<$BlogRSDUrl$>

31 janúar 2003


Hvað er þetta maður!

Upp eru runnir þeir tímar að fólk úti í bæ er farið að hafa samband við mig og spyrja hverju það sæti að heill blogglaus dagur hafi liðið hér á síðunni.

Orð dagsins er "Impóneraður."

Eins og í: Hann var afar "Impóneraður" yfir þeim viðbrögðum sem bloggsíðan hans hafði náð að vekja á ekki lengri tíma en þetta.

Þegar ofan á þetta bætist sá skandall að fólk er enn ekki farið að geta kommenterað beint hér inn er ljóst að eitthvað verður að gera. Því hef ég ákveðið að vera með viðtalstíma á efri hæðinni á Vegamótum í kvöld milli klukkan átta og tólf. Til að þekkja mig úr manngrúanum vísa ég á mynd úr fyrra bloggi. Varið ykkur þó ef söngvarinn í uppáhalds íslensku hljómsveitinni minni verður á staðnum, því það er auðvelt að taka feil á okkur. Þess vegna verð ég með jólasveinahúfu og sautjánda júní fána til öryggis, svo auðveldara verði að þekkja mig.

Neinei.

En ég er sumsé að fara út að skemmta mér með vinnufélögunum á fyrrgreindum stað. Sælustund og stuð og fjólublátt ljós við barinn. Nema ég hhhhheld ég fái mér ekki bjór með kók saman við. En ég spjalla glaður við hvern þann mann sem hittir mig á förnum vegi.

Af ofangreindu má ljóst vera að ég get ekki sagt ykkur að ganga hægt um gleðinnar dyr þessa helgina, að minnsta kosti ekki með góðri samvisku (steinar úr glerhúsi!!! steinar úr glerhúsi!!!).

Svo hafið það bara gott um helgina,
Hr. Pez
by Hr. Pez

29 janúar 2003


Ég var að klára Síðari Krónikubók í gærkvöldi.

Jamm, ég er að lesa Bifflíuna. Hún er sko fín bók, eða, það vill segja, inn á milli er þar aldeilis hreint býsna magnaður texti. Ég hef reyndar verið að böðlast gegn um Konunga- og Krónikubækurnar núna mánuðum saman: að lesa sömu söguna í tveimur mismunandi útgáfum við mismikla innlifun. Allt að því endalausar upptalningar á konungum sem ýmist gengu á Guðs vegum eða ekki, brutu og brenndu Baal-líkneski og Asérur eða endurreistu heiðnar fórnarhæðir og ríktu ýmist í þrjátíu ár áður en þeir söfnuðust saddir lífdaga til feðra sinna eða í þrjá mánuði og voru þá drepnir af samsærismönnum. Vart þarf að taka fram að allir af seinni sortinni voru Drottni ekki þóknanlegir.

Ef fólk er að leita að krassandi aksjón í hinni helgu bók er meira af henni annars staðar í Gamla Testamentinu. Þar vil ég sérstaklega mæla með Jósúabók (hún malar þær allar: blóðið drýpur af hverri síðu), en líka Fyrstu Mósebók, Dómarabók og Samúelsbókum. Ég á erfiðara með að mæla með góðum bókum úr því Nýja þar sem ég hef varla litið í það frá barnæsku, en vil samt benda á orð kerlingar um Guðspjöllin, að enginn er í þeim bardaginn. Ég rifjaði upp Matteusarguðspjall yfir jólin, í pásu frá þeirri símaskrárlesningu sem Konunga- og Krónikubækurnar voru um tíma. Það er sannlega enginn hjaðningareyfari, en sagan býsna mögnuð engu að síður. Og ekki sakar að hún er til í fjórum mismunandi útgáfum.

Fyrir þá sem eru meira fyrir innblásnar bókmenntir og andríkan kveðskap get ég persónulega mælt með Ljóðaljóðunum. Þó er rétt að vara viðkvæmar sálir við berorðum textum (parental advisory explicit lyrics):

"Þar til kular af degi
og skuggarnir flýja,
vil ég ganga til myrruhólsins
og til reykelsishæðarinnar."

Og hvað er eiginlega hægt að segja um líkingar eins og þessa:

"Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám,
sem koma af sundi,
sem allar eru tvílembdar
og engin lamblaus meðal þeirra."

Þetta er hrein og klár snilld. Af hverju skrifar enginn svona lengur. Tvímælalaust mín uppáhaldsbók í Biblíunni. Mér skilst á mér lesnari mönnum að Jobsbók sé ekki síðri, en hafið ekki mín orð fyrir því elskurnar, ég er ekki kominn svo langt enn þá.

Ha? Af hverju ég er að þessu? Jah, mér finnst bara að maður þurfi að lesa Biblíuna að minnsta kosti einu sinni áður en maður hrekkur upp af, og vissara að hafa tímann fyrir sér þegar um er að ræða þennan líka feikna doðrant. Ég er búinn að vera að í nokkur ár nú þegar og kemst varla spönn frá rassi. Stefni á að klára þetta áður en ég fer á eftirlaun (ég er mjög góður í hæglestri).

Svo bara takk fyrir í dag.
Hr. Pez
by Hr. Pez

28 janúar 2003


Góðan og blessaðan sagði hann.

Það er kominn sá tími vikunnar aftur og ég er búinn að planta enn öðru hugverki á ljod.is. Þetta er fyrsti hluti af þremur í framhaldsljóði sem mun halda áfram næstu tvær vikurnar. Við þá sem eru of óþreyjufullir til að bíða eftir framhaldinu vil ég segja tvennt:
1) Hinir hlutarnir tveir hafa svo til ekkert með þann fyrsta að gera og hjálpa ekkert til við að botna í honum.
2) En ef þið forartið orð mín og heilræði, þá gott og vel, þetta hefur birst áður annars staðar og er hægt að grafa upp á öllum betri bókasöfnum eða hjá einhverjum af öllum þeim skrýtnu frændum upp til sveita sem safna svona löguðu.

Fólk hefur verið að draga mig afsíðis og reka á eftir mér með að setja upp gestabók eða gagnvirkan svarpóstglugga eða eitthvað svoleiðis. Ætli ég verði ekki að hunskast til að hnusa eitthvað þess háttar uppi á næstunni. Það kemur allt saman, það kemur.

Svo kláraði ég fína bók í gær: Röddina eftir Arnald Indriðason. Honum fer fram með hverri bók stráknum. Þrátt fyrir að hann sé dáldið sterkur í honum sósíalrealismaþráðurinn.

Ég var að fá tölvupóst frá góðri vinkonu minni í Banderíku, sem mér skilst að sé að koma í heimsókn á skerið í febrúar. Gaman gaman!

Svo er kóræfing í kvöld. Rosalega hlakka ég til. Ég er alveg punkteraður eftir daginn.

Sælar stundir,
Hr. Pez
by Hr. Pez

27 janúar 2003


Aaaahh!

Ég er hýr og ég er rjóð, Jón er kominn heim.

Jamm, frúin kom heim frá útlöndum í gær. Það var nú aldeilis gott að fá hana aftur. Dóttirin var náttúrulega ekki minna glöð en ég. Slíkur er jú vegur æskunnar.

Ég get talað um laugardagskvöldið. Það var ágætt. Við feðginin buðum Gneistanum í mat en Eygló var fjarri góðu gamni við brauðstritið. Hann færði mér Hrafnagaldur Óðins við mikinn fögnuð og svo voru framdar misþyrmingar á skáklistinni. Rosalega er maður lélegur.

Hvað um það.

Fólk hefur verið að stoppa mig á förnum vegi að væna mig um andþjóðfélagslega tendensa eftir laugardagspistilinn. Jah, hér stend ég og get ekki annað, eins og maðurinn sagði. Jújú auðvitað má draga fimm frá fjórum með allt sem ég segi og skrifa og víst er ennþá líf í mörlandanum. Téður pistill átti reyndar að vera sjónvarpsrýni í aðra röndina, en það fór eitthvað fyrir ofan garð og neðan. En þegar ég hugsa út í það þá sá ég nokkra þætti af Djúpu Lauginni í fyrravetur líka og þá var nú vanalega meira líf í tuskunum þar sem staldrað var við, þótt pörin væru nú jafnfeimin og fótvana og þau voru á föstudagskvöldið var.

Ætli það sé tabú og fatalt fyrir óreyndan og upprennandi bloggara að draga í land á tölvuöld? Ég veit það bara ekki. Ef einhverjum finnst það, þá geta þeir sko átt sig.

Svo verð ég nú að fara að passa mig með það hvað ég skrifa á internetinu. Ég glopraði því út úr mér við foreldra mína, sanna hreintungupostula og uppeldisábyrgðarmenn að ég væri byrjaður að blogga hérna, svo nú verð ég að fara að koma vel fyrir.

Jæja, ég er farinn heim að eiga aftanstund með konunni minni.
Góða nótt,
Hr. Pez
by Hr. Pez

25 janúar 2003


Góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar.

(Ég vildi bara svona skjóta þessu hér inn fyrst ég gleymdi því í gær, það er jú nóg eftir af henni enn þá)
Hr. Pez
by Hr. Pez


Ég var að horfa á sjónvarpið í gærkvöldi og það rann upp fyrir mér ljós.

Ég gerði sorglega uppgötvun.

Ég er sennilega langt í frá sá fyrsti sem áttar sig á þessu, en þetta er nokkuð sem hver verður að eiga við sjálfan sig. Svo annað hvort veistu að þetta er satt, eða þú veist að þetta er bara he**ítis kjaftæði sem ég get troðið upp í g**nina á mér.

En Ísland er að deyja.

Ojújú, það er rómað næturlífið í henni Reykjavík. Og lífið á daginn þar litlu síðra. Brjálað stuð og litl ógeðslega gaman vinur.

Og búið. Þá er það upp talið.

Helgi eftir helgi sjáum við Djúpu Laugina brenna út á land með feimin pör í farteskinu og svo er hangið í hverju krummaskuðinu eftir annað og það er alltaf sama sagan. Þau eru öll dauð. Það er ekkert líf eftir neins staðar. Alltaf skal hangið á sama fylliríinu inni á herbergi eins og hægt er og drukkinn í sig kjarkur, því ekki er endalaust umflúið að feisa dreifarann og þá er grafinn upp pöbbinn á staðnum eða barinn á hótelinu og tékkum á stemmingunni. En stemmingin er ekki til. Og dreifarinn er hvergi.

Og svona er þetta svo til alltaf. Stímum á barinn til að sjá hvernig landinn skemmtir sér, og þar er enginn. Landinn er farinn heim. Hann skemmtir sér ekki lengur.

Þetta var ekki svona einu sinni. Það eru ekki nema svona fimm til tíu ár frá síðustu gullöld sveitaballanna, þegar enn riðu hetjur sem hérar og flöskurnar voru bornar inn í kaupfélagspokum og stóðu ófeimnar á borðinu meðan farið var á klósettið eða að kela út undir vegg eða pikka fæting við he**ítin handan að fjalli.

Eða kannski er ég bara orðinn svona gamall. Eða að þetta er allt miklu hressara á sumrin (og jú, ég veit það er allt miklu hressara á sumrin, og Írafár tryllir enn þá hvern húsfyllinn á fætur öðrum). En smátt og smátt er samt eins og þetta sé allt að drepast í dróma. Og barinn lokar klukkan níu eða hvenær sem hentar.

Vissulega er Reykjavík heilinn í Íslandi. Sprelllifandi, sæmilega kvikur og ekkert allt of mikill Alzheimer kominn í hann.

Mikil ósköp, heilinn lifir.

En hjartað er dautt.
by Hr. Pez

23 janúar 2003


Jamm.

Ekki dugir að dissa sinn ört vaxandi aðdáendahóp út af kortinu, svo það er ekki seinna vænna að láta vita að ég er á lífi og hress og sama má segja um alla mína kjarnafjölskyldu. Frúin er í Slóveníu að túlka á einhverjum alþjóðlegum samráðsfundi um eitthvað, dóttirin er hress og spræk á leikskólanum.

Einhverjir eru kannski forvitnir orðnir að vita hvernig við lítum út, og af því tilefni skal hér sýnd mynd af okkur hjónum að dansa af okkur rassgatið. Vinnufélagi minn tók hana á síðustu árshátíð fyrirtækisins. Svo á Gneistinn margar fínar myndir af okkur, og stelpan tekur sig vel út á þessari hérna, til dæmis. Ég er ennþá svo lélegur íessu að ég veit ekki einu sinni hvort og þá hvernig ég get komið fyrir mínum eigin myndum hérna. Djöll eretta slappt.

Ég hef undanfarna daga verið að rifja upp kynni mín af því sem mér finnst vera vanmetnasta rokkhljómsveit níunda og tíunda áratugarins: Throwing Muses. Ég skrifa meira um hana síðar fyrir þá sem koma af fjöllum. En hafið mín orð fyrir því: þau eru frábær. En ég var að uppgötva að ég hef gloprað úr safninu mínu þeirra besta diski: The Real Ramona. Ég lánaði einhverjum hann einhvern tíma, en man hvorugt lengur. Óþolandi þegar svona lagað gerist. Og að sama skapi yndislegt þegar dótið skýtur upp kollinum aftur.

Ég sleppi að planta hugverki á ljod.is þessa vikuna, svo ég slútta þessu í staðinn í dag með limru, reyndar ekkert sérlega dónalegri (og hreint ekki þeirri dónalegustu sem ég hef samið), en hún er um ónefndan vin minn. Þess má til gamans geta að einnig er til af henni lengd og dansvæn kosningaáróðursútgáfa í sonnettuformi:

Í upphafi var flest á huldu um Frosta
Og fátt sem honum talið var til kosta
En seinna sýndi hann
Sinn sanna og innri mann
Í félagsskap um fyllirí og osta.

Sælar stundir,
Hr. Pez
by Hr. Pez

20 janúar 2003


Jæja, smá pása frá vinnu frameftir.

Dóttir mín er veik í dag. Og verður það á morgun. Ekkert alvarlegt, bara ein af þessum pestum sem eru alltaf að ganga. Svo er konan að fara til útlanda á morgun í ofanálag, svo ég mun njóta dásemda þess að vera einstæður grasfaðir fram á helgina.

Það virðist í alvörunni vera til fólk sem er farið að líta við hjá mér stöku sinnum. Ég hef verið stoppaður á götu af ólíklegasta fólki sem segir við mig: "Heyrðu, þú verður að opna gestabók," eða "Ja þú ert nú meiri nördinn að vera farinn að blogga."

Ég veit ekki hversu mikill tími mun vinnast í vikunni til að færa hér inn, en stefnan er þó að koma fyrir hlekk á eitt nýtt ljóð og einum pistli um eitthvað hugðarefni áður en vikan er úti. Sjáum til hvernig veltist.

Annars var helgin bara fín, takk fyrir að hafa á því áhuga. Gneistinn (svo ég kalli hann loksins sínu rétta nafni) og spúsa komu og spiluðu við okkur á laugardagskvöldinu. Það var mjög skemmtilegt kvöld, utan að þau færðu okkur sorglegar fréttir af fólki sem við þekkjum og elskum. Svo fórum við frúin í heimsókn út í bæ í gærkvöldi.

Æ nú fer ég bráðum að fara heim að sofa. Þarf samt að pikka nokkur handtök í viðbót. Svo bara góða nótt.
Hr. Pez
by Hr. Pez

17 janúar 2003


Ég bara get ekki orða bundist.

Sáuði fréttirnar á Stöð 2 í fyrradag?

Þar var sú grátbroslegasta frétt sem ég hef séð í áraraðir. Nefnilega, það að enginn skyldi hafa látið lífið fyrstu nótt Vestmannaeyjagossins var GUÐLEG FORSJÓN! Og svo var sýnd MYNDIN SEM SANNAR ÞAÐ!!!

Umrædd mynd var af gömlu kirkjunni í Vestmannaeyjum, upplýstri með eldstrókana í baksýn. Svo var dreginn hvítur hringur í kring um nóttina til hliðar við stærsta strókinn og stækkaður upp. Og þar blasti víst við Andlit Guðs (það vill segja: Jesú). Ég verð að játa að ég átti í dálitlum vandræmu með að koma auga á það. Fyrst sá ég ekki neitt, bara hraunslettur í næturblekinu. Konan mín sagði reyndar strax, jú það má kannski sjá eitthvað þarna, en hún er nú líka svo mikil elska þessi elska. Svo heyrðist skyndilega í tengdamömmu: Jú gvöð þarna eretta! En það var þá bara handteiknuð mynd af skeggjuðu andliti sem lögð var ofan á ljósmyndina og birtist hægt og hægt til að "beina fólki í rétta átt." Svo þegar hún var fjarlægð aftur (myndin, ekki tengdamamma) sá tengdó jafn lítið út úr þessu og ég.

Svo var þarna viðtal við manninn sem "gerði uppgötvunina." Þetta var greinilega vænsti strákur sem vildi vel og stóð á þessu fastar en fótunum: Sáuðiðettekki?! Ha?!! og var voða stoltur og glaður yfir að vera í sjónvarpinu. En það væri ég nú líka, bara svona almennt séð. Alltaf gaman að koma í sjónvarpið.

En fólk er alltaf að sjá andlit alls staðar. Andlit Guðs í hraunstrók í Vestmannaeyjum. Andlit Satans og engill dauðans í reyknum úr World Trade Center. Andlit geimveranna á Mars. En hvað ég vildi óska að það þýddi eitthvað að segja SNAPP ÁT OF ITT FOR KRÆNG ÁT LÁD!!!!! Okkur er eðlislægt að reyna að sjá mynstur út úr því sem fyrir augu okkar ber. Við ráðum ekki við það. Og við eigum svo auðvelt með að skálda í eyðurnar (en þó misauðvelt: Sáuðiðettekki?! Ha?!!). En það er eitt sem er svo auðvelt að gleyma. Þó svo tilviljanir séu ólíklegar þá hafa þær bara svo miklu fleiri tækifæri til að birtast okkur en við gerum okkur grein fyrir í fljótu bragði. Svo endrum og sinnum (og það bara nokkuð hreint býsna oft) sjáum við þessar skrýtnu og skemmtilegu (eða sorglegu) tilviljanir. Og finnst ótrúlegt að svona lagað geti gerst fyrir tilviljun.

Svo er merkilegt hvað það er fólki mikil freisting að blanda honum Guði blessuðum inn í þetta alsaklausum. Og við sem þurfum ekki nema að ganga upp í næsta klettagil eða út á næstu hraunbreiðu til að sjá andlit í grjótinu til hægri og vinstri. Í gamla daga sagði fólk að þetta væru tröll sem hefðu dagað uppi. En sannkristið fólk veit jú að það "getur ekki verið skýringin í alvörunni." Augljóslega hlýtur skýringin að vera sú að Guð er að skilja eftir prófílinn af sér út um hvippinn og hvappinn, höggvinn í stein hér og þar upp um fjöll og firnindi. Ég er bara hreint býsna undrandi að hafa ekki séð þessa forsíðufrétt enn þá:

KÁRAHNJÚKAVIRKJUN ALMÆTTINU EKKI ÞÓKNANLEG!
SJÁIÐ MYNDINA SEM SANNAR ÞAÐ!!!
ANDLIT GUÐS Í KLETTAVEGG Í DIMMUGLJÚFRUM!!!!!
(nánar á bls. 3)

Og með það er ég að hugsa um að óska öllum sem lesa þetta góðrar helgar. Gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar.
Hr. Pez
by Hr. Pez

15 janúar 2003


Hmmm.

Æi þetta var nú klaufalegt.

Ég er smátt og smátt að læra hvernig á að gera hlutina og hvernig ekki. Hvað í því felst að vera bloggari og svoleiðis. Fyrr í dag kom ég fyrir teljara til að fylgjast með því hvort það væri órhóðensis einhver sem kæmi í heimsókn til mín (það er allavega einn nú þegar sem er einhver annar en ég sjálfur). En sumsé, tilraunastarfsemin hleypur með besta fólk í gönur endrum og eins og ég er einn af þeim.

Hebbíddi gaman aððessu samt maðuuur?! Haaaaa?!!!

Á listanum yfir hluti til að bæta þegar ég nenni og verð búinn að læra hvernig virkar er gestabók, eða einhvers konar oppsjón til að kommentera á þetta tuð í mér hérna.

Svo bara kveðjur og takk fyrir í dag.
Hr. Pez
by Hr. Pez


Jæja.

Ég er búinn að vera svo góður við andlegu hliðina á mér það sem af er ári (en það var jú líka áramótaheitið). Nú er bara að halda uppteknum hætti og láta ekki deigan síga Guðmundur.

Það er stefnan að halda áfram að dæla út svona uþb einu ljóði á viku á ljod.is og þeir sem fylgja hlekknum sjá jú að þeim upptekna hætti er haldið. Ég ætla ekki að lofa að ég stundi þetta neitt mikið lengur en inn í febrúar, en svo lengi endast birgðirnar af ljóðum sem áður hafa birst eftir mig á prenti.

Boltinn er sko aldeilis farinn að rúlla og ég er hræddur um að ég þurfi að standa mig í stykkinu með að halda þessu við hérna, enda kominn á mig hlekkur frá viðurkenndri pólitískri maddömmu. Hún titlar mig víst "Vektorinn," sem hefur sennilega eitthvað að gera með það þegar ég tók hann Odd son hennar í einkakennslu í samnefndum fræðum. Annars var ég um daginn að lána honum svölustu bókina úr síðasta flóði, Áhyggjudúkkur eftir Steinar Braga. Þar heldur mikill höfuðsnillingur á penna og synd hvað hann hefur mestanpartinn flogið undir ratsjám það sem af er. Eða heljarmikil guðsblessan, ég á erfitt með að gera upp hug minn með það.

En hann Oddur ætlar sér sumsé að skrifa um hana ritgerð, og er það vel, enda álitamálin mörg þar á ferðinni, og lallalalla Eyjólfur. Kannski ég bjóði honum í bókakaffi um helgina stráknum til bókmenntafræðilegs skrafs og ráðagerða.

Jæja.

Þetta er nú aldeilis orðið kjaftnóg í bili. Ég er að fríka út á hlekkjunum, en hei, út á það genguretta. Ehaggi? Haaaa?!
by Hr. Pez

13 janúar 2003


Gleðilega nýja vinnuviku.
Það var voða gaman hjá mér um helgina. Við spúsan sáum Tvítyrnið á föstudagskvöldið var og skemmtum okkur konunglega. Mér fannst hún betri en sú fyrsta ef eitthvað er. Svo komu Frosti, Óli og Eygló í heimsókn á laugardagskvöldinu og horfðu með okkur á stórfenglegan nördaþátt í PPPP. Frosti fór en við hin spiluðum Leónardó og kumpána fram undir miðnættið. Það var ágætlega gaman.
Synd að nú er PPPP á enda runnið í vetur. Ég vona nú samt að Óli og Eygló eigi eftir að reka inn nefið annað veifið þrátt fyrir að afsökunin sé gufuð upp (þau hafa nebblega ekki loftnetið í að horfa á það). Þau eiga víst eitthvað skemmtilegt spil núna sem við höfum ekki spilað við þau ennþá.
Ég er hætturessu.
by Hr. Pez

10 janúar 2003


Jæja, þá er viðburðarík vinnuvika um það bil á enda runnin. Ég má ekkert skrifa um það hér, enda er hvað ég geri í vinnunni bundið þagnareiði (úúúúúúú...).
Allavegana.
Skemmtileg helgi framundan. Við hjónin skreppum í bíó í kvöld, loksins að sjá Tvítyrnið. Tengdó passa.
Svo verður stuð annað kvöld eins og áður var getið. Frosti, Eygló, Óli frændi (hann er ekkert frændi minn í alvörunni sko) og etv vinur minn Manngintez, hann hefur ekki svarað boðpósti þar að lútandi enn þá. Ég bjalla í hann einhvern tíma fyrir kvöldið.
Nú veit allavega einn maður í öllum heiminum af þessari síðu hérna svo ég get bráðum farið að tala í annarri persónu fleirtölu: Ég læt ykkur vita hvernig fer.
Reyndar verðurðu þarna sjálfur Óli minn, svo þú þarft nú varla að lesa um það hér. Héhéhéhéhéhé...
Svo þarf ég að muna að kæla drottningarbjórinn minn fyrir annað kvöld.
Góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar.
by Hr. Pez

08 janúar 2003


Undanfarið hefur átt sér stað í Lesbók Morgunblaðsins lífleg bókmenntaleg umræða um það hvað Sveinbjörn heitinn Egilsson var að fara með kviðlingnum sínum um hvítu fiðrildin. Gaman er að sjá hve misjafnlega fólk skilur vísuna, enda er það til vitnis um það hve hún er hreint frábær, alveghreint brillíant að hægt sé að skilja þessar fjórar látlausu línur á svo mismunandi vegu. En enn er nokkurs ógetið.
"Kristín segir tíðindi," er vísan titluð, og vísar til dóttur skáldsins, barns að aldri. Sjálfur á ég dóttur sem komin er ögn á veg með máltökuna. Endrum og sinnum dugir orðaforðinn ekki alveg til að lýsa hugarfluginu svo grípa þarf til orða sem fullorðnu fólki dytti aldrei í hug að nota. Svo sem þegar hún talaði um blóm í munni sér þegar henni óx ný tönn. Ég hef alltaf skilið kvæðið sem svo að svipuð úrræðagæði hafi orðið Sveinbirni innblástur, stúlkan hafi séð snjónum kyngja niður en vantað orð til að lýsa honum og gripið til fiðrildanna í staðinn.
En hvað um seinni hlutann? Þarna siglir inn, segir skáldið, einhver ofurlítil dugga. Ekki bara lítil, heldur ofurlítil. Rosalega lítil, á nútímamáli. Það er djúpt í árinni tekið. Vel má vera að það hve langt hún er í burtu valdi því hve hún virðist rosalega lítil, en er hitt ekki fullt eins sennilegt að um sé að ræða svo ofurlitla duggu að hún geti siglt inn um opinn glugga á mildu vetrarkvöldi og tekið land í lófa manns?
Nóg um það.
Mér er enn í fersku minni er ég sá hvítt fiðrildi fyrsta sinni. Ég var kominn eitthvað áleiðis á þrítugsaldurinn og rak augun í snjóhvíta flygsu á flögri um blómagarð í Austur-Evrópu um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar. Fyrst botnaði ég ekkert í því hve líflega þessi pappírsflygsa -- er mér virtist -- dansaði í heitri golunni áður en ég áttaði mig á hvers kyns var. Og yfir mig helltust skáldlegar hugsanir um snjókorn í blómahafinu, svo mér dansaði fyrir augum viðsnúningur fyrstu myndhverfingar sem móðir mín útskýrði fyrir mér á barnsaldri. Er þarna var komið sögu hafði ég lifað og hrærst á landinu bláa nærri hálfan þriðja áratug, og aldrei fyrr hvítt fiðrildi lifandi augum litið, hvað þá séð þau flögra um hópum saman. Hvernig getur staðið á því?
Jú, í stuttu spjalli sem ég átti við Erling Ólafsson skordýrafræðing á Náttúrufræðistofnun Íslands á dögunum fékk ég staðfestan þann grun minn að engar hvítar fiðrildategundir fyrirfinnast á Íslandi. Til er ein sem nefnist Hvítfeti (Perizoma blandiata) en sú er í raun ljósdröfnótt eða í besta falli hálfhvítflikrótt á vænginn, afar fágæt en hefur fundist á fáeinum stöðum á suðaustanverðu landinu. Endrum og sinnum slæðast hingað með skipsförmum hvít fiðrildi af ýmsum tegundum, en þó varla nema eitt og eitt í senn. Ekki er kunnugt um að neinar hvítar fiðrildategundir hafi orðið útdauðar úr íslenskri fánu síðasta árhundraðið.
Nú er erfitt að útiloka að skáldið hafi tekið sér leyfi við útlitslýsinguna, enda fátt skáldlegt við línuna "Fljúga ljósbrúnu fiðrildin." En ef taka skal kvæðið bókstaflega má ljóst vera af ofangreindu að stórri spurningu er ósvarað, nefnilega, hvaðan flugu hvítu fiðrildin, þau er Sveinbjörn kvað um forðum?
by Hr. Pez


Jæja já.
Allt brjálað í vinnunni, en tökum okkur tíu mínútna pásu.
Vildi bara skjóta inn að ég var að planta hugverki á ljod.is. Það er rosa gott, reyndar orðið yfir sjö ára gamalt og hefur birst á prenti.
Hættur í bili.
by Hr. Pez

07 janúar 2003


Reynum þetta aftur, það gekk svo vel síðast.
Nú er ég orðinn árinu eldri en ég var í fyrradag (Til hamingju með afmælið!). Já, ég átti þrjátíuogeinsárs afmæli í gær. Voðalega er ég orðinn gamall. Við gerðum voða lítið í tilefni dagsins. Ég opnaði pakka með mæðgunum mínum í rúminu um morguninn, svo fórum við út að borða á Grillhúsinu um kvöldið. Svo var jólaskrautið tekið niður (alltaf dáldið deprimerandi að gera það á afmælisdaginn, einn af fáum göllum við hann). Fékk hamingjukveðjur frá Frosta og Hrönn yfir internetið. Í þakklætisskyni bauð ég Frosta (sem mun færa mér disk með heimilisiðnaði, JIBBÍ!!!) í heimsókn á laugardagskvöldið kemur að horfa á PPPP og spila Leónardó (sem mér var einmitt gefið í gærmorgun) við okkur konuna og Eygló og Óla uppáhaldsfrænda.
Í það heila tekið ágætur dagur. Endaði á því að við feðginin horfðum á flugelda í 20 mín áður en stelpan fór í rúmið. Eitt af þessum litlu indælu augnablikum sem mann langar til að gráta yfir.
Annars er það bara horngrýtis djobbið. Deddlæn á föstudagsmorguninn kemur sem ég er að drulla í brækurnar yfir. En lífið heldur jú alltaf áfram.
Svo verður gaman í kvöld að mæta á fyrstu kóræfinguna á nýju ári.
Hr. Pez.
by Hr. Pez

05 janúar 2003


Jæja, þetta tók ekki langan tíma.
Í smá pásu frá vinnuerlinum á bévítans sunnudegi ákvað ég að prófa þetta og hei! það tók ekki nema nokkrar mínútur. Sjáum til hvernig virkar.
Ef einhver sér þetta má hann skila kærum kveðjum til Óla Uppáhaldsfrænda fyrir að sá fræjum uppátækisins í huga mér. Sjáum til hvernig lítur út núna.
Bless, eða bara bless á meðan, því ef einhver getur séð þetta hér er pottþétt að meira kemur á eftir.
Hr. Pez.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com