<$BlogRSDUrl$>

27 febrúar 2004


Fyrst ég asnaðist til að minnast á það fyrir viku þá verð ég víst að skella inn öðru föstudagsleikriti í dag. En ég vara þó við: það er ekki eins fyndið og það sem birtist fyrir tveimur vikum, enda innblásið af sannri sögu sem gerðist í raunveruleikanum.

Við erum stödd í eldhúsi venjulegrar vísitölufjölskyldu í Reykjavík. Innkaup eru greinilega nýafstaðin, enda plastpokar sem að hluta til á eftir að taka upp úr á eldhúsbekknum. Þegar tjaldið lyftist er fjölskyldan í miðjum kvöldverði. Dóttirin á heimilinu situr í barnastólnum og syngur lagið um Línu Langsokk viðþolslaust allan tímann. Aftur. Og aftur. Og aftur.
Faðir (við Móður): Ertu búinn með jógúrtina þína?
Móðir: Já settu þetta í vaskinn fyrir mig takk.
F: Ætlarðu ekki að verka dolluna betur?
M: Nei, til hvers í ósköpunum?
F: Bara, maður á að klára matinn sinn.
M: En ég er búin með hana!
F (sýnir M ofan í jógúrtdolluna sína): Jæja? Sjáðu þessa hérna. Svona á þetta að vera.
M: Hvað er eiginlega að þér? Sleikirðu upp úr dollunni þinni? Það er ekki dropi eftir í henni.
F: Neinei. En ég er bara alinn upp í því að skilja ekkert eftir á diskinum. Þegar foreldrar mínir voru litlir voru þeir aldir upp af fólki sem hafði mátt þola kreppuna. Í þá daga hafði fólk bara ekki efni á að sólunda matnum. Það varð að nýta alltsaman. Allt varð að éta. Ekkert mátti fara til spillis. Ekki arða segi ég!
M (með uppgjöf): Þú segir það já.
F: Ójá, ég segi það sko litl. (tekur vikugamlan og enn hálffullan brauðpoka af eldhúsbekknum og opnar ruslafötuna) Á ekki að henda þessu?
M: (vandræðaleg þögn)

TJALDIÐ
by Hr. Pez

26 febrúar 2004


BÓKABLOGG!!!

Við Una skruppum í bæinn um hádegisbilið - ég fékk nýtt debetkort frá bankanum mínum. Svo vafraði ég inn á bókaútsölur - það má gera góð kaup á útlenskum reyfurum þessa dagana. Ég sá þrjár bækur eftir Philip K. Dick í Eymundsson Austurstræti og sömuleiðis þrjár eftir J.G. Ballard í Máli og Menningu. Ég náði þó að hemja mig og tók ekki nema eina af hvoru (The Three Stigmata of Palmer Eldritch (848 ISK) og The Terminal Beach (721 ISK)).

Annars hef ég verið hörmulega latur að rapportera það sem ég hef lesið síðustu mánuðina. Og má vel vera að öllum sé sama. En þar á meðal er eftirtalið, í engri sérstakri röð:

Heimavöllurinn:
Hótelsumar eftir Gyrði Elíasson
Öxin og jörðin eftir Ólaf Gunnarsson
Bettý eftir Arnald Indriðason
Náðarkraftur eftir Guðmund Andra Thorsson

Útlenda deildin:
Alice's Adventures in Wonderland og Through the Looking-Glass eftir Lewis Carrolll
Automated Alice eftir Jeff Noon
Ghost World eftir Daniel Clowes
Here in the World eftir Victoria Lancelotta
The Slippery Slope eftir Lemony Snicket

Ég er svo litl pottþétt að gleyma einhverju. Allavega.

Svo ætla ég að enda á síðustu viðbótinni í keðjugengið í bili, en það er, að ég held, víðlesnasta blogg heyrnarlausrar fréttakonu á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
by Hr. Pez

25 febrúar 2004


Upp er runninn ökudagur. Ég klikkaði á saltkjötinu og baununum í gær, sem er held ég alveg örugglega fyrsta skiptið sem það gerist á sprengidag síðan ég var eins árs.

Ojæja, ég fékk téða mötu einhvern tíma um daginn í vinnunni. Það verður að duga í ár.

Annars ber það helst til tíðinda að fyrst Eyjólfur er kominn á lappir skellti ég henni Ernu Erlings í keðjugengið.
by Hr. Pez

24 febrúar 2004


Og enn lengi ég í keðjugenginu.

Ein ynndælis Ljúfa og nafna frúrinnar bloggar úr Hafnarfirðinum um sokkaplögg og annað daglegt amstur. Hún er ágæt, og kom mér á óvart þegar hún var nærri búin að hnupla vinningnum í fyrstu (það vill segja, fyrri) rokkgetraun pezúsins. Óttaðist ég um stund að sigurlaunin fyrir að geta upp á Iggy Pop myndu lenda hjá vandalausum, enda áttaði ég mig ekki á því fyrr en nú um daginn hver stúlkan væri í raunheimum.

Og enn mun lengjast út eftir vikunni.
by Hr. Pez

23 febrúar 2004


Hamingjuóskir dagsins eru til Dúdda frænda (sem er ekki frændi minn) og Ágústu spúsu hans. Þeim fæddist einhvern tíma í nótt sem leið eitthvað, sem vó einhverjar merkur og var eitthvað á lengd. Fregnir af atburðum á vettvangi eru mjög óljósar á þessu stigi málsins, en þó hefur fengist staðfest að mannfall var ekkert, heldur þvert á móti. Og gleðjumst yfir því.

### STOP PRESS ###
Nýjustu fregnir herma reyndar að litla manneskjan sé kvenkyns.

Annars erum við Una á leið útí bakarí til að kaupa eitthvað oní mig í tilefni dagsins.
by Hr. Pez

20 febrúar 2004


Ég var að hugsa um að skella inn öðru föstudagsleikriti. En það verður víst að bíða í viku úr þessu: dagurinn gufaði upp í stuði við að þrífa klósettið og vökva blómin og skeina barnsrass og velta sængunum okkar upp úr sandkassanum uppi á leikvelli.

Hvað annað get ég sagt?

Klukkurnar! Klukkurnar!
by Hr. Pez

19 febrúar 2004


Annars gleðst ég nú óskaplega þessa dagana yfir því að auglýsingastofan sem Atlantsskip (eða voru það Samskip) réðu sér er greinilega af Doktor Schnitzel-skólanum í auglýsingagerð:

"Atlantsskip - flytjum vörur!"

Meira svona strákar.
by Hr. Pez


Ég var að átta mig á því að fyrir utan kóræfinguna á þriðjudagskvöldið hef ég ekki farið lengra frá húsi en út að ruslatunnu síðan á sunnudagskvöldið. Ég hef verið á leið niður í bæ og jafnvel í heimsókn í vinnuna það sem af er vikunni en veðrið er bara búið að vera svo leiðinlegt fyrir mann sem þarf að þvælast um í strætó með barnakerru.

Nú bara verð ég að fara í bæinn á morgun, hvað sem tautar og raular. Konudagur um helgina og svona.

Það er sko hinn íslenski valentínus.
by Hr. Pez

17 febrúar 2004


Ég sá dáldið flott í Fréttablaðinu í morgun í grein um tippalengingar.

Orð dagsins er þvagskurðfæralæknir.

Ég get því miður ekki nefnt dæmi um notkun (aðra en þá í téðum snepli), enda hef ég ekki glóru um það hvað þetta orð ætti að þýða.

Einhverjar hugmyndir?
by Hr. Pez

16 febrúar 2004


Jæja, senn líður að lokum fyrsta dags í sumarfríi. Við Una áttum tíðindalítinn dag hér heima, fyrir utan að mér tókst næstum því að kveikja í húsinu við þá gríðarflóknu aðgerð sem það er að elda kartöflur.

Fáránleg bjartsýni í manni að þykjast ætla að reyna að gera tvennt í einu.
by Hr. Pez

13 febrúar 2004


Ég samdi um daginn síðbúið jólaleikrit í föstudagsfíling. Njótið vel:

Maður: Heyrðu elskan, við verðum að fara með strákinn til læknis eins og skot.
Kona: Nú, hvað kom fyrir?
M: Æ hann stakk sig víst á notaðri sprautunál.
K: Nú?! Hvar komst hann í svoleiðis?
M: Nú bara hérna inni á stofugólfi; hún var undir jólatrénu.
K: Æ bévað vesen. Mér datt í hug að svona myndi fara þegar við keyptum þetta asskollans jólatré.
M: Já, það er verst með þetta eiturlyfjagreni hvað því helst illa á nálunum.
K: Jamm. Við skulum muna það næst að halda okkur bara við furuna.

TJALDIÐ
by Hr. Pez

12 febrúar 2004


Frúin klárar fæðingarorlofið sitt og fer aftur í vinnuna núna eftir helgi. Svo á mánudaginn fer ég aftur í sumarfrí og áframhaldandi feðraorlof þangað til hún Una litla kemst að hjá dagmömmu. Það verður einhvern tíma í mars.

En þessi vinnuvika er mér af þeim sökum mjög annasöm.

Mjög. Annasöm.
by Hr. Pez

11 febrúar 2004


Ansans vandræði eru þetta.
Frúin var að kaupa sér nýja diskinn með Nóru Jóns.
Sem er sosum alveghreint ljómandi, fyrir utan það að nú verð ég að finna mér einhverja aðra konudagsgjöf...
by Hr. Pez

10 febrúar 2004


Ég sé mig knúinn til að bæta Eyðimörkinni í keðjugengið. Á lygilega stuttum tíma hefur hann farið langt með að fylla upp í það tómarúm í lífi mínu sem ekki ómerkari maður en Bloggari dauðans lét eftir sig þegar hann skildi við á tölvuöld.

Tékkið á kauða.
by Hr. Pez

09 febrúar 2004


Í tilefni þess að það stefnir í enn eitt meikóverið hjá Bondaranum á næstunni vil ég fleygja mínum túkarli í púkkið.

Eyðimerkurbloggarinn tekur mál dagsins fyrir og ég fyrir mitt leyti tek undir með marga þeirra kandídata sem hann tínir til. Þó á ég mjög erfitt með að sjá Hugh Jackman fyrir mér í rullunni. Ég veit ekki alveg af hverju, það gæti verið þjóðernið, þrátt fyrir að einn af betri Bondum sögunnar hafi einmitt verið ástralskur, rétt eins og hann.

Ef ég réði einhverju um næsta Bond yrði fyrir valinu náungi sem enginn hefur heyrt um áður, náungi að nafni Jack Davenport. Í seinni tíð er hann hvað helst (ó)þekktur sem gamanleikari (fyrir hlutverk sitt í hinum yfirmáta fyndnu bresku gamanþáttum Coupling, sem ég hef lýst yfir ánægju minni með áður), en fyrir nokkrum árum lék hann aðalhlutverkið í ansi hreint víraðri seríu (sem mig minnir að hafi heitið Ultraviolet) um sérdeild innan Yardsins sem sá um að veiða vampírur í undirheimum Lundúnaborgar.

Þar lék hann einmitt leyniþjónustumann á vegum hennar hátignar.
Og var aldeilis svalur sem mök.
by Hr. Pez

06 febrúar 2004


Þetta er nú meiri endemis bölvuð þvælan.

Já, hver sem eyru hefur hann heyri að morð og ofbeldi hafa ekkert að gera í bera rassa og brjóst (sérstaklega á áttræðum skurðaðgerðasjúklingum) þegar kemur að niðurdrepandi áhrifum fjölmiðla á bandaríska þjóðarsál og siðgæðisvitund.

Ég hef óskað mér þess áður og óska mér enn að það þýddi eitthvað að segja snapp át of itt for kræng át lád.

Og allir saman nú: "Guns don't kill people! Nudity kills people!"

Það eru reyndar skilaboð sem mér þætti gaman að sjá á barmmerki eða bömmperstikkeri.
by Hr. Pez

05 febrúar 2004


Ég held ég hafi gleymt að geta þess um daginn þegar Hannesar- og Halldórsmál gengu sem hæst að nokkru áður hafði ég rekist á ágætt nýyrði hjá vopnabróður mínum í hreintungufasismanum.

Orð dagsins er ókiljanlegur.

Nei, ekki óskiljanlegur, heldur ókiljanlegur.

Eins og í: "Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerði ýmsar breytingar á texta Halldórs Laxness svo hann yrði ókiljanlegri aflestrar."

Ég held reyndar að upphaflega hafi verið um misritun að ræða hjá kauða. En orðið er gott engu að síður og skýrir sig sjálft.
by Hr. Pez

04 febrúar 2004


Ég ætla ekki að lofa því að vera með reglulega detaljeraða analýsu á alstirnabálki Þraukarans, þrátt fyrir fjölda áskorana. Þó horfði ég í fyrrakvöld, hafði gaman af og mun halda því áfram. Mér sýnist sem Robbi Maríanó muni verða í svipuðu uppáhaldi hjá mér í þessari seríu og hann var á Marquesas (það vill segja allnokkru, þrátt fyrir vælutóninn). Og Richard Hatch er náttúrulega hreint afskaplega myndarlegur maður og falleg sál.

Eflaust mun ég minnast meira á þessa vitleysu einhverntíma seinna, þegar það dettur í mig. En þeir sem vilja alls ekki missa af reglulegum kommentaríötum á bálkinn á tölvuöld geta gert það sama og ég ætla að gera: fylgst með úttektum Gambrans, Launmorðingjans og eins ágæts Módels þar að lútandi.

Góðar stundir.
by Hr. Pez

03 febrúar 2004


Hvað gengur honum dabba til?
Hver er tilgangurinn með plottinu?

Mér dettur tvennt í hug.

Annað hvort var tilgangurinn sá einn að dissa forseta lýðveldisins, eða að vekja athygli á því hvað hann var raunverulega að gera í banderíkjunum.

En fer fólk ekki að fá leið á þessum eilífu fléttum frá dabba dramadrottningu? Ef hann endilega vill afhjúpa fyrir íslensku þjóðinni hvað Óli grís var að gera í banderíku þá myndi ég frekar kjósa að hann opinberaði það bara hreint út. Nema það væri kannski svo strategískt óráðlegt, eða eitthvað. Hann hefði allavega getað látið duga að fá einhvern af taglhnýtingunum sínum til að leka því í Mogggagnið.

Reyndar myndi ég enn frekar kjósa að hann dabbi karlinn héldi sig bara við það að vinna vinnuna sína. Og helst af öllu að hann færi bara að gera eitthvað annað.
by Hr. Pez


Það var rosabaugur um tunglið í gærkvöldi.
Gullfallegur.
En þeir sem aðhyllast hjátrú og hindurvitni myndu segja að hann væri fyrir illum tíðindum.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com