<$BlogRSDUrl$>

27 apríl 2004


Svo var það blessaður Lettinn. Þar er sko atriði sem er svo rosalega í gær að Steinka Bjarna yrði stolt af því að skella sér á það með Lilla, eða Billa, eða hvað sem hann nú hét blessaður. Og heitasta óskin er sú að mér takist að sniðganga þetta helvíti það sem eftir er keppni í ár: Það er eins og Lettarnir ætli sér að feta í fótspor Finna evróvisjónsögunnar eftir velgengina fyrir tveimur árum (eða var það þremur? ég man aldrei hvort sigurlagið var eistneskt og hvort lettneskt). Fyrst var það andlausa og mislukkaða tíníbopptríóið í fyrra, og nú skal Ojrópa sigruð með rámu og raddlausu, hreðjakremjandi snjóþvegnu gallabuxnarokki með sítt að aftan og bilaðan vólúmpetal og magnara sem slefar upp í fjóra og hálfan.
Ekki misskilja mig: Það er ekkert leyndarmál að mér finnst sem Evróvisjón yrði snöggtum skemmtilegri keppni með Meira Rokki!(tm) En það þyrfti að smyrja ansi þykku lagi af Q10 á sjónvarpsskjáinn til að fela hrukkurnar á þessum steingeldu og tinnitussködduðu ellibelgjum svo þetta framlag næði að teljast til bóta.

Og talandi um geldinga, þá er einmitt skemmtileg tilviljun að næst á dagskrá er framlag Ísraelsmanna.
Hérna... ótrúlegt en satt, þá hef ég ekki minnsta snefil af löngun til að tala illa um þetta lag. Mér fannst hann Dabbi gullkálfur bara hreint ágætlega svalur, á þann yndislega hallærislega máta sem er eingöngu hægt að vera í Evróvisjón svo vel sé. Kontratenórar eru náttúrulega alltaf fáránlegir á að hlýða, en hei, hver segir að Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva sé háborg heilbrigðrar smekkvísi og rökhyggju? Þetta lag nýtur minnar velþóknunar (sagði hann upp í opið geðið á sjálfum sér).

Svo komu nýliðarnir frá skíða- og grafarbakkaparadísinni Andorru og virðast hafa náð að skrapa saman í heila hljómsveit af fólki undir fertugu. Lagið er mér ekki minnisstætt, en hún Marta blessunin er snoppufríð stelpa og hin myndarlegasta stafnkvíga. Og katalónskan er hið skemmtilegasta hrognamál á að hlýða og sjálfsagt að leyfa krökkunum að njóta forgjafar fyrir að syngja á frummálinu. Ég verð samt sennilega að hlusta á lagið aftur einhvern tíma seinna (og þá jafnvel án þess að hafa stelpuna fyrir augunum á meðan) til að mynda mér skoðun á því. Ef ég hefði verið í spekingahörmunginni á laugardagskvöldið var hefði ég eflaust gefið þessu lagi gula geisptakkann.

Á morgun velti ég mér upp úr hrakförum Portúgals og Möltu þetta árið, og fleygi jafnvel Mónakó með ofaní kaupið ef ég verð þannig stemmdur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com