<$BlogRSDUrl$>

30 september 2003


Svalborgarhnúturinn – 1. hluti

Ég vil byrja á að taka fram að mér finnst dætur mínar yndislegar. Ég nýt þess að ala fyrir þeim önn, og ég hlakka til þess að eiga það fyrir höndum um ókomin ár. Og mig grunar reyndar að ég sé betri stelpnapabbi en strákapabbi, ef eitthvað er (því hei, ég er maðurinn sem gaf konunni sinni borvél. qed). Það er í raun ekki nema eitt sem ég myndi sýta ef mér yrði engra sona auðið. Það er hve mig dauðlangar að kenna syni mínum að hnýta bindi. Og ekki bara hvernig sem er. Heldur sem hluta af því að vígja hann inn í heim hinna fullorðnu.

Ha? Fermingin mín? Ég man hana. Hún var nú meira prumpið.

Ég fékk mína manndómsvígslu innan veggja heimilisins, einhvern tíma um svipað leyti. Ég var að fara eitthvað út og skyldi vera fínn í tauinu, og karl faðir minn tók mig afsíðis og lét mig horfa á sig meðan hann hnýtti bindishnút einn mikinn og þykkan. Svo losaði hann um hnútinn, brá honum yfir höfuð sér og um háls mér.

“Þetta er í eina skiptið sem ég hnýti þér þennan hnút,” tók hann fram. “Núna skaltu rekja hann upp, bragð fyrir bragð, og rekja þig fram og til baka gegnum hann þangað til þú kannt hann afturábak og áfram.”

Og það gerði ég. Og hann hnýtti mér hnútinn þann ei meir.

En hann sagði meira. Hann tjáði mér að einmitt svona hefði faðir sinn kennt sér að hnýta bindi í fyrndinni er hann var sjálfur á táningsaldri. Þennan sama hnút. Og sjálfur hefði hann ekki notað annan hnút síðan.

Þessi hnútur var það sérstakur að hann vakti forvitni mína fyrir þeirri list sem það er að hnýta bindi. Ég hef notað ýmsa bindishnúta um ævina, við ýms tækifæri. En þegar tilefni er til að vera virkilega fínn í tauinu finnst mér enginn annar hnútur koma til greina.

Því kom mér á óvart er ég uppgötvaði að þeir væru býsna fáir sem kynnu þennan hnút. Sennilega ekki nema fjórir undir sólinni. Og af þeim er einn (afi minn heitinn) sem ætti reyndar ekki að teljast með lengur, og annar (stóri bróðir minn) sem ég er ekki svo viss um að muni hnútinn orðið. Ég hef allavega aldrei séð hann flíka honum á mannamótum.

Svo ég hugsa að við séum víst bara tveir móhíkanarnir, ég og karl faðir minn. Og ætli það sé ekki þess vegna sem ég ætla hér seinna í vikunni að ljóstra upp leyndarmáli Svalborgarhnútsins.

Þetta er dýr hnútur.
Og hann er í útrýmingarhættu.

Meðal þess sem tekið verður fyrir næst er hvernig nafnið á hnútnum er til komið.
by Hr. Pez

29 september 2003


Mér bárust þau sorgartíðindi í löngu og annars ágætu helgarfríi norður á Akureyri að rauðbrystingurinn Robert Palmer hefði hrokkið upp af fyrir aldur fram.

Ég játa að ég hef löngum dáðst að kappanum. Ekki fyrir tónlistina, heldur hitt, hvað hann var alltaf fínn í tauinu strákurinn.

Nú er orðið býsna langt síðan ég var með temaviku síðast. Hinum fallna snyrtipinna til heiðurs, og eins til háðungar þeirri vanþóknun sem einn illa uppdreginn ungur maður hefur lýst á settlegum herraklæðnaði á tölvuöld, hef ég ákveðið að helga þessa viku uppáhaldsbindishnútnum mínum: Hinum svokallaða Svalborgarhnúti.

Meir um það síðar.

P.S. Rétt er að taka fram að myndin hér að ofan er geymd á morgunblaðsvefnum, og er ég að vísa á hana í algjöru leyfisleysi.
by Hr. Pez

25 september 2003


Hér kemur saga af bónda einum er Ólafur hét, og átti heima undir Kræklingahlíð í Eyjafirði (Kræklingahlíð! I'm laughing already!). Bænum þeim þar er Ólafur bjó var rétt eins og tyllt þarna undir Hlíðarfjallsöxlina, og hafði hann því frá fornu fari heitið Tyllingur. Meðal gárunga sveitarinnar hafði bærinn þó alllengi gengið undir öðru nafni sem var nánast eins í framburði, en þó allnokkru dónalegra í munni. Féll Ólafi það miður, og sérstaklega það að við hann festist að vera við bæinn kenndur undir þessu miður virðulega nafni.

(Þarna kemur Ólafur á Tittlingi, pískraði pöpullinn.)

Svo kom sögu að Ólafur fékk nóg: hann tók sig til og lögfesti nýtt nafn á bæinn, allnokkru voldugra en þó sömu merkingar. Hlíðarendi skyldi bærinn heita, og héðan í frá skyldi bóndinn vera kenndur við þetta virðulega bæjarheiti.

En pöpullinn lét sér ekki segjast, og þrátt fyrir nafnabreytinguna var grey karlinn aldrei kallaður neitt annað manna í millum en Ólafur á Tittlingi.

Við svo búið mátti ekki una, svo Ólafur brá á það þjóðráð að fá alkunnan hagyrðing til þess að setja saman vísu þar sem ódauðlegt yrði að bærinn héti Hlíðarendi, og sjálfur skyldi hann kallast Ólafur á Hlíðarenda.

Lagðist nú hagyrðingurinn undir feld, og skreið brátt undan honum aftur með eftirfarandi vísu. Af nytsemi hennar við nafnabreytinguna fara fáar sögur.

Eyjafjarðarvífum vænum
verður margt að bitlingi
þegar ekur út úr bænum
Ólafur á Hlíðarenda.

*tekur bakföll og slær sér á lær*
by Hr. Pez


Ég hef ákveðið að lýsa 25. september dag íslenskrar fyndni hér á síðunni.

Dagsetningin er af algjöru handahófi, utan að mig langaði allt í einu að deila með ykkur íslenskri kímnisögu í dag.
Ein á ári ætti að vera mátulegt.

Fylgist með, hún ætti að koma einhvern tímann um hádegisbilið.

P.S. Haldið ykkur. Hún er með gamanvísu.
by Hr. Pez

24 september 2003


Hvernig líður þér svo að eiga barn með hjartagalla?
Hvunnin tilfinning eretta ha?

Ef satt skal segja þá hef ég furðu lítið leitt að því hugann.

Strax samdægurs og Una litla fæddist í sumar sem leið var hún hlustuð og vakthafandi læknir þóttist greina einhver aukahljóð sem hann var ekki alveg nógu ánægður með, svo okkur var haldið á Lansanum yfir nóttina. Daginn eftir fór ég með hana í hjartaómun, sem gekk tíðindalítið, allt þar til læknirinn frysti skjámyndina, benti og sagði við mig, "sjáðu hérna, hér er opið á milli sleglanna."

Það var býsna sláandi að sjá þetta svona á tölvuskjánum. "Það er gat í hjarta dóttur minnar," hugsaði ég með skelfingu. Í svona um það bil tvær sekúndur var veröld mín rjúkandi rúst, en svo bara beit maður á jaxlinn og sætti sig við að krílið var ekki alveg eins fullkomið og það leit út fyrir að vera.

En það var samt fullkomið!

Hann sagði svo að þetta væri nú ekkert stórmál læknirinn og myndi varla há henni neitt, enda gallarnir harla smávægilegir; hann leit á hana aftur tæpri viku seinna og þetta virtist allt á réttri leið og vel líklegt að allt greri um heilt af sjálfu sér. Við skyldum líta til hans með hana aftur að tveimur til þremur mánuðum liðnum.

Við fórum heim með þær leiðbeiningar í farteskinu að við skyldum ekki hafa af þessu stórar áhyggjur, bara ala fyrir henni önn rétt eins og ekkert væri að. Sem við og gerðum. Það er varla að maður hafi hugsað út í þetta undanfarna mánuði, enda stelpan augljóslega hin hraustasta og hefur braggast afbragðsvel til líkama og sálar.

Svo var téð tveggja mánaða skoðun í gær og opið er þarna enn, en fer hægt og örugglega minnkandi; bæði hlustunarpípan og hjartalínuritið gáfu stelpunni hæstu mögulegu einkunn: allt í fína lagi.

Læknirinn ætlar að líta á hana næst um ársafmælið og sjá hvernig þróast. Sjáum til, ætli íslenska húsráðið verði ekki best er upp verður staðið: Leyfum þessu bara að lagast af sjálfu sér.
by Hr. Pez

23 september 2003


Þegar ég var lítill hafði ég gaman af að liggja yfir biflíuteikningum Gustave Doré, sem foreldrar mínir áttu einmitt í innbundinni viðhafnarútgáfu.
Og ég man hvað mér þótti fyndið að þjóðin sem Gyðingar voru alltaf að lemja á skyldi heita Móabítar.

Það vill segja, Móa-bítar.

Í þá daga þóttu það enn soddan kúnstugheit að vera grænmetisæta.
by Hr. Pez


Gleðileg haustjafndægur!
by Hr. Pez

22 september 2003


Á leið í vinnuna í morgun frétti ég að það væri bíllaus dagur í dag.

Ég nennti nú ekki að snúa bílnum við til að taka strætó, enda orðinn nógu seinn fyrir.

Svo þessi dagur fer að mestu framhjá mér, rétt eins og alþjóðlegi sjóræningjatalsmátadagurinn, sem var einmitt á föstudaginn var.

Ojæja.

En talandi um það, þá finnst mér sárlega vanta sérstakan dag í dagatalið þar sem íslensk fyndni er höfð í hávegum. Nú er ég kátur nafni minn og Eyjafjarðarvífum vænum og svoleiðis. Það gæti verið gaman.

Að því sögðu fær hann Kári karlinn að vera broskarl dagsins hjá mér fyrir að segja að íslenska þjóðin sé gott dýralíkan fyrir hinn vitiborna mann.
by Hr. Pez

19 september 2003


Bloggum aðeins meira um bíómyndir.

Mig langar að telja upp þrjár uppáhaldssenurnar mínar í bíómyndum evver. Þær eru þessar (í þeirri röð sem ég sá þær fyrst):

Danny Boy senan í Miller's Crossing (Cohenbræður)
-Allt frá því fyrstu tónarnir byrja að hljóma og fram að klímaxinum á háa tóninum er ég gjörsamlega dáleiddur. Í. Hvert. Einasta. Skipti.
Grúví senan í Evil Dead 2 (Sam Raimi)
-Dúddi frændi hefur alltaf rétt fyrir sér.
Bleikufílaskrúðgangan í Dúmbó (Ben Sharpsteen/Walt Disney)
-Þetta er eitthvert það allra sýrðasta myndskeið sem teiknað hefur verið í gervallri sögu kvikmyndanna. Svona fara eiturlyfin með ykkur krakkar. Passiðykkubaraaa! (Eða jafnvel: ú-ú-ú, hei, pant ég prófa, pant ég!)

Ef þið hafið ekki séð einhverja ofangreindra mynda er tilvalið að leigja sér um helgina. Þær fá allar mín bestu meðmæli.

Svo bíður maður spenntur eftir vefverðlaunum Gneistans 2003. Ætli maður eigi séns í eitthvað af þessu? Ég hef nú allavega birt hérna bæði drauma og samsæriskenningar. En ætli það sé nógu sýrt? Eða nógu flott?

"Spyrjum að leikslokum," sagði Daníel í þann mund sem þau stefndu upp stéttina inn í húsið.
by Hr. Pez


Ég vann! Ég vann!
Ég er konungur Matadorsins!!!


Ég tölti einmitt yfir mýrina nú áðan til að sækja mér vinninginn. Ég áttaði mig reyndar á því að ég átti sjálfa vinningsbókina fyrir. Þá kom sér nú vel að geta gengið í skiptibókamarkaðinn.
by Hr. Pez

18 september 2003


Það gleður mig meir en orð fá lýst að nú skal loks bætt fyrir mesta fólskuverk Phils Spector.

Ég bíð í ofvæni eftir að heyra eyrnakræsingarnar.

Nærri því jafn spenntur og eftir tíundu bókinni í hrakfallabálkinum hryllilega, sem ku víst koma út eftir fimm daga. Þeirri næstu á undan lauk á "Cliffhanger Ending," í bókstaflegri merkingu.
Rétt er að vara viðkvæmar sálir við að kynna sér þessa seríu.

En ætli ég brjóti ekki odd af oflæti mínu og panti mér bókapakka úr frumskóginum á tölvuöld.
by Hr. Pez

17 september 2003


Sú eldri er þriggja ára í dag.

Morgunninn var því eins og klipptur út úr sænskum barnaþætti: foreldrarnir læddust inn í herbergið með fangið fullt af gjöfum og sungu: "Hún á afmæl' í dag..."
Svo voru pakkarnir opnaðir í rúminu og eftir að stelpuskottið var klætt (í fínni föt en gengur og gerist á leikskóladegi) og komið á ról fékk það naglalakk á puttana við eldhúsborðið, og tíkarspena í hárið.

Jamm.
Hún rýkur upp, ómegðin.
by Hr. Pez

16 september 2003


Ég labbaði niður Laugaveginn í gær.

Þar sá ég unga stúlku leiða reiðhjólið sitt yfir götuna, í þann mund sem aðvífandi kom ungur maður á svörtu bensínskrímsli. Eitthvað þótti honum hnátan draga lappirnar held ég. Alla vega flautaði hann á hana. Og fórnaði höndum. Og barði í stýrið. Og mælaborðið. Og hrópaði upp yfir sig eitthvað sem mig grunar að hafi verið miður viðurkvæmilegt. Svo loksins þegar færi gafst gaf hann í til þess eins að geta drattast áfram í halarófunni þremur bíllengdum neðar.

Svona fólk ætti nú bara ekkert að vera að fara niður í bæ.
Eða bara yfir höfuð að sýna sig á meðal siðaðra manna.
by Hr. Pez

12 september 2003


Forr ðö rekkord:

Af engri sérstakri ástæðu lýsi ég hér með opinberu tölvualdarfrati á hvunn þann lista yfir bestu B-myndir allra tíma sem inniheldur ekki þessar þrjár hérna (í engri sérstakri röð):

Starship Troopers (Paul Verhoeven)
Evil Dead 2 (Sam Raimi)
Braindead (Peter Jackson)

Já ég veit, þetta kemur úr hörðustu átt frá manninum sem grenjaði yfir Bangsímon um daginn.

Og eins og það væri ekki nóg þá drakk ég líka kók um helgina sem leið.
Mikið ógeðslega er það væmið þegar það líður svona langt á milli.
Væmið já. En gooott.

Að lokum vil ég taka fram að fleiri steinum verður ekki kastað úr mínu glerhúsi þennan föstudaginn.
Svo bara góða helgi.
by Hr. Pez

11 september 2003


Á þessum degi fyrir tveimur árum tók stóra barnið á heimilinu fyrstu skrefin óstutt.
by Hr. Pez


Obbosí, maður bara snýr sér við og komin er tveggja daga þögn.

En talandi um að dunda sér við fáránlegustu hluti.

Við hjónin keyptum okkur um helgina sem leið forláta skáp sem við skrúfuðum í stofuvegginn undir geisladiskana okkar. Svo röðuðum við þeim, öllum þrjúhundruð að tölu, í stafrófsröð eftir flytjendum, og í tímaröð innan hvers flytjanda.

Heilbrigt?
Þokkaleeega.
by Hr. Pez

08 september 2003


Og eins og það væri ekki nóg, þá táraðist ég líka undir játningunni í Phone Booth, þegar við hjónin leigðum hana um kvöldið sama dag.

Hvað er eiginlega að gerast hérna.

Soft git.
by Hr. Pez


Ég grét í bíó um helgina.

Haldið ykkur.

Þetta gerðist er ég fór með dóttur minni að sjá Bangsímon: Stórmynd Grísla.

Góð mynd maður.
by Hr. Pez

06 september 2003


Ótrúlegt en satt ætla ég ekki að blogga um landsleikinn í kvöld.

Hins vegar fannst mér stórskemmtileg fréttin um "fretskattinn" á nýsjálenska bændur á RÚV áðan.

Æ síðan hef ég verið með lagið "Reap the Wild Wind" með Ultravox á heilanum.
by Hr. Pez

05 september 2003


Mikið er Kíffarinn samt alltaf flottur.

Gangið hægt á gleðinnar hurð.
by Hr. Pez


Ég skrapp út í bæ áðan.
Á þessum ferðum mínum sá ég konu sem leit út nákvæmlega eins og Grímhildur Grámann.
by Hr. Pez


Sagan gerist sífellt sætari, nærfellt svo að ég gæti gubbað af hamingju.

Frúin var að herma mér að hún sé Gumpari sömuleiðis.
Stendur heima, flís við rass usw.

Enda hef ég löngum verið orðlagður fyrir að vera mikill gumpmaður.
by Hr. Pez

04 september 2003


Ég var búinn að sverja þess dýran eið að setja svona lagað aldrei á síðuna mína.
En þetta var bara of sætt.
Auk þess sem mig langar að sjá hvernig þetta kemur út.

CWINDOWSDesktopGump.JPG
Forrest Gump!


What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla

Ekki leiðum að líkjast.
by Hr. Pez

03 september 2003


Stóra stelpan er enn heima með hita.
Og verður það líka á morgun.
En þess fyrir utan amar ekkert að henni.

Ætli það sé til eitthvað sem kallast sýkkósómatísk skrópusýki?
by Hr. Pez


Næsta mál á dagskrá er rokklag mánaðarins.

Það er í tilefni af því að nú er komið hrímkalt haust (eða svonaaa...) og nætur taka óðum að lengjast.

Pumpið upp í græjunum.
by Hr. Pez

02 september 2003


Jamm og já.

Það ber einna helst til tíðinda að ég hjálpaði Gneistanum og Eygló að flytja í gær. Hrefna fékk einhverja sólarhringspestina, sem virðist ætla að teygjast eitthvað úr í aftari endann.

Frúin er snúin aftur í háskólann, svo tvo morgna í viku sit ég heima yfir henni Unu litlu. Fyrsta skiptið var nú í morgun, þetta á að geta gengið vel.

Svo er fyrsta æfing vetrarins í kórnum mínum í kvöld. Af því tilefni hef ég bætt Bjössa bassa í keðjugengið.

Þar verður sko glatt á hjalla.
by Hr. Pez

01 september 2003


Blogg Hr. Pez í dag er með andlegt nefrennsli og fitukeppi af hreyfingarleysi og astralsprittsins doða.

Þessa tepoka hef ég spænt í gegnum síðan síðast:
Á meðan hann horfir á þig ertu María mey, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Paradís, eftir Lizu Marklund
Skuldaskil, íslenskir þjóðlífsþættir eftir Þorstein frá Hamri
Í upphafi var morðið, eftir þá kumpána Árna Þórarinsson og Pál K. Pálsson
The Brentford Chainstore Massacre, eftir Robert Rankin

Ég er kannski að gleyma einhverju. Auk þessa hef ég sjálfum mér til ánægju og yndisauka lesið nokkrar ágætar bækur fyrir svefninn með dóttur minni. Þær eiga alveg heima í þessari upptalningu líka:
Sagan af bláa hnettinum, eftir Andra Snæ MagNason
Fúsi froskagleypir, eftir Ole Lund Kierkegaard
Dísa ljósálfur, eftir Höf Ók

Allt fínar bækur. Ég nennekkjað spandera orðum á hverja fyrir sig (ég er upptekinn).
Þó varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með annan reifarann.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com