<$BlogRSDUrl$>

29 apríl 2004


Þá var það við Miðjarðarhafið í Mónakó að ein ung og íðilfögur snót raulaði hugljúfa ballöðu með diskótakti. Það er liggur við allt og sumt sem ég man um það - mér líkaði vel við lagið án þess að það væri mér eftirminnilegt og mér þótti gefa auga leið af hverju Greifinn af Monte Carlo hefði valið hana Mæju litlu létta á fæti öðrum fremur. Forza, segi ég nú bara. Þar til annað kemur í ljós, eða þar til löggurnar í Mónakó vilja fá að sjá oní plastpokann sem ég held á...

Og þá tróð upp hann Sakís Røvas, gríski Ricky-Martin-vonnabíinn sem hvatti til óheftra rassaskakninga og gekk á undan með góðu fordæmi (eða afturdæmi, eftir því hvernig á það er litið) með tveimur léttklæddum og munúðarfullum drósum. Og kynhormónin ólguðu svo svakalega að ég fann svitalyktina undan órökuðum handarkrikunum á honum í gegnum sjónvarpið. (Gott ef bakraddasöngkonan var honum ekki vopnasystir í natúralismanum, þótt ég sé ekki alveg eins viss með það.) Ég vænti mikils af þessu framlagi, eða með orðum Mikjáls Dungals í hlutverki Eðlustráksins í myndinni um Skjaldborgarstræti: "Gredda er góð!"

Og talandi um greddu. Er til sú arma sál á jarðríki sem kemst ekki við af því að sjá hina úkraínsku Rúslönu skekja sig með sínum föngulega flokki í Villtum Dansi? Púff, réttið mér vasaklútinn. Það þurfa einhverjar stórkostlegar náttúruvanfarir að koma til svo Úkraínumenn geri eitthvað minna en mjög stóra hluti í ár. Og ekki spillir fyrir að lagið er líka bara alveghreint ágætt. Vonandi að náttúrusjarminn skili sér á sviðinu í Istanbúl fyrir rest þótt dansherinn verði takmarkaður við fimm manns.

Ég tek þennan fyrsta vikuskammt kannski saman í heildina einhvern tíma fyrir laugardagskvöldið, en svo heldur skrúðgangan baaara áfram.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com