lagið finnst mér alveg hreint ágætt.

Árangur hinnar rúmensku Nikkólínu í fyrra kom mér alveg jafn mikið í opna skjöldu og öllum öðrum. Ég ætla samt að spá Rúmeníu alveg sama gengi í ár og ég gerði þá: Afspyrnuslöku. Þrátt fyrir að hún Sandí Laktósí virðist hreint afskaplega fagurtennt og brjóstgóð á ég ekki eftir að sjá þetta lag fylgja eftir lítilmagnavarnarsigrinum frá í fyrra.

Og þá er komið að Svíþjóð. Það er sko allt annar útlimur. Stórskemmtileg evróruslagæla sungin af eggjandiðustu flikku í Skandinavíu með húmorinn á réttum beltisstað. Eða neðan við hann: Súludansinn upp við hljóðnemastatífið fer síst versnandi við síendurtekið áhorf. Ég held með Lenu - áfram Svíþjóð!

Nú á ég eftir að taka saman hvernig horfir fyrir annað kvöld. Áður en ég geri það vil ég minna á Evróvisjóndrykkjuleikinn sem frumdrög voru lögð að eftir keppnina í fyrra.

Leikurinn felst í því að þátttakendur fá sér sopa í hvert skipti sem:

Keppnislag er með bullnafni og/eða -viðlagi (sopi fyrir hvert skipti sem bullið kemur fyrir)
Keppnislag hækkar upp um hálfan
Dansarar stíga á stokk (sopi fyrir hvern dansara sem syngur ekki múkk)
Einhver á sviðinu fækkar fötum (sopi fyrir hverja pjötlu sem fleygt er)
Hægt er að raula lagið sem stolið er úr undir flutningnum
Gísli Marteinn talar um að breyta þurfi litnum á RÚV-merkinu í horninu
Gísli Marteinn talar um Græna herbergið
Gísli Marteinn segir að Ísland hljóti nú bara að fá stig frá þessari eða hinni þjóðinni (tveir sopar ef hann kvartar þegar það gengur ekki eftir)
Einhver segir mislukkaðan brandara
Grikkland og Kýpur gefa hvort öðru tólf stig
Ísland fær stig (tilbrigði: einn sopi fyrir hvert)
Ísland er nefnt í sömu andrá og sextánda sæti
Hver þjóð fær fyrstu stigin sín
Breska númerið strumpar falskt

Að sjálfsögðu skála allir þegar íslenski stigavörðurinn býður góða kvöldið

Svo er líka fríspilssopi fyrir öll orgínal Evróvisjón-mómentin (afsakið þversögnina) sem við þekkjum um leið og við sjáum þau, eins og þegar diskógallinn fór að blikka í "Wadde Hadde Dudde Da" um árið. Þau skulu tekin fyrir eitt og eitt í einu og afgreidd með einfaldri handauppréttingu jafnóðum og þau koma upp.

Það er kjörið að nota tækifærið til að prufukeyra þennan leik annað kvöld, svo hægt verði að gera á honum betrumbætur og raffíneringar fyrir laugardagskvöldið.

Ef fólki finnst eitthvað nauðsynlega vanta á listann er kjörið að leggja mér það til í kommentunum hér að neðan:
by Hr. Pez

10 maí 2004


Annars var ég rétt í þessu að uppgötva ágæta íslenska aðdáendasíðu Evróvisjóns, sem er meira en sjálfsagt að plögga hér. Skoðanir þeirra Helgu og Daníels Freys á keppendunum í ár eru líka ljómandi skemmtilegar aflestrar.
by Hr. Pez


Gaaah! Nýtt viðmót í Blogger!
(mér sýnist þetta reyndar til mikilla bóta hjá þeim krökkunum)

En nóg um það. Hvað finnst manni svo um lögin sem debúttera á laugardagskvöldinu? Ég verð að játa að heilt yfir finnst mér nú ekki mikið til koma - það verða lög útundan á miðvikudagskvöldinu sem eru mun betri en lunginn af því sem frumflutt verður á laugardeginum.

Eða kannski er það bara ég. Ég veit til dæmis að mörgum finnst spænska lagið ágætt. Sjálfum mér kom á óvart hversu lítt hrifinn ég var af því að heyra hvernig Spánverjinn gerir latínómúsík. (Og meðal annarra orða verð ég reyndar að játa að með tímanum dregur úr hrifningu minni yfir því hvernig Finninn gerði tangó.) Jújú, hann Ramón er ofsalega sætur og fær eflaust fimm kvenna her af amazónum með sér til að skekja sig á sviðinu. En ég er ekki sannfærður um að það muni hreyfa neitt við mér að ráði.

Þó er spænska framlagið andskotakorninu skárra en himpigimpin í Tie-Break frá Austurríki: Laglausir strákpjakkar með strípur í nasahárunum og kolgeitglott á djúphreinsuðu smettinu. Burt með ykkur, þið þarna... vonlausu strákar! Viðrini! Gary Barlow er dauður! Lengi lifi Gary Barlow!

Púff. Afsakið. Ég þarf aðeins að jafna mig hérna...

Humm Noregur já. Enn eitt lagið sem stendur undir einhverju minna en væntingum. Það eina sem mér dettur í hug að gæti bjargað málum væri ef hann Knútur karl væri virkilega "High" þegar hann kæmi á svið að troða upp. Lagið myndi nú reyndar varla skána við það, en það gæti þó alla vega orðið þess virði að horfa á performansinn.

Hvað er þetta með Evróvisjón og litla sæta stráka? Af hverju koma þeir svona sterkir inn alltaf hreint? Nei ókei, það er augljóst: þeir höfða náttúrulega svo vel til þriggja stærstu markhópa keppninnar - homma, táningsstelpna og gamalla amma og frænkna sem slefa yfir Evróvisjón þar sem þeim er staflað eins og sardínum á elliheimilum Evrópu. Þær eru eflaust margar kölkuðu frænkurnar sem eiga eftir að kjósa Jónatan hinn franska (rétt eins og Ramón. Og Jónsa), bara fyrir það hvað hann er mikill dúlla strákurinn. En lagið sem hann raular er hálfmáttlaust og lítt eftirminnilegt.

Déskotinn sjálfur. Lengi getur vont versnað. Frá Þýskalandi kemur feitraddaður gallabuxi með tungl í fyllingu sem þykist vera Van Morrison en er bara Van. Eins og í Van Burda. Eða Van Haefur. Þessi falsetta eða hvað sem það á að vera sem hann þarf að rembast við í restina á laginu er frómt frá sagt sorgleg. Allt annað við entransinn er bara Van.

Svo sögðu norrænu spekingarnir á laugardagskvöldið að nútímalegasta lagið þetta árið kæmi frá Belgíu. En mér er spurn: Eru ekki svona tíu ár síðan þetta flæmska 2-Unlimited teknótransdollusánd komst úr tísku hjá öllum þeim sem geta farið út á lífið án þess að bryðja nokkuð sterkara en súkkulaðihúðaðar kaffibaunir? Snípsíða pínuklukkan var að vísu skondin, ég verð að gefa þeim það. Og það er aldrei að vita nema það verði gaman að þessu númeri ef þau verða eins dugleg að simúlera kynlífsathafnir á sviðinu í Istanbúl og þau virðast hafa verið í heimakeppninni.

Nú verður flutningurinn á rússneska laginu í Istanbúl allfrábrugðinn því sem sýnt var á laugardagskvöldið: Hún Júlla fær víst með sér fimm breikdansbræður sem lífga upp á númerið meðan hún syngur - svona eins og frakkalafastrákarnir gerðu fyrir hana Selmu um árið. Við verðum bara að sjá hvernig það virkar, það má verða hreint býsna magnað sjóv ef það á að breyta áliti mínu á laginu: Þetta var afskaplega meinlaus og óinteressant poppfluga sem var flutt með minna en gneistandi persónutöfrum af snoppufríðri táningsstelpu sem leit ekki nema rétt svo út fyrir að geta loftað gítarnum sem hún bisaðist með í fanginu, hvað þá að hún liti út fyrir að geta spilað á hann. Var gítar í þessu lagi? Allavega, mér skilst að hann verði ekki á sviðinu í Istanbúl, svo rússneska númerið verður eflaust skárra en efni standa til. En sigur? Njeeehh...

Þá er röðin loksins komin að honum Jónsa okkar karlinum. Hann fær að bíða til morguns, ásamt með þeim sem eftir er að gera skil.

Og hvur veit - kannski á ég jafnvel eftir að tala vel um einhver laganna sem ég tek fyrir á morgun.
by Hr. Pez

07 maí 2004


Þá er það lokaskammturinn fyrir undanúrslitakvöldið. Nú er sko aldeilis farið að styttast í að þetta: Annað kvöld verður kontrapunktskynningin fyrir úrslitakvöldið, undanúrslitakvöldið verður komandi miðvikudag, og þremur dögum seinna rennur upp stóri dagurinn. Ég verð að halda vel á spöðunum með umfjöllunina. Við skulum segja að ég stefni á að sundurliða úrslitaliðin í tveimur til þremur skömmtum á sunnudag, mánudag og þriðjudag. Á miðvikudaginn verð ég náttúrulega að koma með einhverja úttekt og spekúlasjónir fyrir kvöldið. Og samantekt og yfirferð daginn eftir. Föstudagurinn fer svo náttúrulega í spádóma og vangaveltur fyrir kvöldið stóra á laugardeginum.

Nóg um það í bili.

Lagið frá Serbíu og Svartfjallalandi var afskaplega sérkennilegt, þótti mér. Þjóðlegt gaul yfir nútímabíti - að vísu margjöpluð tugga þetta árið, en gæti verið verra. Ég hef satt best að segja ekki minnstu glóru um það hvernig þessu lagi á eftir að vegna - ég óska Željko Joksimović og hljómsveit hans bara alls hins besta. Ég get ekki einu sinni gert upp við mig hvort mér finnst lagið gott eða ekki.

Þá meina ég að sjálfsögðu "gott" eins og maður notar orðið í samhengi við Evróvisjónsöngvakeppnina yfir höfuð.

Myndi maður nota það hið sama orð til að lýsa framlagi Bosníu og Hersegóvínu þetta árið? Varla. Nema í samhenginu "Góð stæling á Giorgio Moroder maður." Eða: "Góður þjófnaður á Hot Stuff stefinu maður." Eða í besta falli: "Góður klónn af Skildi maður." Þetta lag er diskónábítur. Svona er diskó á bragðið þegar þú ælir því upp aftur eftir heiftarlegt kast af diskóbúlemíu.

Og Holland. Púff. Ég held sveimérþá að viðlíka hörmung hafi ekki sést síðan Írland plagaði Evrópu með vanskapnaðinum "Rock'n'Roll Kids" um árið. Mín vegna má públíkúm mæta með rotna tamarillo- og papayaávexti til að grýta í strákana í Re-Union. Re-Union?!!! "The Boys Reunion" myndi hafa meiri sjarma og persónutöfra en þessi hryllingur.


Tjah, þá er það bara komið. Og ekki orð um þessa entransa meir (nema etv í kommentum) fyrr en á miðvikudaginn.
by Hr. Pez

06 maí 2004


Púff, þá er ég ögn betur útsofinn en upp á síðkastið - ég skreiddist örmagna upp í rúm þegar klukkan átti eftir fjórðung í níu í gærkveldi, og rumskaði ekki fyrr en dæturnar vöktu okkur hjónin óvenjuseint klukkan hálfsjö í morgun.

Svo reynum þá að skreiðast eitthvað áfram með þetta.

Ég met eistnesku stelpurnar mikils. Mér finnst þær meira en lítið heillandi. Spurning: Hvað er svalara heldur en uppdigtað tungumál sem enginn botnar neitt í gaulað af tileygðri horreim yfir tónlist sem silast áfram á jarðfræðilegum hraða? Svar: Alvöru tungumál sem er þó ekki talað nema af hálfri handfylli af hræðum píkuskrækt af sætum stelpum í þjóðbúningum yfir drynjandi evródiskótakti sem er sleginn af feitum strákpjakki með mannaskítsglott og andskotalegustu klippingu sem sést hefur ofan jarðar eftir Krist. Sennilega eru eistnesku stelpurnar í Neiokõsõ þær einu undir áttræðu sem botna í textanum, svo þeir sem hafa gaman af laginu hafa ekki hugmynd um hvað er sungið, og þeir sem hafa gaman af textanum hafa ekki hugmynd um hvunnlax honngrýtis hávaði þetta sé eiginlega. Ég er mjög hrifinn.

Sem er ekki það sama og ég get látið hafa eftir mér um Króatíska númerið. Þegar ég sá þetta lag laust mig sú skelfing að kannski sjá framandi þjóðir hann Jónsa "okkar" Jósep sömu augum og hinn króatíska Jónsa Mikjáls. Það væri alveg voðalegt. Því hann Jónsi Mikjáls er alveghreint afskaplega freðýsulegur performer. Og lagið óttalega óinteressant. Ef hann syngur það á ensku fær það mann kannski til að skella upp úr:
Once again just hold me
Let me feel you breathe
Softly kiss me on my face
Love is all I need...


Og svo var það Ísland, nei afsakið Danmörk, með lagið Æ og skammastu þín svo. Eitt sem þetta lag hefur með sér er tólf stiga forgjöf frá Íslandi í stigakeppninni, jafnvel þótt hann Tommi "okkar" Þórðar ætti eftir að detta onaf sviðinu og kasta upp lifur og lungum yfir fremstu sætaröðina. Þess fyrir utan má vel vera að þeim eigi eftir að ganga vel á undanúrslitakvöldinu Baununum. Ætli það fari bara ekki eftir dagsforminu...

Obbosí, það er víst að brenna einhversstaðar, svo ég þarf aðeins að bregða mér frá.
by Hr. Pez

05 maí 2004


Hrorr.
by Hr. Pez

04 maí 2004


Ég er svo drulluþreyttur og tuðrulegur í dag eitthvað að það er sjálfkrafið að þetta verði bara tveggja laga dagur. Hausinn á mér er fótbolti sem fór í stöngina og út.

Hvað var aftur næsst... Já það var Fyrrum Jógúslavíulýðveldið Masedónía. O þaðan kom... þoka... í... hausnum... Já hann Tose strákurinn. Í fína rauða latexgallanum sínum. Hann var ágætur, ég hafði gaman af honum. Hann var fyndinn. Og lagið?
Hverjum er ekki sama.

Slóvenía? Ég man nánast ekkert eftir slóveníu heldur. Jú alveg rétt, það var þarna hreint afspyrnuslæma Svíapopið. Eitthvert par að búggast á og geifla sig framan í públikúmið. Ég þoli ekki þessa rækallans búgglota alltafhreint. Það er sko ekki þetta hérna sem ég kalla kærlek. STÆÆÆÆ FORREVVAAAAAHHHH! Þarna fara tvö hjörtu sem mín vegna mega kremjast undir skýjakljúfunum.

zzzzzzzzzzzzzzzzzz

Púff affsakið. Slappur dagur í dag.
by Hr. Pez


Í kvöld klukkan níu verður upplestrarkvöld á Jóni Forseta. Þar mun undirritaður, meðal annarra, lesa frumsaminn vísindaskáldskapar/melódrama/heimspekistúdíubastarð sem kallast "Veröld Soffíu hrynur."
by Hr. Pez

03 maí 2004


Sennilega var ég orðinn svona miklu eldri á laugardagskvöldið var heldur en ég var viku áður, allavega fannst mér spekingar-spjalla uppsetningin bara alveghreint ágætlega lekker í öðrum þættinum og hafði ég af henni allnokkurt gaman. Ahhahhahhajá.

Nei sennilega var ég bara búinn að brynja mig betur fyrir þessu og forstilla mig inná sænskheitin við allt heila klabbið.

Mikið voðalega fannst mér litháenska framlagið linkulegt eitthvað. Rútínubundið Bömp og Grind sem vill vera Hömp og Girnd en er meira útí Slömp og Kind. Hálfkindarlegt alltsaman. Og á eflaust eftir að verka enn linkulegra en ella fyrir það að þurfa að fylla upp í sviðið á eftir villta dansinum hennar Rúslönu. Ef ég ætti hatt og staf væri freistandi að segjast myndu éta hváratveggju ef þetta lag kæmist áfram.

Svo var það Albanía. Æ æ æ æ æ æ æ. Maður talar ekki illa um framlag eins og þetta. Það væri eins og að sparka í liggjandi mann. Hún Ansésa virðist ósköp indæl stelpa og krakkarnir sem hún fékk með sér úr ungmennafélaginu Dalbúanum stóðu sig ágætlega. Vert er að geta þess að allt þar til nú nýverið var Albanía fimmtíu árum á eftir öðrum Evrópuþjóðum. Á þeim skalanum er þetta framúrskarandi árangur hjá þeim krökkunum: þetta lag hefði sómt sér, ef ekki vel, þá allavega tiltölulega skammlaust, í Evróvisjónsöngvakeppninni árið 1989.
Ekki? Jú víst. Muniði Rock Me?
Ef við lítum þannig á þetta þá er Albanía komin bróðurpartinn af leiðinni í átt til nútímans strax með sínum fyrsta entrans. Þrjátíu og fimm ár unnin upp og bara fimmtán eftir. Þið standið ykkur vel krakkar mínir, standið ykkur vel.

Hvað er þetta með þessa táningsstelpu frá Kýpur? Hún minnir mig á einhverja óþolandi vælukjóaskellibjöllu sem er vinsæl í ballöðugeiranum. Ég man ekki hverja.
JÚ! NÚ MAN ÉG ÞAÐ!
Hún minnir mig á stelpuna í Idol Stjörnuleit sem mætti í foratið og söng Bohemian Rhapsody (af öllum lögum) af miklu kappi (látum forsjána liggja milli hluta).
Það er ekki gott. Ekki gott. Því miður. Því þrátt fyrir að lagið sjálft væri alveghreint skelfilega Easy-Listening þá vakti það ekki hjá mér þessa venjulegu löngun sem ég fæ undir þess háttar hrati til þess að troða höndinni á mér í hakkavél.

Kannski er ég bara að verða gamall.

Þátturinn verður ekki lengri að sinni, verið þið sæl.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com