<$BlogRSDUrl$>

31 október 2003


Nú er víst hrekkjavaka um helgina. Af því tilefni hyggst ég draga Dr. Schnitzel með mér á hryllingsmyndakvöld hjá Gneistanum, meðan stór systir sem þar er í heimsókn mun heimsækja spúsuna og horfa með henni á Íðilkeppni Íslands (já vitiði mér finnst þetta alveg frábær þýðing hjá mér). Ég ætla mér að horfa á upptöku af þessu einhvern tíma um helgina og sé svo til hvort ég læt eitthvað út úr mér þar að lútandi.

En efnisskrá hryllingsmyndakvöldsins verður massað tvíhöfða skrímsli sem miskunnarlausum skældum krumlum böðlast á hláturtaugunum: Evil Dead 2 (Dead by Dawn!) eftir Sam Raimi og Braindead (Dead Alive!) eftir Peter Jackson. Hvorttveggja stórskemmtilegar myndir sem ég hlakka mikið til að rifja upp kynni mín við. Þeir sem vilja bætast í hópinn mega ábyggilega biðja Gneistann um heimsóknarleyfi. Að því tilskildu að þeir ræði ekki við hann um trúmál. Þetta skilyrði er frá mér, ekki honum (hann myndi ábyggilega skemmta sér konunglega, en ég veit ekki hvort ég myndi nenna að sitja undir því).

Að lokum vil ég í tilefni dagsins benda á þorralega sýrðan hrekkjavökuþátt um Weebl og Bob, en þeim kumpánum hef ég ákveðið að veita sæti á síðunni af þessu tilefni, rétt neðan fyrninga.

Gangið hægt um gleðinnar dyr.
by Hr. Pez

30 október 2003


Hei tékkið á alveg djeðgum umræðum um Guð og fémínisma hjá Gneistanum.
Þar er fjör og eldur á eld ofan.
by Hr. Pez

29 október 2003


"I Am Robot And Proud!"

Click here to find out what robot you really are

Svo reyni ég bara að stilla mig um að birta svona lagað mikið oftar en einu sinni í mánuði.
by Hr. Pez

28 október 2003


Sjónvarpið já. Blessað sjónvarpið.

Ég horfði á Söörrrvævvorrr í gærkveldi. Þetta var hreint afskaplega athyglisverður þáttur. Í fyrsta lagi hvernig bálkurinn sem framanaf var samsafn af aumingjum og vælukjóum er farinn að koma sífellt meira á óvart. Svo var gaman að sjá hvernig Róbert sjóræningjabangsi lék á óvildarmenn sína og stóð eftir með pálmann í höndunum. Hann Nonni litli var fljótur að mála sig út í horn þegar hann fékk tækifæri til þess. Sem er synd. Nú játa ég fúslega að strákurinn sá er mest óþolandi keppandinn í ár (fyrir utan kannski lydduna og lúðulakann Osten). En ég ræð ekki við það: í öllum sjónvarpsþáttum skal ég alltaf halda upp á leiðinlegasta karakterinn. Svo í aðra röndina syrgir mig að sjá hve farið er að styttast í ólinni hjá honum stráknum.

Ég fékk man um daginn upp á að vera með fjöllun um Íðilkeppni Íslands. Ég ætla að láta það vera í bili. Mér finnst sem lunginn úr keppnishópnum þurfi að vera orðinn svo og svo frambærilegur áður en hann fer að standa undir háði og svívirðingum. Það er ekki fallegt að sparka í liggjandi fólk.

Reyndar er ekki heldur fallegt að sparka í standandi fólk.

Allavega. Á þessu stigi málsins læt ég mér nægja að segja að ég var sammála bæði dómurum og þjóðinni sem hringdi um hið augljósa: þau tvö sem komust áfram báru af sem gull af eir. Ég kem kannski með einhver svona eftirákomment næstu vikurnar og sé svo til hvað ég geri í alvöru palladómum þegar keppnin lyftist á hærra plan.
by Hr. Pez

27 október 2003


Mér finnst alltaf jafngaman að sjá blaðamenn strögla við að skilja prósentur. Til dæmis get ég ekki skilið þau á Moggavefnum öðruvísi en að 46 prósent þeirra sem horfðu á lokamót Formúlunnar hafi verið karlmenn, en 24 prósent kvenmenn. Því sýnist mér sem þrjátíu prósent þeirra sem sáu keppnina hljóti að hafa verið einhverrar annarrar sortar. Sjónvarpsfíkin húsdýr, kannski? Ætli þau séu mæld í svona könnunum?

Annars er það í fréttum að hrakfallabálkurinn á heimilinu (nei ekki ég, heldur hinn) fékk skurð á kinnina í leikskólanum í dag. Ekki fylgdi sögunni hvort hún var að reyna að gera slapstick er slysið átti sér stað. Þetta verður býsna myndarlegt glóðarauga þegar líður á vikuna. Þaráður skar hún sig svo illa í þumalputtann í verslunarferð á föstudaginn var að kúnnum og kassadömum í Bónusi fannst þau stödd á miðju stríðshrjáðu átakasvæði; neyðaröskur skáru hlustirnar og blóð út um öll gólf. En neyðarástandið leið hjá jafnskjótt og krakkaplástrum með myndum var bætt í innkaupakörfuna, og þaraf einum á téðan putta.

Annars var helgin tíðindalítil. Ég sá Svefnlausan í Seattle í fyrsta skipti í gærkvöldi og verð að viðurkenna að mér fannst hún bara í fínu lagi, enda var ég í góðum félagsskap. Og Fylkið stóð fyrir sínu í annað eða þriðja sinn á laugardagskvöldinu, þótt ég hafi ekki verið með félagsskap. Þar fer síðasta tímamótamynd tuttugustu aldar.

Það var ekkert kúkað í laugina þennan laugardaginn.
by Hr. Pez

24 október 2003


Hrefna er búin að uppgötva töfraheima slapstick:

Í morgun gekk hún fyrir mig á ljósastaur.
Í tvígang.

Annars er það helst í fréttum að við mönnuðum okkur loks upp í að segja henni í gærkvöldi að Flosi væri dáinn, barnahesturinn hennar Fríðu ömmu hennar. Hún brast í grát, en hvað mest yfir því að nú gæti hún ekki farið á hestbak lengur hjá henni Fríðu ömmu sinni. Svo jafnaði stelpan sig nánast undir eins og hún talaði við Fríðu ömmu í símann, sem útskýrði að það kæmi hestur eftir þennan.

Og já haldiði kjafti þarna félagar í fasismanum. Ég veit vel að það ætti að vera dauður.
by Hr. Pez

23 október 2003


Í fyrra mánuði var það Bangsímon. Á sunnudaginn sem leið var það Lína Langsokkur. Afhverju get ég ekki lengur farið í leikhús eða bíó öðruvísi en að grenja eins og einhver anskotans tjeeedling? Hvað er málið?!

Þetta virðist reyndar blessunarlega bundið við barnagamnið.

En Lína Langsokkur var stórskemmtileg sýning, sérstaklega eftir hlé (hápunkturinn þótti mér tvímælalaust teboðið). Hún Ilmur Blær eða hvað sem hún heitir er Lína holdi klædd. Hrefna blessunin sat dolfallin út í gegn og grenjaði ef eitthvað var meira en ég þegar sýningin var búin. Nú er bara spurningin hvort hún hafi unnið tvo frímiða í happdrætti á téða sýningu. Hún myndi ekki fúlsa við því að fara aftur.
by Hr. Pez

22 október 2003


Jahérnahér.

Nú er frúin komin með gallsteina.
Þetta hlýtur að vera að ganga, ég bíð spenntur eftir stríðsfyrirsögnum um að Gallsteinafaraldurinn sé allur að færast í aukana og nú fari hver að verða síðastur að láta bólusetja sig.
by Hr. Pez

21 október 2003


Þynnkan á laugardeginum var með þeim betri í manna minnum, þessi þægilegi seyðingur og doði sem situr í öllum líkamanum.

Svo var sérstaklega gaman í ungbarnasundinu þegar kom upp úr kafinu að einhver hafði kúkað í laugina.

Kúkur í lauginni. Það er alltaf jafn fyndið.
by Hr. Pez

20 október 2003


"Reykjavík er að deyja."

Eða það fannst mér í það minnsta um tíma á föstudagskvöldið. Við mættum úr hressu partýi niður á Nasa í þann mund sem Kimono var að slá botninn í prógrammið sitt og vorum samferða Singapore Sling inn um dyrnar. Minnti mig dálítið á það þegar ég, Frosti og Addi Arngríms vorum samferða Bono og meðreiðarsveinum inn á sveitta öngstrætisbúllu í Dublin að sjá Katell Keineg trylla lýðinn. Sérstaklega hvernig allir voru þeir með sólgleraugu.

Svo steig Vínyll á svið og spyrnti í görn frá upphafstónum allt til enda. En hvað er að gerast hérna?! Stendur ekki liðið í salnum ósköp yfirvegað og klórar sér í geitartaðskegginu með annarri og rassgatinu með hinni og tautar já, þeir gera þetta vel strákarnir, ég kann að meta þessa tónlist sem ég er að hlusta á. Og það hreyfir sig varla nokkur sála. Látum reyndar vera með þá sem eru uppi á pöllum og aftantil í salnum. En undir sviðinu hreyfði sig ekki nokkur kjaftur heldur, ekki nema til að taka mynd á GSM-símann og senda á bloggsíðuna sína.

Aumingjar. Og það á við um hvern þann mann sem er með myndablogg af Erveivs á blogginu sínu. (Nema reyndar Möggu Dóru. Það er rokk að leyfa símanum sínum að fara á tónleika þótt maður þurfi sjálfur að liggja heima með fjarlægð innyfli.)

Hvað um það. Ég gerði mitt besta til að hoppa utaní horngrýtis merkikertin og silkihúfurnar sem héldu að hægt væri að standa upp við sviðið með spekingslegum svip og tala í gemsann án þess að taka afleiðingunum. Og það hafði ekki nokkur kjaftur manndóm í sér til að egna sig framan í mig, þetta var allt eintómt bévítans miskunn, ekki skemma símann!

Hvað er málið? Þorir ekki nokkur Reykvíkingur lengur í gráhært himpigimpi á fertugsaldri með gyllinæð og bindisnælu? Og það þótt það biðji um það með því að hoppa um og öskra eins og vöðvarýrnuð útgáfa af Guttormi á amfetamínsterum?

Kannski voru allir svona hræddir við Svalborgarhnútinn.

En þá var það!

Þá var það sem ég sá ljósið: Það er Rokk í Reykjavík. Og Rokkið heitir Kristinn Júníusson. Og Rokkið er gott.

Ójá, sjálfur söngvari og aðalsprauta Vínyls tók sig til í miðju gítarsólói, stökk niður á gólf og veittist að áhorfendum, sem runnu á flótta eins og heybrækurnar sem þeir voru upp til hópa. Uns hann mætti jafningja sínum í undirrituðum. Og við heilsuðumst kurteizlega að sjómannasið uns kominn var tími fyrir hann að kyrja viðlagið aftur, svo við urðum að láta gott heita af hnefleikum að sinni. Eftir það fór loks að færast örlítið meira fjör í kompaníið.

Svo komu Singapore Sling. Þeir eru svalir. Mér liggur við að segja, nærri því of svalir fyrir eigin velferð. En það er alltaf gaman að sjá hljómsveit sem hefur designeraðan Bez á sviðinu. Jafnvel þótt hann dansi ekki.

En Kiddi í Vínli er rokk.
Hann er svo mikið rokk að hann ætti að heita Guðmundur.

Guðmundur Rúlar Júníusson.

Og það má hafa það eftir mér.

P.S: Að lokum vil ég þakka Dr. Schnitzel fyrir að hafa lagt með mér upp í pílagrímsferð í leit að síðustu pylsunni í bænum. Og biðja Jóhannes Skírara velvirðingar á að hafa brotið úr honum framtönnina.
by Hr. Pez

17 október 2003


Og hvernig stendur á því, skyldirðu spyrja?

Fyrst og fremst bara langaði mig.

En ei er því heldur að leyna að eftir nokkrar mínútur hefst síðdegissumbl eitt mikið hér á vinnustaðnum, sem mun leiða út í heljarinnar partý í heimahúsi um kvöldmatarleytið ("Dúfnahólar 10!"), sem mun væntanlega enda á því að við reynum að troða okkur inn á Nasa í tæka tíð fyrir Singapore Sling.

Svo er bara að vona að ég verði fullhress fyrir barnaafmæli og svo ungbarnasund upp úr hádeginu á morgun.

En sunnudagurinn verður menningarlegur, enda förum við þá í leikhús að sjá meistaraverkið Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu.
by Hr. Pez


Ég er með Svalborgarhnútinn í dag.
by Hr. Pez

15 október 2003


Á heimili mínu er læða sem eitt sinn var taugaveiklað bévítans kvikindi, katta- og mannafæla svo jaðraði við klíníska geðveiki. Sérdeilis var henni illa við lítil börn, og hafði stundum legið við limlestingum er slík komust í návígi við hana. Því kom okkur ánægjulega á óvart hve hún umturnaðist er eldri dóttir okkar kom í heiminn fyrir þremur árum. Hún tók við henni miklu ástfóstri með öllum þeim klisjum sem því fylgja: smáfuglum í rúmið og soðningu nágrannans á eldhúsmottunni. Eftir að dóttir númer tvö bættist í kompaníið nú í sumar er hún orðið slíkt kelistýri að það hálfa væri nóg.

Ég gubba af hamingju.
by Hr. Pez


Það er alltaf jafngaman að vera slegið upp hjá félaga mínum í hreintungufasismanum.

by Hr. Pez

14 október 2003


Við hjónin sáum mjög umdeilda mynd um daginn: Heilahristar samfarir.

Það vill segja, hún er umdeild milli okkar hjóna.

Mér fannst hún í hópi bestu mynda sem ég hef séð svo árum skiptir.
Spúsunni fannst hún ömurleg og fór upp í rúm í hléi.

Þetta er besta mynd sem ég hef séð með Adam Sandler.
Ókei, það segir nú kannski ekki mikið.
En.
Hitt segir öllu meira að mér fannst þetta besta mynd Paul Thomas Anderson til þessa.
Betri en Buggnætur.
Betri en Magnólía.

Og hugljómunin var svipuð og að sjá Jim Carrey í Truman-þættinum (sko kauða þetta getur hann).

Mín bestu meðmæli.
En ég segi það víst bara fyrir mig.
by Hr. Pez

13 október 2003


Þetta var nú bara of fyndið til að ég þegði yfir því.

Mér var bent á þennan gullmola hérna eftir Höf. Ók. þar sem fyrsta erindi alþekkts barnaleiks er lagt í munn sjálfum Bardinum:

O proud left foot, that ventures quick within
Then soon upon a backward journey lithe.
Anon, once more the gesture, then begin:
Command sinistral pedestal to writhe.
Commence thou then the fervid Hokey-Poke,
A mad gyration, hips in wanton swirl.
To spin! A wilde release from Heaven's yoke.
Blessed dervish! Surely canst go, girl.
The Hoke, the poke - banish now thy doubt
Verily, I say, 'tis what it's all about.
by Hr. Pez

10 október 2003


Áðan fékk ég útskýrða fyrir mér raunhæfustu og bestu strategíuna til þess að Ísland komist áfram í Evrópukeppninni. Hún felst í því að komast í 6-0 áður en svona hálftími er liðinn af leiknum.

Það vill segja, 6-0 fyrir Þjóðverja.

Það ætti nefnilega að gera Litháa alveghreint arfavitlausa í sínum leik á móti Skotum, því þá ættu þeir möguleika á að komast í annað sæti riðilsins með svona tveggja til þriggja marka sigri. Svo er bara að passa uppá þegar Litháar eru komnir yfir á móti Skotum að láta Þjóðverja ekki komast of langt fram úr sér, svo við merjum annað sætið á hagstæðara markahlutfalli og meikum það í umspilið.

Einfalt og skothelt.
Algjör snilli.

Og svo allir með:

Áfram Ísland!
Áfram Ísland!
Áfram Ísland!
Jafnvel þó við getum ekki neitt!

(Nú er verst að vera búinn að deila út Rokklagi Mánaðarins)
by Hr. Pez


Aaaahh.
Erettekki sætt.
Jónsi drengurinn er greinilega gjörsamlega óþolandi gull af manni.
by Hr. Pez

08 október 2003


Afmælisbarn dagsins er að sjálfsögðu konan mín blessuð.

Árný ég elshka þig.
by Hr. Pez

07 október 2003


Afsakið en ég hef ekkert að segja, sagði alþýðuskáldið.

Um hvað get ég talað?
Sjónvarp kannski?

Við hjónin horfum á Söörrrvævvorrr eins og allir aðrir, finnst sami keppandinn bestur og allir aðrir, finnst annar ættbálkurinn betri en hinn eins og allir aðrir, og finnst sama fólkið óþolandi og allir aðrir.

Róbert sjóræningjabangsi vinnur þetta reyndar aldrei, þótt hann sé bestur. Hann er alltof líklegur til þess.

Ég held með þessari spænsku. Hún er flhott.

Svo er gaman að Skrúbb sé komið aftur á RÚV.
by Hr. Pez

06 október 2003


Fyrst þessi síða er snúin aftur úr sjálfselskri reisu upp í spindilinn á sjálfri sér þá er ekki seinna vænna en að kommentera á stórfrétt síðustu viku, nefnilega þá að ákveðið hefur verið að hafa enga forkeppni í Evróvisjón þennan veturinn.

Þessar fréttir eru hvorki slæmar né góðar, svona einar og sér. Við verðum bara að bíða og sjá hvort fyrir valinu verður einhver hörmung (í líkingu við það sem var þegar Sigga Beinteins fór með Nætur, og Bo með Núna) eða snilld (samanber Paul Oscar og Selmu).

Botnleðjuentransinn var náttúrulega alger hugljómun þarna í vor sem leið. Af því tilefni vil ég náttúrulega hnykkja á löngun minni til að Mínus verði falið að sjá um næsta framlag Íslendinga.

Þarna greip ég að sjálfsögðu tækifærið til að lauma inn Rokklagi Mánaðarins.

En það er nöttla lager af öðrum grúppum sem væri gaman að sjá í keppninni fyrir utan þær tvær hér að ofan. Naglbítarnir, Ensími, Singapore Sling, Elín Helena, Sensei, Dikta, Tvö dónaleg haust...

Handahófið í upptalningunni er algjört og listinn gæti haldið áfram og áfram.

En ég þarf að fara núna.
by Hr. Pez

03 október 2003


Svalborgarhnúturinn - 4. og síðasti hluti

Þá er komið að því.

Fyrir þá sem vilja prófa þetta vil ég taka fram að Svalborgarhnúturinn hentar ekki með ullarbindum, en hæfir vel bæði silki og gerviefnum.

Þeir sem eru vanir rithætti þeirra Fink og Mao ættu að vera fljótir að ráða í þessa runu hérna:
vinstri niður, miðja upp, hægri niður, vinstri upp, miðja niður, hægri upp, miðja niður, hægri upp, vinstri niður, miðja upp, lokabragð.

Förum nú aðeins hægar yfir þetta:
Bregðið bindinu um háls yður þannig að sverari endinn (og sá lengri) sé hægra megin og framhlið bindisins snúi út. Bregðið nú bindisendanum til vinstri, niður, upp í gegnum miðjuna, og út til hægri. Hér er gott að nema staðar og ganga úr skugga um að upphafsbrögðin sitji þétt, en þó ekki of þétt (almennt er ágætt að byrja hnýtinguna í grennd við skásauminn). Bregðið nú bindinu aftur fyrir frá hægri til vinstri, upp, svo niður í gegnum miðjuna, því næst upp til hægri og aftur niður í gegnum miðjuna. Hér megið þér aftur ganga úr skugga um að ekki sé of laust um hnútinn. Að síðustu skuluð þér bregða bindinu fram fyrir frá hægri til vinstri, upp í gegnum miðjuna og smeygja endanum gegnum lokasnúninginn. Herðið svo að og lagið til eftir smekk.

Þessi hnútur leysir sig sjálfur. Honum fer vel að hafa pétursspor (sjá myndir úr fyrsta og þriðja hluta). Of stutt er í bindinu ef mjórri endinn stendur niður undan þeim sverari, annars ekki (munið að bindi er hálsskraut).

Þegar öllu þessu er lokið er kjörið að skella sér út á lífið og dansa af sér rassgatið. Góða helgi.
by Hr. Pez


Þar kom að því.

Murphy hefur loksins unnið (Ig)Nóbelinn fyrir lögmálið sitt.

Eins og vanalega eru rannsóknir verðlaunahafanna hrein skemmtilesning.

Svo kemur Svalborgarhnúturinn rétt bráðum.
by Hr. Pez

02 október 2003


Svalborgarhnúturinn – 3. hluti

Ég vil byrja á að vekja athygli á því að fullt nafn flíkurinnar sem um ræðir er hálsbindi. Með áherslu á háls.

Það vill segja, við setjum upp bindi til að skreyta á okkur hálsmálið, fyrst og fremst. Reyndar líka bringuna, og jafnvel magann, en ekki mittið. Í neðsta lagi skal endi hálsbindis nema við beltisstað. Þeir sem geta notað bindið sitt til að þurrka eftir sig Wimbledoninn eru öldungis úti að skíta.

Til eru þeir hér á landi sem finnst íslenskir karlmenn almennt ganga með of þykka bindishnúta. Og meir að segja hefur einn þessara hundaklyfbera gerst svo djarfur að eigna sjálfum sér bindishnút sem utan landsteina hefur verið kenndur við þau skötuhjú Viktoríu drottningu og Albert prins, sitt á hvað, allt eftir því hvernig gengið er frá honum.

Mjóir og einfaldir hnútar eru vissulega skemmtilegir til síns brúks, sérstaklega fyrir þá sem brúka þurfa hálstau hvunndags. En til hátíðabrigða finnst mér ekkert jafnast á við þykkan og efnismikinn bindishnút.

Einnig má geta að mjóir og rýrir bindishnútar fara vel við þrönga skyrtukraga, meðan gleiðir skyrtukragar hæfa betur þykkari hnútum. Einhverjir kynnu til dæmis að segja að þetta merkikerti hérna sé með fullhvasst horn milli tungnanna á kraganum fyrir Svalborgarhnútinn, og ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það. Efri horn hans ná ekki alveg að njóta sín.

Það er vandi að binda stóra og þykka hnúta. Ef byrjað er of neðarlega á bindinu, og/eða ef hnúturinn er ekki nógu þéttur, þá getur útkoman orðið formlaust skrímsli. Blessunarlega er þá alltaf hægt að leysa hnútinn og gera aðra tilraun ef byrjað er of neðarlega. Og gott er að gera hlé og ganga úr skugga um að þétt sé frá gengið eftir fyrsta bragðið gegnum miðjuna. Þetta kemur alltsaman.

Þá á ég í raun lítið eftir annað en að gefa sjálfa uppskriftina að Svalborgarhnútnum. Hún kemur á morgun.
by Hr. Pez


Sperðlar.
by Hr. Pez

01 október 2003


Svalborgarhnúturinn – 2. hluti

Liðið er fast í fjögur ár síðan ég sá fyrst eina ágæta vísindagrein, þar sem vísindi bindahnýtinga voru skilgreind og kortlögð undir drep. Fast á hæla hennar fylgdi bók frá höfundum greinarinnar, þar sem farið var ofan í saumana á sögu bindisins í sambýli við manninn, og raktir allir þeir 85 bindishnútar sem til voru í heiminum. Sú bók er mikil skemmtilesning og ómissandi hverjum áhugamanni um snyrtilegan klæðaburð og það hvernig koma skal vel fyrir.

Allt frá táningsaldri hafði ég velt vöngum yfir heiti hnútsins sem faðir minn kenndi mér. Þennan hnút þekkti ekki nokkur maður undir neinu nafni. En nú skyldi snarlega úr því bætt, þar sem ég var kominn með í hendur mínar sjálfa biblíuna í bindishnútafræðum.

En ekkert fékkst úr því bætt, því hann var ekki þar.

Það var búið að rita hið tæmandi uppflettirit um alla þá bindishnúta sem nothæfir væru (og marga ónothæfa til viðbótar), og hnúturinn sem ég lærði á unga aldri var ekki þar!

Skýringin reyndist einföld. Eins og sjá má í ofannefndri tímamótagrein er auðvelt að skilgreina eitt skref, eða bragð, í bindishnúti. Svo lýsa höfundarnir í bókinni öllum þeim 85 bindishnútum sem hægt er að hnýta í níu brögðum eða færri, sem þeir segja efri mörkin á því sem sé raunhæft, miðað við lengd venjulegs bindis (og eins og þeir viðurkenna sjálfir: “Rather luckily for us; were the cutoff 10 moves, our 85 knots would leap to 170.”).

En þar liggur hundurinn vitaskuld grafinn. Hér með skal svo mikið látið uppi að Svalborgarhnúturinn er einn af hinum hnútunum 85, tíu bragða hnútunum sem var útskúfað úr bindishnútabiblíunni. Óhreinu börnunum þeirra Fink og Mao.

(Við tíu brögð dreg meir að segja ég mörkin. Ég hef reynt mig við ellefu bragða hnúta. Það slagar í fáránleikann.)

Í athugasemdum var spurt um nafngiftina. Fyrst ekki var neitt nafn á hnútinn fyrir, ákvað ég að nýta mér rétt minn til að nefna hann sjálfur. Hann heitir í höfuðið á óðali föðurættar minnar, lágreistu húsi sem hímir út við fjörukambinn á Bíldudal við Arnarfjörð. Ég bar nafngiftina undir föður minn, og hann fann henni það til foráttu að téð Svalborg hefði verið heimili móðurættar sinnar, ekki föðurins sem kenndi honum hnútinn. Ég hef ákveðið að blása á það. Föðurafi minn var landlaus ungur maður er hann kom langt að til Bíldudals. Ættboginn undan honum kemur frá Svalborg, og þar hefst saga ættarhnútsins.

Senn verður hverjum sem vill fullfrjálst að reyna sig við Svalborgarhnútinn. Ég vil biðja hvern sem það gerir að muna hvað hann heitir, og hvaðan hann kemur.

En fyrst munu koma örfá orð um snyrtimennsku og almenn settlegheit í klæðaburði.
by Hr. Pez


Lengi von á einum.

Velkominn aftur Herr Doktor. Ég var farinn að örvænta.
by Hr. Pez


Aðeins út fyrir efnið:

Mér sýnist Bloggari Dauðans þurfa að ganga í skrokk á sjálfum sér.

Allavega fékk hann mig til að glotta.

En það þarf reyndar ekki mikið til þess.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com