<$BlogRSDUrl$>

23 desember 2003


Í kvöld bjóðum við tengdaslektinu í mat eins og það leggur sig: fjórtán manns í þessari litlu stofu sem við höfum til umráða. Það verður gaman. Þetta er orðið árviss viðburður, alveghreint frá því í fyrra.

Nei, það verður engin skata, enda fékk ég hana í hádegismat í vinnunni. Þess í stað verður boðið upp á saltfisk, gellur og kinnar.

Í spjalli um hina ýmsustu jólasiði við tengdapabba tiltölulega stuttu eftir að ég hafði krækt mér í dóttur hans sagði ég honum sem var að vitaskuld væri skata í matinn á Þorláksmessu á mínu æskuheimili, enda fjölskyldufaðirinn af Barðaströndinni. Jólin væru þá fyrst á leiðinni þegar lyktin af steiktum rjúpum ræki út restina af skötufnyknum frá deginum áður.

"Við erum nú vön að borða mat á Þollák," svaraði tengdapabbi þá og dæsti.
by Hr. Pez


Jæja.
Nú geta jólin komið.
Minn búinn að fá skötu í vömbina.
by Hr. Pez

22 desember 2003


Það var sjálfur TampaTorfinn sem negldi jólagetraunina. Þar fór lagið Fjölskyldulíf af plötunni Loksins er friður, með hinni stórlega vanmetnu gáfumannapoppsveit Níl enni Bláu. Þar sem lagið sem um ræðir er eitthvert það fegursta sem ég veit nokkru sinni hafa verið samið finnst mér tilvalið að skella hér upp textanum eins og hann leggur sig:


Starlight do you know me
Please don't look at me now
I'm falling apart
Silver on the window
Like the bike I once had
At home in the yard

Jesus love
Let me down and I know where you are
It might lead
To somewhere

Gather me in snowfall
And the cars going by
The north and the south
Flowers on the table
And the coffee gets cold
Like the milk in my mouth

Sailing on no honeymoon
Just separate chairs in separate rooms

Jesus, please
Make us happy sometimes
No more shout
No more fight
Family life

Tomorrow will be Christmas
We'll be singing old songs
And light up the tree
God and all the mercy
And say all your prayers
For little old me

Jesus, you
Wipe the tears from her face
And the sound of his voice

Family life
It's a mystery

Jesus, I go to sleep and I pray
For my kids
For my wife
Family life


Líkur benda til að ég færi eitthvað meira hér inn bæði seinna í dag og á morgun. Samt er það í þessum pósti hér sem ég vil óska þeim sem þetta lesa gleðilegra jóla. Ekki gleyma að jólin eru tíminn til að láta í ljósi ást sína á þeim sem manni þykir vænt um ("þegar þú ert einn ertu autt hús").

Til að halda jólin hátíðleg finnst mér hvorki þurfa að trúa á Guð né Jólasveinana.

Svo lengi sem maður trúir á manneskjuna.
by Hr. Pez

20 desember 2003


Það er eitt framar öðru sem ég hef að segja um gærkveldið. Með orðum skáldsins:
"Réttlætið það sigraði að lokum."
by Hr. Pez

19 desember 2003


Og aldurinn færist yfir.

Ég uppgötvaði fyrr í dag að það eru stór tímamót í ævi hvers karlmanns þegar hann er spurður í fyrsta skiptið af rakaranum sínum hvort hann vilji ekki láta klippa á sér augabrýnnar.

Ó, æska...

Svo má auk þess geta að lagið sem spurt er úr er ekki jólalag, þótt vel megi vera að svo líti út fyrir í fyrstu.
by Hr. Pez


Ja nú eru jólin aldeilis farin að nálgast maður. Við kláruðum að skrifa á jólakortin í gær. Alltaf skal maður býsnast jafn mikið yfir fjöldanum á hverju ári. Og furða sig á því þegar upp er staðið hvað þetta var nú lítið mál og tók fljótt af.

En sumsé, jólin. Ég er að hugsa um að skella upp smá jólagetraun úr tónlistargeiranum. Kannski verður þetta vísbendingaspurning, kannski ekki. Hún verður það allavega ef hún teygist yfir einhverja daga eins og síðast. En spurningin er einfaldlega, hver syngur:

Tomorrow will be Christmas
We'll be singing old songs
And light up the tree
God and all the mercy
And say all your prayers
For little old me

Jesus, you
Wipe the tears from her face
And the sound of his voice
by Hr. Pez

17 desember 2003


Það er orðið nógu langt síðan síðast:What Famous Leader Are You?
by Hr. Pez

16 desember 2003


Það kom upp skemmtilegur misskilningur yfir morgunkaffinu hér í vinnunni í morgun:
"Jess, Nóatún, itt iss inn ðö djei-ell-hás..."
"Oh, so you mean there was once a prison there?"

Jújú, mig hefur einmitt langað árum saman núna að sjá aftur meistaraverk Elvisar: Rokkað í JL-húsinu.

Svo vil ég vekja athygli á þeirri einkennilega viðeigandi tilviljun að formaður nefndarinnar sem á að útrýma trúartáknum úr klæðaburði barna í frönskum skólum skuli heita Stasi að eftirnafni.
by Hr. Pez

15 desember 2003


Geliggaliggaliggebá!

Nú rétt áðan fékk ég afhent skjal til viðurkenningar því að ég sé tuttugu og fimm sinnum búinn að gefa blóð mitt í þágu þurfahemlinga. En hvað ég er upp með mér. Mér hefur ekki liðið svona síðan ég náði þeim merka áfanga að lesa 200 atkvæði á mínútu.

Í útvarpinu í bílnum á leiðinni í blóðbankann var verið að spila Just Like Honey með Ésúm og Maríukeðjunni. Það var eitt af þessum roðagylltu andartökum að hlusta á það lag vitandi að innan skamms lægi maður útaf með sprautunál í olnbogabótinni. Ég hugleiddi að spyrja hvort ég gæti fengið dregið úr hálsinum á mér, ja eða náranum, en sat á strák mínum.

Sörrvævvoor í kvöld: Það má eitthvað mikið út af bregða ef Nonni Gæðablóð á ekki að valhoppa frá þessu með hundrað þúsund dali. Sennilega lendir milljónin annað hvort hjá Dörru eða Söndru (sem ég fyrir lifandis löngu lýsti yfir að ég vildi sjá standa uppi með milljón dala pálmann í höndunum). En maður veit aldrei.

Spennandi maður.
by Hr. Pez

14 desember 2003


Æ nú virðist sem seinna líf BD sé á enda runnið. Eins og ég var nú farinn að hafa gaman að því.

Vertu sæll Steini. Hver sem þú varst. Ég á eftir að sakna þín.

Annars gengu tónleikarnir í gær alveg hreint frábærlega, takk fyrir að spyrja. Svo fórum við út að borða á Victor á eftir. Á leiðinni heim greip ég með mér nýjustu kilju Terry Pratchett úr Eymundsson í Austurstræti. Þar lenti ég á stuttu spjalli við Betu Rokk, og held ég að hvárirtveggu hlutaðeigandi aðiljar hafi haft af því allnokkurt gaman.

Er heim var komið komu Gneistinn og Eygló í heimsókn, horfðu með okkur á PPPP og sátu síðan undir mér að ausa yfir þau svívirðingum og svínslegheitum. Æ þau báðu nú um það, blessuð greyin, að leita til starfandi tölfræðings að læra um fylgnistuðla og jöfnu bestu línu. Ég vona bara að öfuga sálfræðin hafi farið rétt ofan í þau, en ekki öfugt.

Svo fórum við Hrefna að sjá Ævintýrið um Augastein með Felixi Bergssyni í Tjarnarbíóinu í dag, og lýk ég með því neimdroppbloggfærslu dauðans.
by Hr. Pez

12 desember 2003


Hei, ég var næstum búinn að gleyma að plögga!

Kórinn minn syngur sína sívinsælu jólasöngva í Neskirkju við Hagatorg á morgun laugardaginn þrettánda desember klukkan fimm síðdegis. Hákon Leifsson stjórnar, Jörg Sondermann þenur dragspil og lírukassa. Eða allavega pípuorgel. Kostar bara þúsundkall fyrir klukkutíma slökun frá jólastressinu.

Stelpan var í sjöunda himni með bókina sem hún fékk í skóinn í morgun. Hún var þó pínu fúl yfir því að Stekkjastaur skyldi ekki hafa vakið sig, fyrst hann droppaði nú við á annað borð.

Í kvöld skal horft á Sörrvævvoor. Ef að minn maður, hann Nonni Gæðablóð (liiitl), kemst í gegnum kvöldið í kvöld má heita gulltryggt að hann labbar frá þessu með hundrað þúsund dollara. Hvorki meira né minna.

Á meðan tökum við upp fyrri helminginn af Íslensku Íðilkeppninni til að horfa á í kosningahléi. Við komum aldrei í verk að horfa á upptökuna á keppninni fyrir viku síðan, sáum aldrei nema klippurnar í atkvæðagreiðsluhlutanum. Það var synd að sjá Jóhönnu Völu detta út strax, en ég get ekki sagt að það hafi komið mér á óvart. Hins vegar sýtti ég að sjá á eftir Sessý. Skrýtið hvað ég er alltaf á öndverðum meiði við alla aðra með strákinn hann Helga. Mér fannst þessi örstutta klippa sem ég sá af honum hreint ekki svo afleit, en Heilaga Þrenningin kepptist við að rakka hann niður. Þess má geta að enn þann dag í dag hríslast um mig nístingskaldur hrollur í hvert skipti sem skýtur upp í huga mér frámunalega hörmulegum flutningi hans á Wonderful Tonight fyrir... hva, þremur vikum?

("Sí búdds onnör meigöbb..." - *hryllir sig*)

Hvað um það. Mig grunar að Helgi, Tinna Marína og Anna Katrín eigi sér öll svo trausta bakhjarla í GSM-Frelsislandi að þau gætu þess vegna sungið diskóið sitt í kvöld eins og Óttarr Proppé á helíumtrippi og dansað með eins og Doktor Gunni undir restina á kippu af Egils Sterkum, án þess að bera af því varanlegan skaða. Svo það verður líkastil eitthvert hinna sem tekur skjattann sinn í lok kvöldsins.

PS Respekt til Skottunnar.
by Hr. Pez

11 desember 2003


Annríkir da... neinei, láttu ekki svona.

Loksins er törnin búin og hægt að pústa dálítið. Enda ekki seinna vænna, jólin rétt handan við hornið og fyrsti jólasveinninn (ærhneigður skakklappi) kemur til byggða í nótt. Íslensku jólasveinarnir gerast sífellt meira réttþenkjandi með hverju árinu sem líður og nú er svo komið að þeir eru nánast hættir að færa börnunum sælgæti í skóinn eins og í mínu ungdæmi, heldur virðast þeir mestan part hafa snúið sér að uppeldisfræðilega viðurkenndum barnagullum: legókubbum, leikfangabyssum, anatómískt réttvöxnum brúðum og öðru þess lags Drottni þóknanlegu dinglumdangli.

Ég ræddi þessi mál fjálglega við dóttur mína til þriggja ára kvöld eitt í síðustu viku, enda fær hún nú senn í fyrsta sinn að upplifa það merka ritúal að gægjast ofaní skóinn sinn að morgni dags. Þetta er vitaskuld siður sem fólk í öðrum löndum stundar sér til eftirvæntingar árið um kring, og væri eflaust guðslifandi fegið að sjá hráa kartöflu rúlla út úr stígvélinu sínu. Þar fá börnin væntanlega sporðdreka og bófaslöngur í skóinn ef að þau eru ekki þæg og prúð.

Hvað um það, ég spurði stelpuna hvað hana langaði nú að fá í skóinn. Og hún svaraði af einurð og yfirvegun:
"Kartöflu."
"Neeeh, ertu nú alveg viss um það," spurði ég hana vantrúa.
"Jamm. Ég vil fá kartöflu í skóinn."
Jah, hvað skal gera. Kartöflur eru jú reyndar með því betra sem stelpuskjátan fær, og þá ekkert sykurbrasað kjaftæði, bara soðnar og brytjaðar, kannski með smáklípu af smjöri. En ekki dugði að gefast upp, svo ég spurði hana nú hvort það væri ekki eitthvað annað sem hún gæti hugsað sér í skóinn líka.
"Kjöt," kom svarið, og féll mér þá allur ketill í eld, enda þarf að pína téðan fæðuflokk ofaní hana á matmálstímum. Með uppgjöf í rómi og hjarta spurði ég að síðustu hvort hana langaði ekki til að fá nammi í skóinn.
"Nehei!" svaraði hún og gretti sig framaní mig eins og þetta væri nú það vitlausasta sem hún hefði heyrt lengi.

Móðir hennar tjáði mér að nú fyrr í vikunni hefðu þær mæðgur átt svipað spjall, nema frúin lét ekki staðar numið þegar stelpan var búin að telja upp kartöflur og kjöt, heldur hélt áfram að spyrja hvort það væri nú ekki eitthvað annað sem hana langaði í. Og jú, stelpan játti því að það gæti kannski verið gaman að fá hakk og spaghettí í skóinn. Þá spurði móðirin dóttur sína hreint út hvort hana langaði ekki að fá dót. "Nei," var viðkvæðið. "Þá meiði ég mig bara í fótnum."

Það verður forvitnilegt að sjá hvort hún verði nokkuð vonsvikin í fyrramálið.
by Hr. Pez

10 desember 2003


Annríkir dagar.
(hahaha...)
by Hr. Pez

09 desember 2003


Annríkir dagar.
by Hr. Pez

05 desember 2003


Jahhá. Pálmi Gunnarsson er greinilega ókrýndur jólalagakonungur yfir Íslandi.
by Hr. Pez

04 desember 2003


Mér er sagt að ég hafi verið í sjónvarpinu í fyrrakvöld. Vonandi hefur það verið settlegra en skotið þar sem mér brá fyrir á Iceland Airwaves um daginn.
by Hr. Pez


Hún gerði það aftur.

Einmitt þegar við vorum búin að slá föstu að nóttin væri öll úti og héðan af sæjum við hana aldrei framar, þá stóð hún mjálmandi og krafsandi á varinhellunni. Þetta var um tíuleytið í gærkveldi. Hún bar þess merki að hafa lent í einhverjum skrautlegum ævintýrum síðustu fjóra sólarhringana; önnur afturlöppin var stokkbólgin, svo frúin fór með hana á dýraspítalann í morgun. Það reyndist bit; hún hefur þurft að slást eitthvað, blessuð veimiltítan.

Kannski lenti hún í Kidda í Vínli.
by Hr. Pez

03 desember 2003


Hver hefði trúað því!
Hnéð á mér varð fyrir hnjaski!
Í borðtennis!

Ég þjáist af íþróttameiðslum!!!
by Hr. Pez


Nú er ég orðinn býsna hræddur um að hún Madditt blessunin hafi lent í Baggalúts-jólasveini dagsins, honum Kattarvala. Það hefur ekkert til hennar spurst síðan á laugardagskvöld.
by Hr. Pez

02 desember 2003


Ég verð að hafa þetta stutt í dag. Þá er kjörið dæmi til að skella fram ROKKLAGI MÁNAÐARIIINS!!!

Þetta ágæta innlegg í jólatilhlökkunina er í boði rokk.is og hamingjupönksveitarinnar Ælu.


by Hr. Pez

01 desember 2003


Gleðilega hátíð.

Fyrst kominn er desember er ekki seinna vænna en að tína til sitthvað sem ég gæti hugsað mér að fá í jólagjöf. Bara svona fyrir sjálfan mig, enda held ég að það fólk sem hvað helst gæti þótt þetta forvitnilegt hafi aldrei nokkru sinni rekið hér inn nefið.

Úr DVD-deildinni má sérstaklega minnast á óhemjulöngu viðhafnarútgáfuna af Tveggja turna tali, en þétt þar á hælana kemur Limbó/Radíus/Tvíhöfða-diskurinn. Svo væri nú líka gaman að eiga Coupling á DVD (það vill segja, BBC-seríurnar). Og vitaskuld er til heil dobía af myndum í viðbót sem væri gaman að eiga.

Tónlist? Ég veeeeit það ekki. Ég hlusta ekki eins mikið á tónlist og ég gerði einu sinni. Absolution með Muse væri kannski gaman að eiga (og reyndar líka Origins of symmetry, ef út í það er farið). En ég held að þetta verði ekki tónlistarjól hjá undirrituðum, frekar en fyrri daginn.

Vitaskuld hef ég alltaf gaman af bókum (sem leiðir hugann að því hvað það er orðið fáránlega langt síðan ég var með bókablogg síðast (hvað þá biblíublogg)). Garðurinn í ár er kannski ekki alveg eins auðugur um að gresja eins og hann var í fyrra, en þó er sitthvað spennandi. Ég hef alltaf verið svag fyrir Einari Kára. Svo er það auðvitað Addi Indriða. Jafnvel Gummi Steingríms. Eðaaaaa... Vigga Gríms? Nei biddu fyrir þér, frekar léti ég hana leggja á mig bölvun.

Hvað annað? Kannski eitthvað úr tækjageiranum? Jaaaá, það er ekki úr vegi. Ég væri jafnvel til í að taka síðasta skrefið inn í tuttugustu og fyrstu öldina og fara að ganga með GSM-síma. Annars er ég algjört sygildi fyrir öllu sem lýtur að herratísku og merkikertisheitum. Bindi, bindisnælur, bindisprjónar, ermahnappar, nefháraklippur (nei reyndar ekki)... Og náttúrulega þriðju kynslóðar tappatogarinn frá Wine Wizzard.

Annars var helgin fín. Við fengum bróðurdóttur úr tengdafjölskyldunni í heimsókn til að mála piparkökur. Alltaf gaman í ungbarnasundi. Föstudagskvöldið var stórfínt. Ég horfði á endurgerð iðnaðarmannsins á Skindlinu. Hún fær mín meðmæli. Endirinn skemmtilega tvíræður.


Aukaæfing hjá kórnum í kvöld. Nú er farið að styttast í hina árvissu jólatónleika. Þeir verða þéttir að venju.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com